Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
EKKI HÆTTA HALLVARÐUR SÚGANDI
31.10.2007 | 18:48
Á hinum frábæra BB fréttavef var í gær frétt um það að Leikfélagið Hallvarður Súgandi ætlaði ekki að setja upp leikverk á næsta ári. Þetta er leitt að heyra og vonandi verður þetta ekki að veruleika. Aðalfundur var haldin fyrir skömmu hjá félaginu og mætti víst bara stjórninn á fundinn en það er nú ekkert óalgengt í áhugaleikjaheiminum en einhvernvegin virðast fundir ekki heilla félagsmenn. Kómedíuleikarinn minnist þess t.d. þegar hann starfaði með Leikfélaginu Baldri á Bíldudal að svokölluð ,,góðmennt" mæting var ríkjandi. Hinsvegar þegar farið var í að setja upp stykki þá komu allir. En það var semsagt ákveðið að á Súganda að setja ekki upp leiksýningu næsta sumar. Hallvarður Súgandi hefur starfað með fádæma krafti síðustu ár en þar á bæ er ekki sýnt að vetri til heldur um sumarið í tengslum við Sæluhelgina á Suðureyri sem er skemmtileg bæjarhátíð. Frumsýning leikfélagsins markar jafnan upphaf hátíðarinnar. Leikfélagar eru því að æfa yfir sumarið og er alveg aðdáundarvert að geta gert það á þessum tíma þar sem fólk er nú oft á ferðinni og vill njóta þessa skemmtilegu árstíðar í útiveru og almenna skemmtan í stað þess að hanga inní leikhúsi allan júní og vel fram í júlí mánuð. En þetta hafa Súgfirðingar gert og það er óhætt að segja að verkefnin hafa verið mettnaðarfull síðasta sumar setti félagið upp Galdrakarlinn í Oz hvorki meira né minna. Af öðrum verkum sem Hallvarður hefur sett á svið má nefna Ronja ræningjadóttir og Bróðir minn ljónshjarta. En alls hafa verið sett upp 11 verk á níu árum gerir aðrir betur. Leikfélagið Hallvarður Súgandi hefur verið eitt aðaláhugaleikfélagið á Vestfjörðum síðustu ár við hliðina á Litla leikklúbbnum á Ísafirði, Leikfélagi Hólmavíkur og Leikfélaginu Baldri. Áhugaleikfélögin á Vestfjörðum hafa verið að týna tölunni síðastu tvo áratugina eða svo en fyrir mörgum árum var áhugaleikhópur starfandi í hverjum firði. Það hefur náttúrulega gegnið á ýmsum á Vestfjörðum síðustu áratugi og nokkuð fækkað og meðalaldur hækkað. Sumir vija rekja upptökin af hruni áhugaleikfélagana til vídeósins þegar það ruddi sér inná heimili landsmanna. Og enn aðrir við tilkomu sjónvarpsins fyrir fimmtíu árum eða eitthvað. Þetta hefur vissulega allt haft áhrif einsog allar eðlilegar breytingar og tækninýjungar. Fólk er líka meira á ferðinni enda orðið auðveldara að skreppa suður og hvað þá til útlanda. En áhuginn á leikhúsinu er samt til staðar það sýnir mæting á sýningar félagana einsog t.d. á Ronju hjá Hallvarði fyrir nokkrum árum. Við þurfum á leikhúsinu að halda og sérstaklega núna í skammdeginu. Hvort heldur fyrir áhorfendur og þá ekki síður fyrir þá sem koma að sýningunum leikurum, ljósamönnum osfrv. því þetta er jú áhugamennska og stórskemmtilegur félagsskapur. Vestfirðirnir verða vissulega fátækari ef starfsemi Leikfélagsins Hallvarðs Súganda dettur niður og því hvetja ég alla til að stiðja og hvetja þetta góða félagi til að starfa áfram og gleðja okkur um ókominn ár. Áfram vestfirskt leikhús, áfram Hallvarður Súgandi og líka allir hinir, Litli Leikklúburinn, Baldur á Bíldó, Hólmavík.
Mynd: Hallvarður Súgandi. Galdrakarlinn í Oz, 2007.
LJÓÐ DAGSINS - Í ÖXNADAL
31.10.2007 | 14:05
Við breytum nú aðeins til og hvílum okkur um stund á vestfirskum ljóðum. Ástæðan er sú að í dag er miðvikudagur og það þýðir að í dag er vika í frumsýningu Kómedíuleikhússins á ljóðaleiknum Ég bið að heilsa. Einsog nafnið gefur til kynna er hér verið að fjalla um listakáldið góða Jónas Hallgrímsson en í ár er 200 ára fæðingarafmæli hans nánar tiltekið 16. nóv. Ég bið að heilsa er ljóðaleikur fyrir leikara, Elfar Loga Hannesson, og tónlistarmann, Þröst Jóhannesson, munum þeir flytja yfir 20 ljóð eftir skáldið. Elfar í leik en Þröstur mun flytja frumsamin lög við ljóð Jónasar. Leikurinn verður sýndur á veitingastaðnum Við Pollinn á Ísafirði og verður boðið uppá mat og leiksýningu á ljóðalegu verði. Næstu vikuna eða fram á frumsýningardag 7. nóvember verður ljóð dagsins eftir Jónas Hallgrímsson. Það er stór ljóðapottur að veiða í en við byrjum á æskunni og bernskudalnum. Ljóð dagsins heitir Í Öxnadal:
Í ÖXNADAL
Þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla
þar sem hamrahilla
hlær við skini sólar
árla, fyrir óttu,
ennþá meðan nóttu
grundin góða ber
græn í faðmi sér.
ÞVÍ MIÐUR BRÉFIN
30.10.2007 | 14:30
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
LJÓÐ DAGSINS - ERLA
30.10.2007 | 11:53
Enn höldum við áfram að kynna vestfirsk skáld og nú er það Stefán frá Hvítadal. Hann er án efa eitt af mögnuðustu ljóðskáldum síðustu aldar. Stefán fæddist á Hólmavík 11. október árið 1887 og er fyrsti innfæddi Hólmvíkingurinn já það er ekki lengra síðan að Hólmavík byggðist. Og glöggir reikningsmenn og konur taka líka eftir því að það eru 120 ár frá fæðingu hans. Hafa heimamenn eitthvað verið að minnast þess með tónleikum ef ég man rétt en gæti þó hafa verið í Dölunum þar sem hann settist að seinna meir. Fyrsta ljóðabók Stefáns Söngvar förumannsins kom út árið 1918 og er sú útgáfa ,,eitt af ævintýrum íslenzkrar bókmenntasögu" segir skáldbróðir hans, Tómas Guðmundsson, í formála ljóðsafns Stefáns sem hét einifaldlega Ljóðmæli frá árinu 1945. Í fyrstu ljóðabókinni er eftirlætisljóð Kómedíuleikarans vöggukvæðið Erla. Að hans mati flottasta kvæði sinnar tegundar og í örðu sæti er Sofðu unga ástin mín eftir Jóhann Sigurjónsson, en það kvæði er í leikritinu Fjalla - Eyvindur einsog öllum þeim fáum er kunnugt sem lesa leikbókmenntir. Það þarf því vart að kynna hvað sé ljóð dagsins:
ERLA
Erla, góða Erla!
Ég á að vagga þér.
Svíf þú inn í svefninn
í söng frá vörum mér.
Kvæðið mitt er kveldljóð,
því kveldsett löngu er.
Úti þeysa álfar
um ísi lagða slóð.
Bjarma slær á bæinn
hið bleika tunglskinsflóð.
Erla, hjartans Erla,
nú ertu þæg og góð!
Æskan geymir elda
og ævintýraþrótt.
Tekur mig með töfrum
hin tunglskinsbjarta nótt.
Ertu sofnuð, Erla?
Þú andar létt og rótt.
Blunda, reyndu að blunda
og byrgja augun þín.
Myrkri sveipast mjöllin
og mánaljósið dvín.
Sorti leggst á sessinn.
Þú sefur, Erla mína!
Rek ég eigin raunir
og rökkurtómsins garn.
Liðast rauðir lækir
um lífsins eyðihjarn.
Svipir eru á sveimi.
Þú sefur, elsku barn.
Hart er mannsins hjarta,
að hugsa mest um sig.
Kveldið er svo koldimmt,
ég kenndi í brjósti um mig.
Dýrlega þig dreymi,
og drottinn blessi þig.
Hugann grípur helgi
og hjartað þráir jól.
Klökkur vil ég krjúpa
í kveld við drottins stól.
Ofar dagsins eldum,
já, ofar heimsins sól.
LJÓÐ DAGSINS - MÁNUDAGSMORGUNN
29.10.2007 | 11:25
Við höldum áfram að veiða uppúr vestfirskum ljóðapotti en hann er alveg ótrúlega djúpur nánast botnlaus og fullt af geggjuðum ljóðum. Nú kynnum við til sögunnar Guðmund Inga Kristjánsson ljóðabóndann frá Önundarfirði. Í ár er 100 ára fæðingarafmæli hans en hann fæddist 15. janúar árið 1907á Kirkjubóli í Bjarnadal í Önundarfirði. Og á þeim degi var einmitt haldið uppá aldar afmæli skáldsins í Holti í firði Önundar. Sami hópur stóð einnig að heildar ljóðaútgáfu sem kom út í sumar. Ljóðasafnið heitir Sóldagar og er gefið út af Holt friðarsetri, Ingastofu. Gaman að geta þess að orðið sól var í uppáhaldi hjá skáldinu og báru bækur hans öll það nafn einsog Sólstafir, Sólbráð og Sólborgir. Það er við hæfi að byrja vikuna með ljóði um mánudagsmorgunn eftir Guðmund Inga. Ljóðið var ort 3. janúar árið 1938 en skáldið merkti öll ljð sín höfundardegi, flott sístem það:
MÁNUDAGSMORGUNN
Ég er glaður á mánudagsmorgni
við hin margbreyttu verkefni hans,
þegar athöfnin örvar og styrkir
þá er árdegi starfandi manns.
Þegar hátíð er liðin og helgi
tek ég hugreifur störfunum við
meðan vikan er öll fyrir augum
eins og ónumið, heillandi svið.
Ef þín helgi til gæfu var haldin
ferðu hraustur í mánudagsverk,
fylgir hamingja handtökum þínum,
og þín hugsun er falleg og sterk.
Og í vikunnar byrjaða verki
eiga vonirnar hjarta þíns sjóð.
Og á hálfbjörtum mánudagsmorgni
eru mótuð hin fegurstu ljóð.
Heyr mig, starfandi líf, þú sem líður.
Ég á löngun og heilbrigða von
að til mánudagsverka ég vakni
eins og vikunnar snemmborni son.
Meðan höndin er hraustleg og þolin,
meðan hugur er athafnagjarn,
meðan verkefni vinnunnar bíða
skal ég verða þitt mánudagsbarn.
LJÓÐ DAGSINS - Í FÁUM ORÐUM SAGT
28.10.2007 | 18:00
Það er gott að hafa það huggulegt á sunnudegi slappa af og segja lítið. Afslöppun eftir fjöruga viku og mikilvægt að hlaða heila og líkama með því að hlusta á þögnina. Ljóð dagsins tekur undir allt þetta og á því vel við á góðum sunnudegi fyrir vestan á fallegum degi með smá snjóföl og vetrarstemningu. Það er ísfirska listakonan Steingerður Guðmundsdóttir sem er höfundur ljóðsins í dag. En hún var fjölhæfur listamaður og vann m.a. ötulega að því að kynna einleikjaformið hér á landi á síðustu öld. Hún samdi einleiki sína sjálf og flutti nokkra þeirra í Iðnó. Árið 1975 gaf hún síðan út einleikjabókina Börn á flótta með sjö frumsömdum einleikjum. Steingerður samdi nokkur leikrit og gaf út einar 7 ljóðabækur. Árið 2004 gaf JPV út heildarsafn ljóða hennar og nefnist verkið Bláin. Sérlega vönduð útgáfa og ég hvet alla ljóðaunnendur til að versla sér eintak af þessu safni. Ljóð dagsins heitir Í fáum orðum sagt og er í ljóðabókinni Fjúk.
Í FÁUM ORÐUM SAGT
Hvað er
ljóð?
Á
pappírsblaði
pennaslóð.
Blekið:
Hjartablóð.
Það
er
ljóð.
LJÓÐ DAGSINS - VETRARDAGUR
27.10.2007 | 12:46
Veturinn er gengin í garð samkvæmt dagatalinu, fyrsti vetradagur og veturkongur tekur völdin. Hér á Ísó er konungurinn mildur á fyrsta degi sínum rigning en smá snjöföl í fjöllum. Ljóð dagsins er að sjálfsögðu í stíl við daginn og enn og ný leitum við í smiðju Jóns úr Vör. Enda er það vel við hæfi því í dag kl.14 verður fyrsti Vestfirski húslesturinn á þessum vetri og er hann helgaður þorpsskáldinu frá Patró. Lesturinn verður í Safnahúsinu á Ísó kl.14. og er aðgangur ókeypis. Ljóð dagsins heitir Vetrardagur og er í höfuðverki Jóns úr Vör Þorpið. Bókin kom fyrst út árið 1946 og hefur margsinnis verið endurútgefin enda er hér á ferðinni einstök lýsing á þorpi sem gæti verið hvar sem er á Íslandi þó svo skáldið sé hér að yrkja um þorpið sitt Patreksfjörð. Vetrardagur Jóns úr Vör gjörið svo vel.
VETRARDAGUR
Eftir svellaðri vegbrún gengur lágvaxinn maður
með lítinn kút sér við hönd.
Þeir segja fátt
og fara sér hægt niður brekkuna.
Ef þú hefur einhverntíma séð kaupmanninn okkar
muntu þekkja hann, þegar þú kemur til himnaríkis,
þó að þú værir aðeins sex ára þegar hann dó.
Kannski þér finnist, þegar þú ert orðinn stór,
að tvíræð glettni hafi búið í augum hans,
eitthvað haglkennt og hart
bak við hið eilífa ferðalag hökutoppsins
gegnum þykkar höfuðbækur.
Kannski mannstu aðeins menlaust bros
í vindilangan mahonírauðrar stofu.
Fámennt í búðinni,
kaupmannshönd á rauðhærðum kolli
- og kexkökur tvær í lófa þínum
sem snöggvast. - Augnráð fóstra þíns
og þú leggur gjafirnar
þegjandi frá þér
án þess að þakka.
Eftir svellaðri götu fara tveir lágvaxnir menn
og leiðast upp brattann.
LJÓÐ DAGSINS - RITDÓMUR
26.10.2007 | 09:26
Nýr dagur runnin upp og hér kemur ljóð dagsins. Enn er sótt í smiðju Jóns úr Vör en á morgun verður skáldið í aðalhlutverki á Vestfirskum húslestri í Safnahúsinu á Ísafirði. Kómedíuleikarinn les þar úr verkum Jóns og Jóna Símonía Bjarnadóttir fjallar um skáldið. Ljóð dagsins heitir Ritdómur og er í ljóðabókinni Regnbogastígur sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs gaf út árið 1981. Vel við hæfi að fjalla um þetta efni nú í upphafi jólabókaflóðs.
RITDÓMUR
Bók þessa
ritaði hestur
sem hafði svo lengi
verið í hafti
að hann er ekki
enn
búinn að átta sig.
Nú þarf hann ekki
að halda áfram
að hoppa -
nú getur hann
sagt það
sem hann vill.
LJÓÐ DAGSINS - LEIKARI
25.10.2007 | 15:44
Ljóð dagsins kemur úr ljóðasmiðju Jóns úr Vör frá Patreksfirði. Ljóðið heitir Leikari og er í bókinni Mjallhvítarkistan sem Almenna bókafélagið gaf út árið 1968.
LEIKARI
Leikari
þarf ekki farða né grímu,
leikari fer ætíð
með sitt eigið
líf á sviðið.
Sjálft hlutverkið
er gríma.
LJÓÐ DAGSINS - MIÐVIKUDAGUR
24.10.2007 | 15:45
Kómíska ljóðæðið heldur áfram og nú hefst fyrsti kapituli af þættinum Ljóð dagsins. Næstu vikurnar eða meðan Kómsíka ljóðaæðið stendur yfir verður birt eitt ljóð á dag. Það er við hæfi að byrja á uppáhaldi Kómedíuleikhússins sem er vestfirska skáldið Steinn Steinarr og að sjálfsögðu er það ljóðið Miðvikudagur.
MIÐVIKUDAGUR
Miðvikudagur. Og lífið gengur sinn gang,
eins og guð hefir sjálfur í öndverðu hugsað sér það.
Manni finnst þetta dálítið skrítið, en samt er það satt,
því svona hefir það verið og þannig er það.
Þér gangið hér um með sama svip og í gær,
þér sigrandi fullhugar dagsins, sem krónuna stýfið.
Í morgun var haldið uppboð á eignum manns,
sem átti ekki nóg fyrir skuldum. Þannig er lífið.
Og mennirnir græða og mennirnir tapa á víxl,
og mönnum er lánað, þó enginn skuld sína borgi.
Um malbikuð strætin berst múgsins háværa ös,
og Morgunblaðið fæst keypt niðr á Lækjatorgi.
Miðvikudagur. Og lífið gengur sinn gang,
og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn.
Dagbjartur múrari eignaðist dreng í gær,
í dag verður herra Petersen kaupmaður grafinn.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)