Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
STÚFUR YRKIR OG TVISTAR UM LEIÐ
14.12.2007 | 11:12
Einn vinsælasti jólasveinn síðari ára er án efa stubburinn Stúfur. Hann tvistaði milli landshorna í alla nótt enda þekktur tvistari já nú þarf Sæmi Rokk að fara að æfa sig. Þó nóttin hafi verið erfið er Stúfur hress og kátur og ætlar hann að mæta í Tjöruhúsið á Ísafirði á morgun, laugardag, og sprella með bræðrum sínum í jólaleikritinu Jólasveinar Grýlusynir. Ekki nóg með það heldur ætlar hann líka að vera í leikhúsinu á sunnudag og hefjast báðar sýningar kl.14.00. Miðasala er á heimasíðu Kómedíu www.komedia.is Stúfur hefur samið nýja vísu og þar kemur margt óvænt í ljós einsog lesa má hér:
STÚFUR
Ég er jólasveinn og heiti Stúfur
og ég er alveg einstaklega ljúfur.
Ég læt nú ekki mikið á mér bera
en samt er ég þó ýmislegt að gera.
Þótt ég sé smár er margt mér lagt til lista,
ég kann til dæmis feiknavel að tvista.
Þá beygi ég mig örlítið í hnjánum
og teygi síðan vel úr öllum tánum.
Um leið og jólatjútt og tvist ég heyri,
þá tvista ég og allt um kollinn keyri.
Já ég er nú meiri KALLINN!
Í Grýluhelli heppilegt það er
hversu lítið þar fer fyrir mér.
Ef einhver missir tölu undir borðið
þá beinist næstum alltaf til mín orðið:
,,Stúfur litli viltu hjálpa mér?
Það er segin saga, - þá undir borð ég fer.
Menning og listir | Breytt 15.12.2007 kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
GILJAGAUR YRKIR MEÐ KROSSLAGÐA FÆTUR
13.12.2007 | 13:33
Giljagaur er kominn í bæinn og hafði í mörg horn að líta í nótt. Það kom sér heldur betur vel í nótt að hann gat notað sinn góða hæfileika að skoppa um einsog gormur einsog hann segir í kvæðinu sínu. Giljagaur er ein af 13 stjörnum jólaleikritsins Jólasveinar Grýlusynir sem sýnt er um helgar á Ísafirði við miklar vinsældir. Næstu sýningar eru á laugardag og sunnudag og hefjast kl.14.00 miðasala er á heimasíðu Kómedíu www.komedia.is Jólasveinastjarnan í dag er Giljagaur og hér kemur vísan hans:
GILJAGAUR
Giljagaur heiti ég
með krosslagða fætur
fætur sem ég hef
hef dásamlegar mætur.
Um gilin ég hoppa
án þess að stoppa,
um fyrnindi og fjöllin,
- heilsa upp á tröllin.
Til bæja ég held
hvert einasta kveld
dagana fyrir jólin
þegar sólin, blessuð sólin
er sest á bak við hólinn.
Giljagaur heiti ég
og er eins og gormur.
Gormur sem snýst
eins og endilangur ormur.
Ferðast í stuði
en stundum þó með puði
upp klungur og kletta
og stundum er að detta.
Til bæja ég held
hvert einasta kveld
dagana fyrir jólin
þegar sólin, blessuð sólin
er sest á bak við hólinn.
STEKKJASTAUR HEFUR SAMIÐ NÝJA VÍSU
12.12.2007 | 11:57
Hann er mættur hinn langi jólasveinn sem nefndur er Stekkjastaur og er væntanlega nokkuð lúinn þegar þetta er ritað eftir að hafa sett í ég veit ekki hvað marga skó í nótt. Stekkjastaur hefur samið nýja vísu en til þessa hefur aðallega ein vísa verið í umræðunni en það er að sjálfsögðu klassíkerinn sem hefst á þessum orðum ,,Stekkjastaur kom fyrstur...." eftir Jóhannes úr Kötlum. Stekkjastaur hefur samið nýa vísu og hefur flutt hana með miklum bravúr í leikritinu Jólasveinar Grýlusynir hjá Kómedíuleikhúsinu. Hér kemur vísa Stekkjastaurs:
STEKKJASTAUR
Svakalega er ég orðinn langur!
Hann reynir líka á mig þessi gangur,
að bera búkinn efst á þessum fótum
- svona ljótum!
Tærnar á mér teygjast fram í spíss,
sem getur verið gott við klifur íss,
og skeggið hlýjar minni hvössu höku.
Þó vandast málið ef ég borða köku,
ef hrekkur mylsna oní lúsug hárin
þá segi ég í hálfum hljóðum - fjárinn!
Svo sting ég upp á því við gamla brýnið (hana Grýlu)
að þvo og snyrta á mér greppitrínið (ég í fílu!).
Stekkjastaur orðinn svaka langur eftir langan gang.
KERTI SPIL OG SKATA Á AÐFANGADAG Á GUFUNNI
11.12.2007 | 16:44
Kómedíuleikarinn og Jóna Símonía Bjarnadóttir verða með sérvestfirskan jólaútvarpsþátt á Rás eitt á aðfangadag kl.11.03. Í þættinum munu þau fjalla um jólin fyrir vestan frá ýmsum hliðum sagt verður frá jólasiðum, lesin jólaljóð vestfirskra skálda og hlustendur heyra af jólum þriggja vestfirskra listamanna. Sagt verður frá síðustu jólum Guðmundar Thorsteinssonar eða Muggs einsog hann er betur þekktur einnig frá jólahaldi Skáldsins á Þröm og Jakobínu Sigurðardóttur. Jólatónlistin verður á sínum stað og verður hún sótt í tvær af vinsælustu jólaplötum Íslendinga. Já alveg rétt það eru skífur Þrjú á palli og þeirra Vilhjálmssystkina. Jólaþátturinn Kerti, spil og skata verður síðan endurfluttur laugardaginn 29. desember.
Leikin verða lög eftir þessari frábæru jólaplötu í þættinum Kerti, spil og skata á aðfangadag á gömlu gufunni.
TIL HAMINGJU ERLENDUR ÉG MEINA INGVAR
11.12.2007 | 13:46
Ingvar fékk Napapijri-verðlaunin fyrir Erlend | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
UPPSELT Á JÓLASVEINA GRÝLUSYNI Á MORGUN
10.12.2007 | 18:47
Það er góður gangur á Kómísku sveinunum frábær aðsókn var á sýningar helgarinnar og vel pantað á næstu sýningar. Uppselt er á sýningu á morgun, þriðjudag, en næstu sýningar eru um helgina og verður sýnt bæði laugardag og sunnudag kl.14.00 báða dagana. Jólasveinarnir eru svo kátir að þeir hafa ákveðið að skella á einni aukasýningu á ævintýrinu sínu. Auksýning verður korter fyrir jól eða laugardaginn 22. desember kl.14.00. Sala á aukasýninguna er hafin hér á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is einnig er miðasala í fullum gangi á aðrar sýningar. Allir í jólaleikhús.
ÞETTA MUNDI GRÝLA ALDREI KAUPA GILT
10.12.2007 | 11:08
13 þúsund jólasveinar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
HVAR ERU JÓL?
9.12.2007 | 22:17
Hér kemur annað vestfirskt jólaljóð eftir ísfirsku fjöllistakonuna Steingerði Guðmundsdóttur. Ljóðið heitir Hvar eru jól?
HVAR ERU JÓL?
Hvar eru jól - mín jarðheimsvitund spyr -
jólaljós er hjarðmenn þekktu fyrr?
Hvar sá friður er færði nóttin hljóð -
fögnuður við engla hörpuljóð?
Hvar eru gull sem gleðja lítið barn
er grátið ráðvillt flýr um eyðihjarn?
Hvar sú hönd er höfug þerrar tár
af hrjúfri ellibrá og mýkir sár?
Hvar - spyr mín vitund - sprettur jólarós
ef sprengjur verða mannsins trúarljós?
JÓLALJÓÐ EFTIR JÓN ÚR VÖR
8.12.2007 | 18:58
Jól,
kertaljós í bláum fjarska,
bak við ár,
æskuminning um fegurð.
Stíg ég hreinn upp úr bala
á eldhúsgólfinu,
signdur af þreyttri móður
færður í nýja skyrtu.
Jól,
fagnaðartár fátæks barns
Menning og listir | Breytt 9.12.2007 kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
MENNINGARRÁÐ VESTFJARÐA STYRKIR KÓMEDÍULEIKHÚSIÐ
7.12.2007 | 17:29
Það var mikil hátíðarstund í lista- og menningarsögunni á Vestfjörðum í dag þegar nýstofnað Menningarráð Vestfjarða úthlutaði styrkjum í fyrsta sinn. Athöfnin var haldin í Náttúrugripasafninu í Bolungarvík og var mikil eftirvænting í lofti þegar þessi fyrstu menningarúrslit voru kynnt. 20 millur voru til úthlutunnar fyrir verkefni sem unnin hafa verið á þessu ári eða eru á framleiðslustigi. Kómedíuleikhúsið datt heldur betur í lukkupottinn og fékk styrki vegna fimm verkefna: Act alone leiklistarhátíð 2007, Jólasveinar Grýlusynir, Ég bið að heilsa og fyrir hljóðbækurnar tvær Þjóðsögur úr Vesturbyggð og Þjóðsögur úr Ísafjarðarbæ. Kómedíuleikhúsið þakkar Menningarráði kærlega fyrir ómetanlegt framlag til þessara verkefna. Kemur þetta að mjög góðum notum þar sem listastarfsemi kostar alltaf slatta af monnípeningum og bara það að ná á núllið fræga við hvert verkefni er frábær árangur. Stofun Menningarráðs Vestfjarða er mikill fengur fyrir listalífið á Vestfjörðum og mun efla enn frekar það öfluga menningarstarf sem þegar er. Enn og aftur kærar þakkir til Menningarráðs Vestfjarða.
Hljóðbókin Þjóðsögur úr Vesturbyggð fékk styrk frá Menningarráði.
P.s. Hljóðbókin fæst á vef Kómedíu www.komedia.is ásamt hljóðbókinni Þjóðsögur úr Ísafjarðarbæ.