Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

VEL HEPPNUÐ FRUMSÝNING

Á fimmtudaginn frumsýndi Kómedíuleikhúsið nýjan íslenskan ljóðaleik í Tjöruhúsinu á Ísafirði. Leikurinn nefndist Búlúlala - Öldin hans Steins og er settur á svið í tilefni af aldarminningu vestfirska ljóðskáldsins Steins Steinars. Í verkinu flytja þeir Elfar Logi og Þröstur Jóhannesson fjölbreytt úrval ljóða skáldsins í leik, tali og söng. Það er óhætt að segja að verkinu hafi verið vel tekið enda eru verk Steins klassísk og löngu orðin sígild og þjóðinni mjög kær. Næsta sýning á Búlúlala verður á fimmtudagskvöld 15. maí kl.20 miðasala á heimasíðu Kómedíu www.komedia.is

Ljósmyndarinn Ágúst Atlason var á frumsýningu og fangaði stemninguna:

Bululala5    Bululala18   Bululala14  Bululala17 Bululala21


FORLEIKUR SJÓÐANDI HEITT VERKEFNI

Það er skammt stórra högga á milli hjá Kómedíuleikhúsinu í gær frumsýndi leikhúsið ljóðaleikinn Búlúlala - Öldin hans Steins við stormandi lukku í Tjöruhúsinu. Og það er skammt stórra frumsýninga á milli því í næstu viku verður frumsýnt verkið Forleikur. Um er að ræða samstarfsverkefni Kómedíuleikhússins og Litla leikklúbbsins á Ísafirði sem hita upp fyrir Act alone hátíðina með fjölbreyttri einleikjasýningu. Leikarar koma úr Litla en það er Kómedíuleikarinn sem leikstýrir. Sýndir verða fjórir íslenskir einleikir eftir fjóra höfunda. Leikirnir heita Súsan baðar sig, Munir og minjar, Það kostar ekkert að tala í gsm hjá guði og Örvænting. Forleikur verður frumsýndur föstudaginn 16. maí kl.21 á Veitingastaðnum við Pollinn á Hótel Ísafirði. Miðasla er hafin á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is

forleikur 2Þessi fer í lýtaaðgerð.

Mynd: Baldur P. Hólmgeirsson


FORLEIKUR Á ÍSAFIRÐI

Forleikurinn hefst á morgun, fylgist með hér á Kómedíublogginu.

forleikurMynd Baldur Páll Hólmgeirsson


BÚLÚLALA Í KVÖLD

Í kvöld frumsýnir Kómedíuleikhúsið nýjan ljóðaleik Búlúlala - Öldin hans Steins. Sýnt verður í hinum frábæra Kómíska leikhúsi Tjöruhúsinu á Ísafirði. Aðeins örfáir miðar eru lausir á frumsýningu og er hægt að panta miða á heimasíðu Kómedíu www.komedia.is Í tilefni af frumsýningu er við hæfi að birta hér ljóðið sem sýningin er nefnd eftir. Hlakka til að sjá ykkur í kvöld og minni líka á að miðasla er hafinn á næstu sýningar.

BÚLÚLALA

Abbessiníukeisari heitir Negus Negusi,

og Negus Negusi segir: Búlúlala.

Öllum mönnum, sem íhuga málstað ríkisins,

finnst unun að heyra Negus Negusi tala.

Og í hreinskilni sagt eru allir óvinir ríkisins,

sem ekki hlusta á Negus Negusi tala.

Ég er Negus Negusi, segir Negus Negusi,

ég er Negus Negusi. Búlúlala.

bululala


BÚLÚLALA MIÐARNIR RENNA ÚT

Miðasla á frumsýningu ljóðaleiksins Búlúlala - Öldin hans Steins er í fullum gangi á heimasíðu Kómedíu www.komedia.is og fer vel af stað. Leikurinn verður frumsýndur á morgun kl.20 í Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði. Hér er á ferðinni leikur með ljóðum Steins Steinars í tilefni af aldarminningu skáldsins. Kómedíuleikarinn flytur úrval ljóða eftir Stein  í leik og tali má þar nefna klassíkur á borð við Tindátarnir, Hudson bay, Miðvikudagur, Barn og að sjálfsögðu Búlúlala sem leikurinn er nefndur eftir. Þröstur Jóhannesson, tónlistarmaður, flytur frumsamin lög við ljóð Steins og af þeim má nefna Þegar Jón Kristófer Sigurðsson lét úr höfn, stóð herinn á bryggjunni og söng, Söngvarinn og Eldsvoði. Þröstur og sá Kómíski hafa áður unnið saman en í fyrra settur þeir á svið ljoðaleikinn Ég bið að heilsa sem hlaut afbragðsgóðar viðtökur. Það verður því spennandi að sjá þennan nýja ljóðaleik þeirra félaga. Þannig að nú er bara að vippa sér á heimasíðu Kómedíu www.komedia.is og panta sér miða á frumsýningu annaðkvöld kl.20. Miðasala er einnig hafin á 2 sýningu sem verður á fimmtudaginn næsta 15. maí kl.20.

BÚLÚLALA Á ÍSAFIRÐI

Kómedíuleikhúsið frumsýnir nýjan ljóðaleik, Búlúlala - Öldin hans Steins, í Tjöruhúsinu á Ísafirði fimmtudaginn 8. maí kl.20. Leikurinn er settur á svið til að minnast aldarafmælils vestfirska ljóðskáldsins Steins Steinars. Aðalsteinn Kristmundsson einsog hann hét réttu nafni fæddist 13. október árið 1908 á Laugalandi í Nauteyrarhreppi. Steinn Steinarr er án efa eitt þekktasta og jafnframt umdeildasta ljóðskáld síðustu aldar. Í Búlúlala - Öldin hans Steins munu þeir Elfar Logi Hannesson og Þröstur Jóhannesson flytja ljóð Steins í leik, tali og tónum. Meðal ljóða í sýningunni má nefna Barn, Miðvikudagur, Tindátarnir, Þjóðin og ég og að sjálfsögðu ljóðið Búlúlala sem leikurinn er nefndur eftir. Marsibil G. Kristjánsdóttir, fjöllistakona, hefur málað stórt olíumálverk af Steini sérstaklega fyrir sýninguna. Alls verða þrjár sýningar í Tjöruhúsinu á Ísafirði eftir það verður farið í leikferð um Vestfirðina. Miðasala á Búlúlala - Öldin hans Steins hófst núna í hádeginu og fer fram á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is Allir í leikhús.

bululalaSteinn Steinarr, málverk eftir Marsibil G. Kristjánsdóttur


HEIÐIN Í ÍSAFJARÐARBÍÓI Í KVÖLD

Íslenska kvikmyndin Heiðin verður sýnd í Ísafjarðarbíói í kvöld kl.20. Allir að mæta og horfa á flotta ræmu. Heiðin tengist Vestfjörðum á margan hátt. Fyrst skal nefna leikstjóra myndarinnarinnar Einar Þór Gunnlaugsson en hann er frá Hvilft í Önundarfirði. Kvikmyndin er einnig tekin upp á Vestfjörðum í Reykhólasveitinni. Þriðji vestfirski punkturinn er svo að Kómedíuleikarinn leikur í myndinni. Honum bregður þar fyrir í einar fimm mínútur eða svo sem er  klassískur Kómedíutími ef þannig má að orði komast. Því þær myndir sem hann hefur leikið í hafa að geyma fimm kómískar mínútur Fiasko, Allir litir hafsins, Heiðin og í sumar tekur hann sínar fimm mínútur í sjónvarpsmyndinni Eitur í æðum sem verður einnig tekin upp hér fyrir vestan.

 Kómedíuleikarinn leikur bifvélavirkja í Heiðinni.


VESTFIRSKUR HÚSLESTUR Á MORGUN

Kómedíuleikhúsið og Safnahúsið á Ísafirði verða með vestfirskan húslestur laugardaginn 3. maí og er þetta jafnframt síðasti húslestur vetrarins. Að þessu sinni verður fjallað um skáldið Jón Þorláksson. Jóna Símonía Bjarnadóttir fjallar um skáldið og Elfar Logi les úr verkum hans. Séra Jón Þorláksson sem kenndur er við Bægisá í Eyjafirði en hann fæddist í Selárdal í Arnarfirði árið 1744. Hann lauk stúdentsprófi og vann sem ritari hjá amtmanni um hríð en vígðist sem prestur árið 1768. Hann var tvívegis sviptur hempunni sökum barneigna og gerðist hann þá starfsmaður prentsmiðjunnar í Hrappsey á Breiðafirði. Þar hófst í raun bókmenntaferill hans en árið 1774 kom út hans fyrsta ljóðaþýðing. Hann flutti að Bægisá í Eyjafirði árið 1788 og tók þar aftur upp preststörf og dvaldi til æviloka árið 1819. Hann var afkastamikill þýðandi og meðal verka hans á því sviði er Paradísarmissir Miltons. En Jón var líka gott skáld og eftir hann liggur nokkuð magn kvæða og vísna sem margar voru gráglettnar.
Einsog áður gat er þetta síðasti vestfirski húslesturinn þennan veturinn. Þráðurinn verður síðan tekinn upp að nýju í haust. Aðgangur að húslestrinum er ókeypis að vanda.

VELHEPPNAÐ LISTAMANNAÞING Á ÍSAFIRÐI

Í gærkveldi efndi Kómedíuleikhúsið og listamenn í Ísafjarðarbæ til Listamannaþings á Ísafirði. Óhætt er að segja að vel hafi til tekist og að þingið sé komið til að vera. Þema þingsins í gær var Staða og framtíð listalífs í Ísafjarðarbæ. Flutt voru fjölmörg mögnuð erindi enda var umræðuefnið krassandi og bauð uppá fjöruga pistla og umræður. Fundarstýra var Anna Sigríður eða Annska einsog við köllum hana. Stýrði hún þinginu af stakri prýði enda var hún vopnuð öflugri arnarbjöllu til að halda mönnum við sinn ræðutíma og tókst það vel. Fulltrúar frá fimm listgreinum fluttu erindi um sína grein og var fróðlegt að heyra þeirra vangaveltur. Ómar Smári Kristinsson myndlistarmaður hafði nokkrar áhyggjur af uppbyggingu sinnar listgreinar hér í bæ og óskaði eftir öflugum frumkvöðli og baráttumanni í myndlistargeiranum. Einhverjum sem gæti hrint af stað öflugum verkefnum í myndlistarsviðinu. Það var fróðlegt að heyra erindi Evu Friðþjófsdóttur um danslistina en hún hefur unnið ötulega að eflingu listarinnar hér í bæ og kennir nú dans í skólum víða á Vestfjörðum. Kómedíuleikarinn flutti leiklistarpistilinn og vildi efla bæði atvinnu- og áhugaleiklistina á svæðinu. Hans framtíðarsýn er sú að Kómedíuleikhúsið bæti við sig öðrum leikara helst leikkonu í fullt starf og þar með væri hægt að stíga næsta skref og setja á svið tvíleiki. En til þessa hefur leikhúsið einbeitt sér að einleikjum og er ástæðan einfaldlega sú að hann er eini atvinnuleikarinn sem er búsettur á Vestfjörðum. Í áhugaleikhúsinu vildi hann sjá þá breytingu að áhugaleikfélög væru starfandi í öllum bæjum í Ísafjarðarbæ, ekki bara á Ísafirði og Suðureyri einsog nú er heldur einnig á Flateyri og Þingeyri. Einnig var þeirri hugmynd kastað fram að koma á unglingaleikdeild hjá einhverju áhugaleikfélagana því Ísafjarðarbær státar af mjög frambærilegri æsku á listasviðinu einsog dæmin sanna t.d. með starfsemi unglingaleikhússins Morrans og sýningum Menntaskólans á Ísafirði. Lýður Árnason fjallaði um stöðu og framtíð kvikmyndalistarinnar í Ísafjarðarbæ. Margt áhugavert kom fram í erindi hans m.a. þann stóra kost að hér fyrir vestan höfum kyrrð og þögn nokkuð sem þekktist ekki í stærri bæjum og oft er ekkert gsm samband á tökustað sem er mjög stór plús. En þess má geta að í sumar hefjast tökur á sjónvarpsmynd eftir kappann og verður myndin alfarið tekin upp hér vestra.  Hulda Bragadóttir fjallaði um tónlistina en einsog landsmenn vita er Ísafjörður einmitt þekktur fyrir að vera mikill músíkbær.  Athyglivert var að heyra hugmyndir hennar um að tengja listgreinarnar meira saman og efla þannig samstarf milli ólíkra listamanna. Benti okkur réttilega á að nú þegar hafi þannig verkefni verið unnin t.d. með því að fá leikara sem upplesara á tónleikum nú eða þá dansara til að túlka músíkna í gegnum dansinn. Á erindum listanna loknum flutti Þröstur Jóhannesson frumsamið lag um AxlarBjörn sem hitti beint í mark. Næst á dagskrá voru listahátíðirnar á Ísafirði sem eru alls þrjár og mætti því kalla bæinn Listahátíðarbæ og væri nú sniðugt hjá Ísafjarðarbæ að hefja herferð í því að kynna bæinn sem Listahátíðarbæ. Þessar þrjár hátíðir eru leiklistarhátíðin Act alone, rokkhátíðin Aldrei fór ég suður og tónlistarhátíðin Við Djúpið. Þó hátíðirnar séu ólíkar þá eiga þar það eitt sameiginlegt að hafa slegið í gegn hjá landanum og líka útí úttlandi. Act alone og Aldrei fór ég suður eru jafn gamlar orðnar fimm ára en Við Djúpið er ári eldri. Kómedíuleikarinn fjallaði um Act alone og rakti í stuttu máli sögu hátíðarinnar sem hefur verið mjög einleikin svo ekki sé meira sagt. Á fyrstu hátíðinni var boðið uppá þrjár sýningar en í ár verða sýningarnar 25. Notaði sá Kómíski tækifærið til að skúbba og kynna helstu sýningar komandi hátíðar fyrir þingheimi en á næstu dögum verður dagskrá hátíðarinnar kynnt í fjölmiðlum. Eini þröskuldur Act alone er fjármagnið sem hefur verið nokk erfitt að finna en þó hefur mínusinn af hátíðinni lækkað með hverju ári og er stefnan sett á núllið í náinni framtíð. Smári Karlsson fjallaði um Aldrei fór ég suður sem er án efa flottasta rokkhátíð landsins. Hann rakti sögu hátíðarinnar sem hefur vaxið með hverju árinu og er nú svo komið að þeir geta valið úr böndum til að spila í gleðinni. Fjármálin komu líka talsvert við sögu enda kostar slatta af monnýaurum að halda eitt stykki festival. Hann vakti athygli á hve mikinn þátt heimamenn eiga í hátíðinni með ómetanlegu vinnuframlagi sem svarar einhverjum millum þegar allt er til tekið. Þetta er mjög góður púnktur og á einmitt mjög vel við það hve gott er að vinna að list í Ísafjarðarbæ allir eru boðnir og búnir að rétta hjálparhönd. Hvort heldur það er að skúra gólf, lána húsin sín, mála, smíða osfrv osfrv. Sigríður Ragnarsdóttir fjallaði um Við Djúpið. Hún rakti sögu hátíðarinnar sem hefur laðað að sér atvinnulistamenn allsstaðar úr heiminum. Einnig var dagskrá Dúpsins í ár kynnt en þar verður að vanda boðið uppá vandaða masterclassa með heimskunnum tónlistarmönnum. Fjármálin komu líka við sögu og sagði hún mikilvægt að bær og ríki héldi áfram að styrkja verkefnið með öflugum hætti svo hún megi vaxa og dafna enn frekar í framtíðinni. Að síðustu komu fulltrúar menningarapparatana tveggja og sögðu frá starfsemi sinni. Ingi Þór Ágústsson formaður Menningarmálanefndar sagði frá hlutverki nefndarinnar og kom þar m.a. að styrkjamálum en nefndin úthlutar styrkjum einu sinni á ári. Nýtti hann tækifærið til að auglýsa að nú gætu menn farið að koma sér í gírinn og óska eftir styrk fyrir lista- og menningarverkefni í bænum. Hann sagði einnig af því að undanfarið hafi nefndin unnið að stefnumótunarvinnu í menningarmálum í Ísafjarðarbæ og nú styttist í að þeirri vinnu ljúki og verður visslulega spennandi að sjá plaggið. Ingi lét sig líka dreyma um bjarta framtíð listalífs í bænum og víst er að allir eru til í að hoppa inní þann draum því vissulega er bjart framundan í listinni á Ísó. Næstur og jafnframt síðastur á mælendaskrá var Jón Jónsson frá Menningarráði Vestfjarða. Hann sagði okkur frá þessu nýstofnað apparati sem hefur vissulega komið sterkt inní listlífið þrátt fyrir stutta ævi. Ráðið úthlutar styrkjum til lista- og menningarverkefna á Vestfjörðum. Fyrsta úthlutun var fyrir síðustu áramót og á sumardaginn fyrsta '08 var úthlutað öðru sinni. Jón sagði einnig frá heimasíðu ráðsins og hvatti listamenn til að senda inn fréttir reglulega af því sem þeir eru að bardúsa hverju sinnig sem og að nýta sér atburðadagatalið á síðunni. Einnig sagðist hann vera boðin og búin til aðstoðar og ráðleggingar þegar sótt er um monnýpeninga hvort heldur það séu umsóknir til ráðsins eða bara almennar umsóknir til fyrirtækja og ýmissa sjóða. Annska fundarstýra sleit því næst þinginu en átti þó eftir eitt tromp í viðbót í hendinni og kynnti til sögunnar hina sögufrægu hljómsveit Grjóthrun. Hljómsveitin tók nokkra létta slagara við dúndurflottar undirtekktir enda valinkunnur maður á hvert hljóðfæri. Að sjálfsögðu var mikið skraf og rætt af þingi loknu enda margt sem liggur mönnum á hjarta að loknu þingi. Ýmsum hugmyndum hefur verið kastað á loft sumar komast til framkvæmda meðan aðrar bíða betri tíma og verður fróðlegt að fylgjast með listinni í Ísafjarðarbæ á næstu misserum og já bara næstu árin.

Listamannaþing í Ísafjarðarbæ er sannarlega komið til að vera og hefur alla burði til að stækka enn frekar einsog önnur menningarverkefni í bænum hafa gert. Menn hafa þegar kastað fram ýmsum hugmyndum um næsta þing m.a. að taka heilan dag í þetta. Þá væri hægt að byrja daginn á því að listamenn myndu opna vinnurýmin sín og bjóða gestum að fylgjast með starfi sínu. Þannig gæti maður kíkt inná æfingu hjá Kómedíuleikhúsinu eða litið á vinnustofu myndlistarmanns og séð hann að störfum nú eða kikkað á æfingu hjá karlakór eða bara vera flug á vegg í tónlistartíma t.d í trompetleik. Svo væri þingað og boðið uppá flottan dinner. Og að síðustu yrði bara alvöru ball með alvöru bandi t.d. Bardúkku. Vá maður er þegar orðinn spenntur fyrir næsta Listamannaþingi í Ísafjarðarbæ og ætli við byrjum ekki bara fljótlega að undirbúa það.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband