Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

HÁDEGISLEIKHÚS Á ACT ALONE 2008

Tvö hádegisleikhús verða á dagskrá Act alone 2008 en hádegissýningar hafa notið mikilla vinsælda á Act alone og jafnan stút fullt hús. Hádegisleikhús Act alone 2008 verður tvíveigis að þessu sinni fyrst í hádeginu á fimmtudag 3. júlí og svo hádegi eftir eða á föstudag 4. júlí. Sýningarstaður er Veitingastaðurinn við Pollinn á Hótel Ísafirði. Sýndir verða einleikir sem Kómedíuleikhúsið og Litli leikklúbburinn setti upp á vordögum. Sýningin ber nafnið Forleikur og var sett sérstaklega á svið til að hita upp fyrir Act alone. Forleikur samanstendur af fjórum íslenskum leikjum eftir fjóra höfunda. Sýndir verða tveir leikir í hvoru hádegi.

HÁDEGISLEIKHÚS
Sýndir verða leikirnir Örvænting og Það kostar ekkert að tala í gsm hjá guði.
Fimmtudaginn 3. júlí kl.12.12 á Veitingastaðnum við Pollinn Ísafirði.

ÖRVÆNTING
Kómedíuleikhúsið/Litli leikklúbburinn
Höfundur: Jónína Leósdóttir
Leikari: Marsibil G. Kristjánsdóttir
Leikstjórn: Elfar Logi Hannesson

Í dag er hægt að ,,laga" allt. Brotin sjálfsmynd getur orðið heil. Er er bara nóg að slétta yfirborðið.


 
ÞAÐ KOSTAR EKKERT AÐ TALA Í GSM HJÁ GUÐI
Kómedíuleikhúsið/Litli leikklúbburinn
Höfundur: Pétur R. Pétursson
Leikari: Sveinbjörn Hjálmarsson
Leikstjórn: Elfar Logi Hannesson

Hesturinn er ekki lengur þarfasti þjónn mannsins. Gætir þú hugsað þér dag án GSM. Það er slæmt að gleyma 'onum en öllu verra að gleyma sér með 'onum.


HÁDEGISLEIKHÚS
Sýndir verða leikirnir Munir og minjar og Súsanna baðar sig.
Föstudagur 4. júlí kl.12.12 á Veitingastaðnum við Pollinn Ísafirði.

MUNIR OG MINJAR
Kómedíuleikhúsið/Litli leikklúbburinn
Höfundur: Þórunn Guðmundsdóttir
Leikari: Marta Sif Ólafsdóttir
Leikstjórn: Elfar Logi Hannesson

Safnaraeðlið hefur fylgt okkur frá Neðanderdalsmanninum til dagsins í dag. Viðfangsefni þessa verks er einmitt þetta vinsæla áhugamál. Menn safna ekki bara frímerkjum heldur öllu milli himins og jarðar. Til er fólk sem safnar naflalóg.


SÚSANNA BAÐAR SIG
Kómedíuleikhúsið/Litli leikklúbburinn
Höfundur: Lárus Húnfjörð
Leikari: Árni Ingason
Leikstjórn: Elfar Logi Hannesson

Strípistaðir hafa jafnan notið mikilla vinsælda á Íslandi. Í þessum leik fáum við innsýn í starfsemi eins stærsta og virtasta súlustaðar höfuðborgarinnar.

PÉTUR OG EINAR Á SJÁVARRÉTTAHLAÐBORÐI

Það verður mikið um að vera í Einarshúsi í Bolungarvík í kvöld en boðið verður uppá veglega veislu í mat og skemmtan. Kvöldið hefst kl. 19 með sjávarréttahlaðborði að hætti hússins s.s. steinbítspaté, fiskur í hlaupi, síld, reyktur og grafinn lax, sjávarréttasúpa ofl ofl. Já ég veit allir orðnir svnangir. Að kræsingum úr djúpi hafsins loknum verður einleikurinn Pétur og Einar sýndur. Verkið var frumsýnt um síðustu helgi og hefur fengið frábæra dóma. Enda er hér á ferðinni geggjuð saga með öllu sem þarf við að hafa bæði sorg og gleði. Þannig að nú er bara að panta sér miða á veisluna í kvöld. Miðapantanir eru í síma 4567901.

petur4Fjölmargar persónur koma við sögu í leikverkinu, hér sjáum við hressan sjómann sem hefur aðeins fengið sér í tána enda hefur veiðin verið góð.


ÍSBJÖRN Á ÍSAFIRÐI Í DAG

morra isbjornmorra isbjorn2Myndir Agúst G. Atlason

Stóra ísbjarnarmálið var aðalmálið á Ísafirði í dag en mörgum brá í brún þegar Ísbjörn skundaði í bæinn í dag. Fyrst sást til dýrsins á hringtorginu á Ísafirði þaðan lá leiðin niðrí bæ og notaði björnin tækifæri til að líta í búðir. Hann skundaði t.d. inní verzlunina Harmaborg og keyptir sér ís krab, enda mikill hiti á Ísafirði í dag sól og sumar. Megin erindi hans í bæinn var þó leit hans að félaga sínum að norðan. Hafði Ísfirski ísbjörninn mynd af norðlenska birninum og sýndi vegfarendum í þeirri von að þeir hefðu séð til hans. Mikill fjöldi ferðamanna var á Ísafirði í dag og brá mörgum í brún þegar Ísfirski ísbjörninn skundaði á Silfurtorg. Óhætt er að segja að mikil hræðsla hafi gripið um sig en þó voru margir ósmeikir og vildu fá að klappa dýrinu sem tók því nú reyndar ekki mjög vel. Í miðjum æsingnum skunduðu tveir vaskir veiðimenn á torgið og eftir þó nokkuð at og baráttu náðu þeir að fella dýrið. Ekki fögnuðu þó allir þessum leikslokum og létu veiðimennina heyra það að vera að deyða svona hvítt og fallegt dýr.


AUKASÝNING Á FORLEIK Í KVÖLD

Forleikur hefur notið mikilla vinsælda á Ísafirði og verður aukasýning á Veitingastaðnum við Pollinn í kvöld kl.21. Örfá sæti laus fyrstur pantar fyrstur fær en miðapantanir eru hjá Kómedíu www.komedia.is Forleikur er samstarfsverkefni Kómedíuleikhússins og Litla leikklúbbsins en í þessari sýningu eru sýndir fjórir einleikir eftir fjóra höfunda. Þessi sýning er í raun forleikur eða upphitun fyrir einleikjahátíðina Act alone sem verður haldin á Ísafirði dagana 2. - 6. júlí í sumar. Tvær sýningar til viðbótar verða á Forleik núna um helgina. Á morgun verður Forleikur í Einarshúsi í Bolungarvík og annaðkvöld, laugardag, verður Forleikur á Vagninum á Flateyri. Miðasla er nú í fullum gangi á heimasíðu Kómedíu www.komedia.is Það ættum því engum að leiðast fyrir vestan um helgina. Sjáumst í leikhúsinu.


FYRSTA FRUMSÝNING MORRALEIKÁRSINS ER Á MORGUN

Unglinga- og atvinnuleikhúsið Morrinn á Ísafirði hefur hafið sitt árlega leikár. En Morrinn er leikhús sem starfar yfir sumartímann á Ísafirði og hefur heldur betur poppað og puntað uppá menningarlífið á Ísafirði í gegnum árin en leikhúsið var stofnað af unglingum á Ísó rétt fyrir síðustu aldamót. Í fyrra tók Kómedíuleikhúsið við listrænni stjórn Morrans. Leikár Morrans hófst núna á þriðjudag 3. júní og munu 15 leikarar starfa í Morranum þetta árið. Kómedíuleikarinn leikstýrir Morranum fyrstu dagana en í næstu viku tekur Ársæll Níelsson, leiklistarnemi, við stjórninni. Það er óhætt að segja að Morraleikárið hafi hafist með krafti því strax varð að byrja að undirbúa fyrstu sýningu leikársins sem verður frumsýnd í fyrramálið kl.9.05 í Neðstakaupstað á þriðja starfsdegi, kannski smá bjarsýni, en það vill svo vel til að Morrarnir eru duglegir og eru tilbúnir með þetta flotta þjóðlega sjóv. Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins er að koma og Morrinn hefur allt frá upphafi verið stór þáttur í móttöku þeirra. Boðið verður uppá þjóðlega dagksrá á safnasvæðinu í Neðstakaupstað á Ísafirði. Dansinn verður stiginn, spilað á fiðlu, þulur og þjóðlög sungin, fluttar íslenskar þjóðsögur á ensku, fjallað um hjátrú á Íslandi, farið í leiki s.s. Inn og út um gluggann og síðast en ekki síst verður sýnd glíma. Já, glíma, þessi íþrótt hefur verið vinsæl hér vestra í gegnum aldrinar og í sumar mun Sigtryggur stíga sporinn með Morranum í allt sumar. Alls munu 22 skemmtiferðaskip heimsækja Ísafjörð í sumar þannig að það verður meira en nóg að gera hjá Morranum í sumar. Þetta er þó ekki allt því einnig munu þau skemmta á 17. júní á Ísó, setja á svið leikrit sem verður sýnt í öllum leikskólum Ísafjarðarbæjar ofl ofl.  


STEINN STEINARR Í AÐALHLUTVERKI Á ÍSÓ

Act alone leiklistarhátíðin verður formlega sett miðvikudaginn 2. júlí kl.20 í Alþýðuhúsinu, Ísafjarðarbíó. Opnunarsýningar hátíðarinnar að þessu sinni eru tvær enda eiga sýningarnar margt sameiginlegt. Því hér er um að ræða tvær ólíkar sýningar sem eru byggðar á verkum Steins Steinars en einsog flestum er kunnugt er aldarafmæli skáldsins nú í ár. Það þykir því vel við hæfi að vestfirska leiklistarhátíðin heiðri minningu eins ástsælasta skálds Vestfjarða með veglegum hætti. Báðar sýningarnar koma úr smiðju Kómedíuleikhússins. Sú fyrri er upptaka af einleik Kómedíu sem var sýndur árið 2003 og verður leikurinn nú sýndur á breiðtjaldi í Ísafjarðarbíói. Seinni sýningin verður í Hömrum og nefnist hún Búlúlala - Öldin hans Steins. Hér er um tvíleik að ræða en tveir slíkir verða á dagskrá hátíðarinnar í ár.

STEINN STEINARR Í BÍÓ
Miðvikudaginn 2. júlí kl.20 í Alþýðuhúsinu.

Kómedíuleikhúsið
Handrit: Elfar Logi Hannesson, Guðjón Sigvaldason
Leikari: Elfar Logi Hannesson
Ljós, hljóð: Friðþjófur Þorsteinsson, Guðjón Sigvaldason
Leikmynd, búningar, leikstjórn: Guðjón Sigvaldason
Kvikmyndataka: Jóhannes Jónsson digi-Film

Einleikur um eitt þekktasta og umdeildasta ljóðskáld Íslendinga á 20. öld. Handrit leiksins er nokkuð frábrugðið öðrum verkum en 98% textans er eftir Stein sjálfan. Þar er um að ræða brot úr greinum eftir Stein, 29 ljóð og brot úr viðtölum.
Steinn Steinarr eða Aðalsteinn Kristmundsson fæddist árið 1908. Þegar Steinn kom fram á ritvöllinn hóf hann þegar að brjóta reglur sem ríkt höfðu í skáldskap um langa hríð og varð mjög umdeildur fyrir vikið. Harðorðar greinar birtust í blöðum um Stein. Skáldskapur hans var kallaður tóm vitleysa af sumum, aðrir á hinn boginn fögnuðu framlagi hans og töldu að loksins væri komið fram skáld sem þyrði að breyta staðnaðri, íslenskri ljóðlist. Núna hrífast flestir af skáldskap Steins. Ljóð hans eru þjóðinni mjög kær og við mörg þeirra hafa verið samin lög. Steinn Steinarr andaðist árið 1958, rétt tæplega fimmtíu ára að aldri.

BÚLÚLALA - ÖLDIN HANS STEINS
Miðvikudaginn 2. júlí kl.21.30 í Hömrum.
Búlúlala

BÚLÚLALA – ÖLDIN HANS STEINS
Kómedíuleikhúsið
Leikari: Elfar Logi Hannesson
Tónlistarmaður: Þröstur Jóhannesson
Sýningartími: 50. mín.

Búlúlala - Öldin hans Steins er nýr ljóðaleikur fyrir leikara og tónlistarmann sem Kómedíuleikhúsið setur á svið til að minnast aldarafmælis Steins Steinars. En Aðalsteinn Kristmundsson, einsog hann hét réttu nafni, fæddist 13. október árið 1908 og er án efa eitt af merkustu skáldum þjóðarinnar. Í þessum leik, Búlúlala - Öldin hans Steins, verða flutt mörg af kunnustu ljóðum Steins í bland við þau sem minna eru þekkt. Elfar Logi Hannesson, leikari, flytur ljóðin í leik og tali en Þröstur Jóhannesson flytur frumsamin lög við ljóð Steins. Marsibil G. Kristjánsdóttir gerir leikmynd sem er portret af skáldinu. Meðal ljóða sem koma við sögu í sýningunni má nefna Að frelsa heiminn, Barn, Miðvikudagur, Söngvarinn, Tindátarnir, Þjóðin og ég og síðast en ekki síst Búlúlala ljóðið sem leikurinn er nefndur eftir.

PÉTUR OG EINAR Í MYND

Ljósmyndir af frumsýningu Kómedíu á einleiknum Pétur og Einar eftir og í leikstjórn Soffíu Vagnsdóttur, eru komnar inná Skutulsvefinn á slóðinni http://skutull.is/myndasafn/54/

Myndirnar tók Ágúst G. Atlason stórljósmyndari en hann var einnig á staðnum þegar Kómedía frumsýndi Búlúlala í byrjun maímánaðar og er einnig hægt að sjá þá syrpu á Skutulsvefnum.

petur1Ljósmynd Ágúst G. Atlason


DÚNDURFLOTT FRUMSÝNINGARHELGI

Á laugardaginn frumsýndi Kómedíuleikhúsið einleikinn Pétur og Einar í Einarshúsi í Bolungarvík. Skemmst er að minnast þess að leikurinn sló í gegn og fékk afbragðsviðtökur frumsýningargesta. Pétur og Einar er samstarfsverkefni Kómedíu og Einarshús í Bolungarvík. Í leiknum er rakin saga hússins sem gekk fyrst undir heitinu Péturshús en heitir í dag Einarshús. Í þessu húsi bjuggu tveir merkir frumkvöðlar sem áttu stóran þátt í að breyta Bolungarvík úr þorpi í bæ. Þessir menn eru Pétur Oddsson og Einar Guðfinnsson. Pétur byggði húsið árið 1904 og bjó þar til æviloka eða til ársins 1931. Saga Péturs var mjög dramatísk og var húsið þá nefnt hús sorgarinnar en Pétur Oddsson lifði öll börn sín og eiginkonu sína Guðnýju Bjarnadóttur. Árið 1935 keypti athafnamaðurinn Einar Guðfinnsson húsið af dánarbúi Péturs. Þá snérist dæmið við og húsið var nefnt ,,hús gleðinnar" og fékk um leið nafnið Einarshús einsog það heitir í dag. Önnur sýning á Pétri og Einari var í gær sunnudag og var mjög vel sótt. Næsta sýning verður um næstu helgi laugardaginn 7. júní. Einnig verður sýning 19. júní. Fleiri sýningar eru fyrirhugaðar í sumar.

PETUR & EinarFrumkvöðlarnir og athafnamennirnir Pétur og Einar.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband