Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

JÓLASVEINAR GRÝLUSYNIR Í TJÖRUNNI UM HELGINA

Sýningar á jólaleikritinu vinsæla Jólasveinar Grýlusynir hefjast í Tjöruhúsinu á laugardag. Leikurinn var frumsýndur í Tjörunni fyrir síðustu jól við frábærar undirtektir og var nýverið sýndur 11 sinnum á höfuðborgarsvæðinu en alls hefur leikurinn nú verið sýndur um 30 sinnum. Sýnt verður í Tjöruhúsinu næstu þrjár helgar á laugardögum og sunnudögum og hefjast sýningarnar kl.14. alla dagana. Miðasala fer fram á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is  undir liðnum Kaupa miða. Miðasölusímin Kómedíuleikhússins er 891 7025. Jólasveinar Grýlusynir er sprellfjörugur leikur um gömlu íslensku jólasveinana og ýmsum spurningum reynt að svara um þessa skrítnu kalla. Hvers vegna er Stúfur minnstur jólasveinanna? Af hverju er Stekkjastaur svona hár til hnésins? Var fjórtándi jólasveinninn til? Eru Askasleikir og Bjúgnakrækir tvíburar? Allt þetta og miklu meira fáum við að heyra um í sýningunni um Grýlusynina. Því inní ævintýrið fléttast allt annað ævintýri um nútíma unglingspilt sem hefur verið sendur til fjalla að leita að kúnni Búkollu. Jólasveinar Grýlusynir er bráðfjörugur jólaleikur með mikið af tónlist og almennu jólasveinasprelli að hætti gömlu íslensku jólasveinanna. Höfundar eru Elfar Logi Hannesson og Soffía Vagnsdóttir, Hrólfur Vagnsson semur tónlistina í leiknum, Marsbil G. Kristjánsdóttir hannaði og gerði jólasveinana og leikmyndina, ljósahönnuður er Jóhann Daníel Daníelsson og leikstjóri er Soffía Vagnsdóttir.

NÝ HLJÓÐBÓK - ÞJÓÐSÖGUR AF STRÖNDUM

Kómedíuleikhúsið hefur gefið út hljóðbókina Þjóðsögur af Ströndum. Þetta er fjórða hljóðbókin sem leikhúsið gefur út en hinar fyrri eru Þjóðsögur úr Vesturbyggð, Þjóðsögur úr Ísafjarðarbæ og loks Þjóðsögur úr Bolungarvík. Sú fyrsta er uppseld og aðeins eru örfá eintök eftir að Þjóðsögum úr Ísafjarðarbæ. Það má því með sanni segja að hljóðbækurnar hafi hitt í mark enda er hér um að ræða vandaða útgáfu á gömlu góðu íslensku þjóðsögunum.
Strandir eru mjög fægt og þekkt þjóðsagnasvæði þar sem álfar, draugar, tröll og ýmsar furðuverur hafa verið á sveimi lengur en elstu menn muna. Á þessari hljóðbók, Þjóðsögur af Ströndum, les Elfar Logi Hannesson, leikari, úrval sagna af Ströndum sem sótt eru í þjóðsagnasöfn Arngríms F. Bjarnasonar, Helga Guðmundssonar og Jóns Árnasonar. Sögunum er skipt niður í fimm flokka: Álfa- og huldufólkssögur, Draugasögur, Galdrasögur, Tröllasögur og loks Ýmsar sagnir. Þjóðlegu hljóðbækur Kómedíuleikhússins hafa fengið úrvals góðar viðtökur og víst er að Þjóðsögur af Ströndum er enn ein perlan í hljóðbókaútgáfu leikhússins. Hljóðbækur Kómedíuleikhússins fást  í vefverslunni á www.komedia.is . Einnig í verslunum Eymundsson, Galdrasafninu á Ströndum, Orkusteini á Ísafirði, Vegamótum á Bíldudal og víða um landið.

KÓMEDÍULEIKHÚSIÐ Í ÞJÓÐMENNINGARHÚSINU UM HELGINA

Kómedíuleikhúsið verður í Þjóðmenningarhúsinu á sunnudag, 7. desember. Sýndir verða tveir leikir úr smiðju leikhússins en gaman er að geta þess að frítt verður á báðar sýningarnar. Leikurinn hefst kl.14 þegar ævintýrið vinsæla Dimmalimm verður sýnt. Uppfærslan hefur notið mikilla vinsælda og hefur verkið nú verið sýnt um 70 sinnum bæði hér heima og erlendis. Seinni leikurinn verður svo á fjölunum í Þjóðmenningarhúsinu kl.16. Þar er um að ræða jólaleikritið Jólasveinar Grýlusynir sem er á leikferð í borginni þessa dagana. Og nú vita allir hvar þeir geta verið á morgun. Heimsókn í Þjóðmenningarhúsið á sunnudag verður sannarlega ævintýraleg og skemmtileg.

 


TAKK PALLI

Mikið er nú gott að búið sé að hætta við að hætta með svæðisútvörpin á landsbyggðinni. Enda var þetta eins og blaut tuska framan í okkur sem á landinu búa en kom manni svosem ekkert á óvart. Byrjað var að skera niður landsbyggðaútvörpin og morgunleikfimina, eitthvað segir manni nú að þetta séu nú ekki dýrustu póstarnir í rekstri Ríkisútvarpsins. Nær hefði verið að laga til launamunin hjá toppunum og svo má Rás tvö alveg missa sig, úps, sagði ég nú eitthvað sem má ekki. En þetta er bara mín skoðun hef aldrei verið fyrir þessa stöð og sérstaklega pirrar það mann þegar Rás tvö yfirtekur langbylgjuna. En allavega takk fyrir að svæðisútvörpin fái að lifa áfram.
mbl.is Svæðissendingar halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband