Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

JÓLSTEMNING Á ÍSÓ Á MORGUN

Það verður sannkölluð jólastemning á Ísó á morgun. Kómedíuleikhúsið sýnir jólaleikritið vinsæla Jólasveinar Grýlusynir í Tjöruhúsinu kl.14.00. Þetta er fimmta sýning á leiknum sem hefur vakið mikla athygli vestra enda er hér á ferðinni vandað alíslenskt jólaleikrit um gömlu jólasveinana. Að lokinni sýningu er að vanda boðið uppá heitt súkkulaði og heimabakaðar smákökur. Klukkutíma eftir sýningu eða kl.16. verður síðan kveikt á jólatrénu á Ísafirði sem er staðsett á Silfurtorgi að vanda. Þar verður boðið uppá vandaða jóladagskrá söng og sprell m.a. verður sýnt brot úr Jólasveinar Grýlusynir. Að sjálfsögðu munu svo jólasveinar mæta á staðinn en það eru þeir Hurðaskellir og Stúfur en þeir hafa herjað á Vestfirði síðastliðin ár einsog þeim einum er lagið.

komiskir jolasveinar Askasleikir, Bjúgnakrækir og unglingspilturinn í Jólasveinar Grýlusynir.

Mynd: Halldór Sveinbjörnsson.


NÝ HLJÓÐBÓK VÆNTANLEG - ÞJÓÐSÖGUR ÚR ÍSAFJARÐARBÆ

Kómedíuleikhúsið vinnur nú að útgáfu hljóðbókarinnar Þjóðsögur úr Ísafjarðarbæ og er hún væntanleg á markaðinn næstu daga. Ísafjarðarbær er mikið og stórt sagnasvæði sem nær allt frá Dýrafirði til Hornstranda. Á þessari hljóðbók eru 33 þjóðsögur sem er skipt niður í fimm flokka: Álfa- og huldufólkssögur, Draugasögur, Galdrasögur, Skrímslasögur og Tröllasögur. Sögurnar eru sóttar í hin ýmsu þjóðsagnasöfn einsog safn Jóns Árnasonar og Arngríms Fr. Bjarnasonar. Það er Kómedíuleikarinn sem flytur sögurnar. Hljóðbókin er nú í fjölföldun og ætti að vera komin á markaðinn í byrjun desember. Þetta er önnur hljóðbókin sem Kómedíuleikhúsið gefur út en í vor sendi Kómedía frá sér bókina Þjóðsögur úr Vesturbyggð. Hljóðbækurnar fást í vefverslun Kómedíuleikhússins www.komedia.is og er þegar byrjað að taka við pöntunum á nýju hljóðbókinni, Þjóðsögur úr Ísafjarðarbæ. Einnig eru hljóðbækurnar til sölu á Hótel Ísafirði, í versluninni Orkustein á Ísafirði og Veitingastofunni Vegamót á Bíldudal.

 


KÓMEDÍULEIKARINN Í GRUNNSKÓLA

Kómedíuleikarinn fer víða og að undanförnu hefur hann unnið með nemendum við Grunnskólann á Ísafirði. Er þetta stór og mikill leikhópur sem hefur staðið sig með miklum sóma á æfingatímanum en ungu leikararnir eru þó aðeins byrjaðir að naga neglurnar fyrir frumsýningu sem er núna á föstudaginn. Enda mikilvægt að frumsýningarstressið sé til staðar annars væri nú ekkert gaman að standa í þessu. Sýning hópsins nefnist Bútasaumur og Blómasúpa og er brjáðfjörugt og fjölbreytt stykki með kabarett ívafi. Frumsýnt verður föstudaginn 30. desember í sal Grunnskólans á Ísó. En löng hefð er fyrir því að nemendur frumsýni leikverk á þessum árstíma. Önnur sýning verður á mánudag kl.20.

GEFÐU GÓÐA GJÖF GEFÐU KÓMÍSKA JÓLAGJÖF

Margir eru nú farnir að huga að jólagjöfunum enda desember rétt að bresta á og hvað er betra en að geta notið jólamánaðarins og vera búinn með gjafainnkaupinn sem fyrst. Kómedíuleikhúsið hefur á boðstólunum glæsilegar gjafir fyrir fólk á öllum aldri. Það er auðvelt að panta bara senda tölvupóst og Kómedía sendir hvert á land sem er og líka til úttlanda. Og takið eftir það er hægt að greiða með greiðslukorti sem er nú ekki slæmt á þessum árstíma. Hjá Kómedíuleikhúsinu geturðu fengið hljóðbókina Þjóðsögur úr Vesturbyggð, einleikjabókina Íslenskir einleikir og einleikinn Steinn Steinarr á DVD. Verðið er Kómískt að vanda. Gefðu góða gjöf gefðu Kómíska jólagjöf.

ÞJÓÐSÖGUR ÚR VESTURBYGGÐ
Hljóðbók
Lesari: Elfar Logi Hannesson
Lengd: 99. mín.
Verð: 1.999.- kr.
Panta:
komedia@komedia.is
Vesturbyggð er mikið sagnasvæði þar hafa skrímsli, tröll, álfar og ýmsar furðuverur verið á sveimi svo elstu menn muna. Á þessari hljóðbók les Elfar Logi Hannesson,leikari, úrval þjóðsagna úr Vesturbyggð. Alls eru fluttar 33 sögur og er þeim skipt niður í fimm þjóðsagnaflokka: Álfa- og huldufólkssögur, Draugasögur, Galdrasögur, Skrímslasögur og Tröllasögur. Hér er á ferðinni vönduð útgáfa sem inniheldur einstakan sagnaarf í vönduðum fluttningi.

ÍSLENSKIR EINLEIKIR
Höfundar: Ýmsir
Útgáfuár: 2006
Bls. 308
Tilboðsverð: 1.500.- krónur
Var áður: 3.290.- krónur
Panta:
komedia@komedia.is
Hér er á ferðinni alveg einleikin bók sem jafnframt er fyrsta útgáfa sinnar tegundar hér á landi. Í bókinni eru alls 11 íslenskir einleikir frá ýmsum tímum og af ýmsum gerðum fyrir alla aldurshópa. Leikirnir í bókinni eru: Dimmalimm, Gísli Súrsson, Glæsibæjareintölin, Hinn fullkomni jafningi, Hversu langt er vestur, Leifur heppni, Óvinurinn, Sagan af Loðinbarða, Síðasta segulband Hrapps, Sveinsstykki, Þrjár Maríur. Jón Viðar Jónsson ritar formála bókarinnar.

STEINN STEINARR - EINLEIKUR Á DVD
DVD
Leikari: Elfar Logi Hannesson
Handrit: Elfar Logi Hannesson, Guðjón Sigvaldason
Leikstjórn: Guðjón Sigvaldason
Verð: 1.500.- krónur
Panta:
komedia@komedia.is
Einleikur Kómedíuleikhússins Steinn Steinarr er nú loksins fáanlegur á DVD. Leikurinn er byggður á verkum og ævi skáldsins en 98% textans er eftir Stein sjálfan. Þetta er mjög áhugaverð, vel gerð og skemmtileg sýning sem hlaut mikla athygli þegar hún var frumsýnd árið 2003. Ekki má heldur gleyma fræðslugildi verksins sem er mjög mikið.
Steinn Steinarr er eitt þekktasta ljóðskáld Íslendinga á 20. öld. Hann hét réttu nafni Aðalsteinn Kristmundsson og fæddist árið 1908. Þegar Steinn kom fram á ritvöllinn hóf hann þegar að brjóta reglur sem ríkt höfðu í skáldskap um langa hríð og varð mjög umdeildur fyrir vikið. Harðorðar greinar birtust í blöðum um Stein og skáldskapur hans var kallaður tómvitleysa af sumum. Aðrir á hinn bóginn fögnuðu framlagi hans og töldu að loksins væri komið fram skáld sem þyrði að breyta staðnaðri, íslenskri ljóðlist. Núna hrífast flestir af skáldskap Steins. Ljóð hans eru þjóðinni mjög kær og við mörg þeirra hafa verið samin lög. Steinn Steinarr andaðist árið 1958, rétt tæplega fimmtíu ára að aldri.


200 ÁHORFENDUR

Jólaleik Kómedíuleikhússins Jólasveinar Grýlusynir hefur verið vel tekið. Nú þegar er búið að sýna verkið 4 sinnum og hafa um 200 manns séð leikinn sem er sérlega gott þar sem leikhúsið tekur ekki nema 55 manns í sæti. Jólasveinar Grýlusynir verður á fjölunum í Tjöruhúsinu á Ísafirði allar helgar í nóvember og desember. Næsta sýning er á laugardag 1. desember kl.14.00. Miðasala stendur yfir  á heimasíðu Kómedíu www.komedia.is undir liðnum Kaupa miða. Allir í jólaleikhús.

komiskur jolasveinn2Kómedíuleikarinn og Stúfur í stuði.

Mynd: Halldór Sveinbjörnsson


KÓMÍSKU SVEINARNIR SLÁ Í GEGN NÆSTA SÝNING Á MORGUN SUNNUDAG

Það er sannkölluð jólasveinaævintýrastemning sem ríkir í Tjöruhúsinu á Ísafirði þessa dagana. Þar hafa Kómískur jólasveinarnir komið sér fyrir og sýna ævintýri sitt allar helgar fram að jólum. Næsta sýning er á morgun, sunnudag, kl.14.00. Miðaverðið er Kómískt að vanda eða aðeins 1.900.kr. og er heitt súkkulaði og heimabakaðar smákökur frá Grýlu í eftirrétt. Miðapantanir á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is

jólasveinar 005 Gluggagæi finnst nóg að glápa innum gluggana

jólasveinar 004 Þvörusleiki finnst gaman þegar margir koma saman og elda sér mat í potti því þá veit hann að þvaran bíður hans.


JÓLASVEINAR GRÝLUSYNIR MÁLA BÆINN RAUÐAN ALLA HELGINA

Jólaleikritið Jólasveinar Grýlusynir verður á fjölunum í Tjöruhúsinu á Ísafirði alla helgina. Sýnt verður bæði laugardag og sunnudag  kl.14. Miðapantanir á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is Miðaverð er aðeins krónur 1.900.- og er heitt súkkulaði og heimabakaðar smákökur innifalið í miðaverði. Jólasveinar Grýlusynir hefur fengið frábærar undirtektir áhorfenda en leikurinn var frumsýndur um síðustu helgi fyrir fullu Tjöruhúsi. Einnig var uppselt á sýningu númer tvö en nú er laust á sýningar helgarinnar og um að gera að vera snöggur og panta sér miða. Jólasveinar Grýlusynir er bráðfjörugur leikur um gömlu íslensku jólasveinana þar sem ýmsum spurningum er svarað um þessa skemmtilegu vini okkar í fjöllunum. Jólasveinar Grýlusynir leika á alls oddi, þeir sprella og syngja vísurnar sínar við tónlist Hrólfs Vagnssonar. Kómedíuleikarinn er á sviðinu að vanda, Jóhann Daníel er ljósameistari, Marsibil G. Kristjánsdóttir er hönnuður sveinanna sem birtast bæði sem brúður og grímur og Soffía Vagnsdóttir leikstýrir. Allir í leikhús um helgina. Hlakka til að sjá ykkur í Tjöruhúsinu ævintýrahúsi jólasveinanna.

komiskur jolasveinn Gáttaþefur syngur um nefið sitt sem er næmast allra nefja.

Mynd: Halldór Sveinbjörnsson


ÉG BIÐ AÐ HEILSA Í BOLUNGARVÍK

Ljóðaleikurinn Ég bið að heilsa verður sýndur í Einarshúsi í Bolungarvík í kvöld. Sýningin hefst kl.20.00 og verður boðið uppá hressandi veitingar að hætti Vertsins í Einarshúsi. Þetta er fjórða sýning á Ég bið að heilsa og hafa viðtökur verið mjög góðar. Í gærkveldi var boðið uppá danskt Smörrebröd á undan leiksýningu og mæltist það vel fyrir enda dvaldi þjóðskáldið lengi í Danaveldi. Stefnt er að því að sýna leikinn víðar um Vestfirði á næstunni og jafnvel verður farið útfyrir kjálkann. Sjáum til. Þeir félagar Elfar Logi og Þröstur segjast vera til í ýmislegt þessvegna að sýna leikinn í Alþjóðahúsinu í borginni eða í Norrænahúsinu. Semsagt allt opið. En byrjum á Bolungarvík þar verður Jónasardagskráin Ég bið að heilsa á fjölunum í Einarshúsi í kvöld klukkan átta. Heyrst hefur að Víkarar ætli að fjölmenna.

eg bid ad heilsaKómedíuleikarinn og Þröstur Jóhannesson í Jónasarsfíling.

Mynd: Halldór Sveinbjörnsson.


SMÖRREBRÖD OG ÞJÓÐSKÁLDIÐ JÓNAS Á ÍSÓ Í KVÖLD

Aukasýning á ljóðaleiknum Ég bið að heilsa verður á veitingastaðnum Við Pollinn á Ísafirði í kvöld 21. nóvember. Að þessu sinni verður boðið uppá ekta danskt smörrebröd með sýningunni sem er vel við hæfði þar sem skáldið dvaldi lengi í Danaveldi. Borðhald hefst kl.19.00 og sýningin klukkustund síðar. Miðaverð er aðeins krónur 2.900.- og miðapantanir í síma 456 3360. Það er Kómedíuleikarinn og Þröstur Jóhannesson, tónlistarmaður, sem flytja verk Listaskáldsins góða í leik, tali og tónum. Rétt er að geta þess að Þröstur flytur frumsamin lög við ljóð skáldsins. Fleiri sýningar á Ég bið að heilsa eru á teikniborðinu, meira um það síðar. En allir í smörrebröd og Jónasarljóðaveislu í kvöld.

AUKASÝNING Á ÉG BIÐ AÐ HEILSA Á MORGUN

Vegna fjölda áskoranna verður aukasýning á ljóðaleiknum Ég bið að heilsa á morgun á veitingastaðnum Við Pollinn á Ísafirði. Að þessu sinni verður boðið uppá ekta smörrebröd með sýningunni. Borðhald hefst kl.19.00 og sýningin klukkustund síðar. Miðapantanir í síma 456 3360 en miðaverð er mjög Kómískt að vanda eða aðeins 2.900.- krónur fyrir mat og leiksýningu. Ég bið að heilsa er ljóðaleikur settur á svið í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar. Í sýningunni fer leikarinn Elfar Logi Hannesson með ljóð skáldsins í leik og tali. Með honum á senunni er tónlistarmaðurinn Þröstur Jóhannesson sem flytur frumsamin lög við ljóð Listaskáldsins góða.

eg bid ad heilsa Elfar Logi Hannesson og Þröstur Jóhannesson í sönnum ljóðafíling.

Ljósmynd: Halldór Sveinbjörnsson.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband