Eusebio kynnti mig fyrir heimi bókmenntanna

Á mínum æskuárum á Bíldudal var ég alltaf í boltanum. Lífið snérist um knöttinn ekkert annað komst að. Skipti engu hvort það var sumar eða vetur. Ég man meira að segja eftir því einu sinni að vetri til þá fjölmenntum við púkarnir á Bíldó frameftir alla leið að Hóli þar sem knattspyrnuvöllurinn var. Stór gerfigrasvöllur. Þetta var í raun einsog tískusýning því við vorum allir klæddir að hætti vetrarknattspyrnu sjónvarpsins. Vorum í föðurlandi, eða þunnum síðum buxum, svo stuttbuxur þar yfir, já ég veit svaka smart. Svo var efri hlutinn auðveldari peysa og íþróttablússa yfir auðvtiað merkt íþróttafélagi voru ÍFB. Ekki mátti gleyma vetlingunum. Og þeir skiptu miklu urðu að vera fingra vetlingar, því þannig voru þeir í sjónvarpinu hjá Bjarna Fel. Minn eldri og líklega betri bróðir var mikill knattspyrnumaður og hann var oft að kynna mig fyrir eldri stjörnum fótknöttsins. Þar voru fremstir í flokki stjörnur sem báðar báru svart dulnefni. Svarta perlan var Pele frá Brasilíu sem var víst með augu í hnakkanum. Svo var það Svarti pardusinn sem var hinn portugalski Eusebio. Bróðir minn þekkti sögu þessara manna nokk vel sérstaklega pardussins. Enda hafði hann lesið bók um kappann. Að fótknattasögustund lokinni hjá brósa var ég staðráðinn í að fara á bókasafn Bíldudals og ná í þessa bók um hinn Svarta pardus.

Bókasafnið á Bíldudal var til húsa í grunnskóla þorpsins. Fyrir mér var það stór ævintýraheimur en þó var safnið pínulíitð. Lítið og mjótt herbergi sem var eiginlega bara lítill þröngur gangur. Þarna réði ríkjum Ingimar Júlíusson. Stórmerkilegur maður sem hafði meira að segja gefið út ljóðabók, Leirfuglar, sem ég vissi nú ekkert um þá en löngu síðar féll ég fyrir þessari merku bók. Ingimar var í raun einsog persóna í ævintýri. Var hávaxinn með miklar augabrýr, gekk við staf, var alvarlegur en samt ávallt góðlegur við okkur krakkana. Sérstraklega þegar við komum á bókasafnið. Þegar maður hugsar útí það þá hefði hann verið flottur í ævintrýraheim Harry Potters. Gæti verið maðurinn í bókabúðinni. Ingimar var ekki lengi að finna þessa íþróttaævisögu sem ég spurði um Eusébio Svarti pardusinn. Æviferill Eusébio da Silva Ferreira. Þetta er fyrsta bókin sem ég las alveg sjálfur. Já, frá upphafi til enda. 

Segið svo að sportið geti ekki verið menningarlegt líka. Því síðan þá hef ég lesið bækur og eykst sá áhugi með hverju ári. Reyndar hef ég lítið lesið af sport bókum síðustu ár en á sínum tíma fór ég í gegnum þetta allt. Bókina um Ásgeir Sigurvins, Arnór að ógleydum bókunum um Íslenska knattspyrnu.

Ég þakka knattspyrnugoðinu Eusebio fyrir að hafa kynnt mig fyrir bókmenntunum. Góða ferð félagi bið að heilsa Hemma og George Best.  

 


mbl.is Eusebios minnst - myndband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Halldórsson



Man vel eftir þessari bók þegar ég var strákur ................."Eusébio Svarti pardusinn. Æviferill Eusébio da Silva Ferreira.
Fernando F. Garcia skráði ; Jón Birgir Pétursson íslenzkaði.
Fótbolti er fegurð . Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar, 1968

Hörður Halldórsson, 5.1.2014 kl. 21:43

2 Smámynd: Elfar Logi Hannesson

Já í minningunni er þetta allavega besta íþróttabókin sem ég hef lesið

Elfar Logi Hannesson, 5.1.2014 kl. 23:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband