Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Oddur Björnsson minning

Góður og einstakur vinur er horfinn af sviðinu. Oddur Björnsson leikskáld og leikstjóri. Það er ekki auðvelt að eignast góðan og traustan vin en við hjónin vorum svo heppinn að fá að kynnast Oddi og erum þakklát fyrir einstakt ævintýr sem við áttum saman. Við kynntumst Oddi eða Oddaranum einsog skáldið frá Bíldudal Hafliði heitinn Magnússon kallaði hann, árið 1993 á Bíldudal. Oddur var kominn til að leikstýra hjá Leikfélaginu Baldri og hinn ungi leikari, Elfar Logi, var settur í það að vera formaður leikfélagsins. Á svið var settur farsinn Klerkar í klípu og Oddur rúllaði þessu upp og gerði úr þessa flottu sýningu sem gekk og gekk og gekk, alveg einsog alvöru farsi. Oddur hafði aðsetur í krúttlegu húsi í fjörunni er nefnist Sæbakki. Ósjaldan fór hinn ungi leikari í heimsókn til leikstjórans að loknum æfingum og þá var nú heldur betur spjallað og ekkert verið að láta klukkuna trufla sig. Oddur varð strax kær og góður vinur okkar en það er nú ekki sjálfgefið hjá öllum leikstjórum en svona var Oddur, tók öllum vel sannur mannvinur. Enn jókst gleðin þegar að frumsýningu kom því þá kom eiginkona Odds hún Beggó og þar eignuðumst við hjónin annan vin. Í raun eignuðust Bílddælingar allir frábæra og einstaka vini því Oddur og Beggó fíluðu sig svo vel á Sæbakkanum að þau keyptu húsið. Koma þeirra hjóna í litla þorpið á Bíldudal var einsog vítamínsprengja í allt mann- og listalíf enda tóku nú ævintýrin að gerast. Oddur átti eftir að leikstýra oftar hjá Leikfélaginu Baldri. Árið 1994 setti hann á svið Karíus og Baktus með miklum bravúr. Ári síðar leikstýrði hann síðan eigin verki Jóðlíf þar sem leikarinn ungi, Elfar Logi, lék annað jóðið. Uppfærsla þessi er enn í minnum höfð á Bíldudal enda sannkallað listaverk því Beggó gerði einnig einstaka leikmynd og við hjónin vorum svo heppinn að fá að taka þátt í þessu ævintýri því Billa aðstoðaði Beggó við búninga og leikmynd. Sama ár fór hinn ungi leikari, loksins, í leiklistarnám og hvatning Odds var gott veganesti í þann skóla, og ekki sakaði að hafa fengið góða skólun á sviðinu hjá meistaranum. Við söknum þín Oddur en minnumst einstakra stunda við vorum sannarlega lánsöm að fá að kynnast þér. Við hneigjum okkur djúft fyrir þér að hætti leikarans. Elsku Beggó sendum kærar og einlægar kveðjur til þín og allra aðstandenda.
Billa, Elfar Logi og þrjár systur

Bjálfansbarnið slær í gegn

Nýjasta sýning Kómedíuleikhússins jólaleikritið Bjálfansbarnið og bræður hans hefur sannarlega fengið frábærar viðtökur. Leikurinn var frumsýndur fyrir fullu húsi um síðustu helgi í Listakaupstað á Ísafirði. Nú þegar er orðið uppselt á næstu sýningu sem er á laugardag en ennþá eru laus sæti á sýninguna á sunnudag. Forsala aðgöngumiða fer fram í Vestfirzku verzluninni á Ísafirði og í miðasölusíma Kómedíu 891 7025. Bjálfansbarnið verður sýnt allar helgar fram að jólum og einnig verður sérstök hátíðarsýning föstudaginn 30. desember kl.17 og stendur miðasala yfir á allar sýningar. Á vef Bæjarins besta bb.is í dag er birtur mjög lofsamlegur dómur um Bjálfansbarnið og bræður hans og má lesa gagnrýnina hér www.bb.is/Pages/26?NewsID=171715

Nú er bara að panta sér miða í tíma á Bjálfansbarnið og bræður hans í Listakaupstað á Ísafirði enda fátt skemmtilegra en að bregða sér í leikhús fyrir jólin.


Bjálfansbarnið fékk fullt hús

Fyrsta frumsýning þessa Kómedíuleikárs var um helgina þegar jólaleikritið Bjálfansbarnið og bræður hans var sýnt fyrir fullu húsi í Listakaupstað á Ísafirði. Hér er á ferðinni leikrit fyrir alla fjölskylduna sem fjallar um vestfirsku jólasveinunum sem hafa ekki sést meðal manna í hundrað ár ef ekki meira. Fullt hús var einnig á annarri sýningu leiksins sem var í gær, sunnudag. Miðasala á næstu sýningar er þegar hafin í Vestfirzku verzluninni og í miðasölusíma Kómedíu 891 7025. Sýnt verður bæði á laugardag og sunnudag kl.14 báða dagana. Eftir það verða sýningar allar helgar fyrir jól og einnig verður sérstök hátíðarsýning milli jóla og nýárs föstudaginn 30. desember en sú sýning hefst kl.17. Miðasala á allar sýningar er í blússandi gangi. Leikritið er sýnt í sal Listakaupstaðar í Norðurtangahúsinu á Ísafirði og er þetta fyrsta leikritið sem er sýnt í Listakaupstað. Bjálfansbarnið og bræður hans er eftir Elfar Logi Hannesson sem einnig leikur. Höfundur jólasveinavísna er Þórarinn Hannesson, Marsibil G. Kristjánsdóttir er skapari vestfirsku jólasveinanna sem og allrar umgjörðar ævintýrsins. Leikstjóri er Ársæll Níelsson.

Hamraborg og Ölgerðin styrkja Bjálfansbarnið

Kómedíuleikhúsið hefur gert samning við verslunina Hamraborg á Ísafirði og Ölgerðina Egil Skallagrímsson um að vera aðalstyrktaraðilar jólaleikritsins Bjálfansbarnið og bræður hans. Samstarfið við þessi góðu hugsjónafyrirtæki er fjölbreytt og sannkallað ævintýr. Blásið verður til sérstaks jólaleiks í tengslum við sýninguna þar sem möguleiki er á að hreppa sérlega girnilega vinninga fyrir munn og eyru. Allir þeir er sjá leikritið Bjálfansbarnið og bræður hans, sem verður frumsýnt núna á laugardag kl.14 í Listakaupstað, fá jólakort. Þetta er nú ekkert venjulegt jólakort þetta er nefnilega sannkallað töfrakort. Fyrst ber að nefna að allir þeir sem fara með þetta umtalaða jólakort í verslunina Hamraborg fá gómsætan súkkulaðivinning. Ekki nóg með það heldur fer kortið einnig í Grýlupottinn, nei afsakið, jólapott Bjálfansbarnsins. Á Þorláksmessu verður dregið úr jólapottinum og 35 heppnir áhorfendur fá vinning. Glaðningurinn er bæði Makintos konfekt og Þjóðlegar hljóðbækur. Já, þetta verður sannkallað jólaævintýri og nú er bara að panta sér miða í tíma á Bjálfansbarnið og bræður hans. Forsala á allar sýningar er þegar hafin í Vestfirzku verzluninni og einnig er hægt að hringja í miðasölusíma Kómedíuleikhússins 891 7025.
Allir í leikhús fyrir jólin.

List á Vestfjörðum - nýtt tímarit

Félag vestfirskra listamanna, FVL, hefur gefið út glæsilegt og veglegt tímarit. Hér er á ferðinni sérstakt kynningarrit félagsins sem var stofnað síðasta vor í Listakaupstað á Ísafirði. Tímaritið er fjölbreytt og fróðlegt og sýnir um leið hve mikil gróska er í listinni á Vestfjörðum. Kastljósinu er sérstaklega beint að vestfirsku listahátíðunum fjórum sem allar hafa notið fádæma vinsælda og eru með flottustu listahátíðum landsins í dag. Hver hátíð hefur sitt sérsvið Act alone er einleikjahátíð, Aldrei fór ég suður er rokkhátíð, Skjaldborg er heimildarmyndahátíð og loks elsta hátíðin Við Djúpið er helguð klassísk tónlistarhátíð. Í tímaritinu eru fjölmargar greinar um félagsmenn Félags vestfirskra listamanna má þar nefna leikarann Smára Gunnarsson frá Hólmavík, Eyþór Jóvinsson ljósmyndara, arkitekt og ég veit ekki hvað ekki, fjallað er um vestfirska kvikmyndafélagið Í einni sæng, ljósmyndarann Baldur Pan, myndlistarmanninn Reyni Torfa, tónskáldið Jónas Tómasson ofl ofl. Það er gífurleg gróska í vestfirsku listinni og þar er framtíðin björt. List á Vestfjörðum hefur verið dreift inná hvert heimili og víðar um landsbyggðina. Ef þú lesandi góður langar í eintak sendu þá línu og við kippum því í liðinn. Stefnt er að því að gefa út tímaritið List á Vestfjörðum árlega.

Forsala á Bjálfansbarnið og bræður hans

Jólin koma, jólin koma, já bara alveg rétt bráðum. Hvað er betra en að stytta biðina með því að bregða sér á sannkallað jólaævintýri. Kómedíuleikhúsið frumsýnir nýtt jólaleikrit Bjálfansbarnið og bræður hans laugardaginn 26. nóvember í Listakaupstað á Ísafirði. Hér er á ferðinni ævintýralegt jólaleikrit um vestfirsku jólasveinana sem hafa ekki sést í mannabyggðum í eina öld ef ekki meir. Það má því búast við miklu ævintýri þegar þessir kappar snúa aftur og munu örugglega, að hætti jólasveina mála bæinn rauðann. Bjálfansbarnið og bræður hans verður fyrst sýnt síðustu helgina í nóvember og eftir það allar helgar í desember. Sérstök jóla- og hátíðasýning verður milli jóla og nýárs þann 30. desember. Forsala á allar sýningar hefst í dag kl.14.14 í Vestfirzku verzlunni á Ísafirði. Miðaverðið er sannkallað jólaverð aðeins 1.900.- kr.
Allir í leikhús fyrir jólin.

Höfrungur á leiksviði á degi Jónasar

Lokasýning á gamanleikstykkinu Höfrungur á leiksviði er í kvöld á degi Jónasar Hallgrímssonar - Degi íslenskrar tungu. Leikurinn er sýndur í Félagsheimilinu á Þingeyri og hefst kl.20 í kvöld. Miðaverð er aðeins 2.000.- kr og miðasölusíminn er 848 4055. Leikritið Höfrungur á leiksviði hefur verið sýnt á Þingeyri við miklar og góðar viðtökur enda er hér um að ræða sportlegt og skemmtilegt leikrit fyrir alla fjölskylduna. Höfundur og leikstjóri er Elfar Logi Hannesson en alls taka 14 leikarar þátt í sýningunni auk þess starfa margir á bakvið tjöldin. Höfrungur á leiksviði fjallar um upphaf íþróttaiðkunnar á Þingeyri sem hófst strax í lok nítjándu aldar. Seinna var svo stofnað íþróttafélagið Höfrungur sem er með elstu starfandi sportfélaga landsins. En lífið er ekki bara íþróttir því félagið kemur að mörgum frábærum málum á Þingeyri og hefur heldur betur puntað uppá menningar- og mannlífið á Þingeyri síðustu 107 árin. Enn er félagið í fullum blóma og hefur nú haslað sér völl á leiksviðinu síðustu ár með frábærum árangri.

komedia.is

Kómedíuleikhúsið á Ísafirði hefur opnað nýja heimasíðu www.komedia.is. Hönnuður síðunnar er Baldur Páll Hólmgeirsson eða Baldur Pan einsog hann er gjarnan nefndur. Fjölhæfur listamaður sem hefur komið víða við í listinni fyrir vestan og verk hans vakið mikla athygli enda mjög frjó og fersk. Á heimasíðu Kómedíuleikhússins fær fólk allar upplýsingar um leikhúsið vestfirska. Leikárið 2011/2012 er kynnt sérstaklega en óhætt er að segja að það sé sannarlega mjög alþýðlegt og ævintýralegt. Eitt af mörgum trompum Kómedíunnar eru Þjóðlegu hljóðbækurnar en hægt er að panta þær allar í gegnum heimasíðuna. Á heimasíðunni eru reglulegar fréttir af Kómedíunni og því um að gera að líta við reglulega og fylgjast með ævintýrum atvinnuleikhússins fyrir vestan
www.komedia.is

Rafmagnsmorðið kl.14 laugardag á Ísó

Vestfirskur húslestur verður í Bókasafninu á Ísafirði núna á laugardag kl.14. Að þessu sinni verður fjallað um skáldið Val Vestan eða Steingrím M Sigfússon einsog hann hét réttu nafni. Hann ritaði vinsælar spennu og skemmtisögur m.a. Rafmagnsmorðið, Týndi hellirinn auk barnsögunnar Blíð varstu bernskutíð. Sönglög samdi hann líka fjölmörg og þar þekktast meðal jafningja Síldarvalsinn. Jóna Símonía Bjarnadóttir segir frá skáldinu og listamanninnum og Elfar Logi Hannesson les úr verkum hans. Aðgangur er ókeypis og boðið verður uppá kaffi. Vestfirskur húslestur er samstarfsverkefni Kómedíuleikhússins og Bókasafnsins á Ísafirði sem hefur staðið í nokkur ár. Fjölmörg skáld hafa verið til umfjöllunar má þar nefna Matthías Jochumsson, Stein Steinarr, Stefán frá Hvítadal, Ólöf Jónsdóttir, Gísli á Uppsölum, Dagur Sigurðarsson, Hannes Hafstein ofl.

Nýtt íslenskt leikrit frumsýnt á Þingeyri í kvöld

Leikdeild Höfrungs á Þingeyri frumsýnir nýtt íslenskt leikrit Höfrungur á leiksviði í kvöld. Sýnt verður í Félagsheimilinu á Þingeyri og hefst sýningin kl.20. Miðaverð er aðeins tvö þúsund krónur, posi á staðnum og miðasölusíminn ávallt á vaktinni í síma: 848 4055. Leikritið Höfrungur á leiksviði fjallar um íþróttamenningu í Dýrafirði en rætur íþróttarinnar eru langar og í raun endalausar. Skipulagðar íþróttaæfingar fóru fyrst fram árið 1885 og árið 1904 var síðan Íþróttafélagið Höfrungur stofnað. Félagið hefur starfað ötulega allar götur síðan og er með elstu starfandi íþróttafélaga í dag. Gaman að segja frá því að félagið er ekki bara í sportinu því þau standa einnig fyrir fjölbreyttu menningarlífi og hafa sannarlega ,,puntað vel uppá menningarlífið" í gegnum áratugina. Félagið stendur m.a. fyrir árlegri söngvarakeppni á fæðingardegi Nonna Sig, eru bæði jólaball og Þrettándagleði og síðast en ekki síst hafa þau verið að setja upp leiksýningar með miklum bravúr. Aðeins verða fjórar sýningar á leikritinu Höfrungur á leiksviði og því um að gera að líta á dagatalið og velja sér sýningu. Frumsýningin er í kvöld einsog áður var getið og hefst kl.20. Önnur sýning verður á sunnudag kl.20, þriðja sýning fimmtudaginn 10. nóvember og lokasýningin verður á Degi íslenskrar tungu miðvikudaginn 16. nóvember kl.20. Höfrungur á leiksviði er sportlegt og skemmtilegt leikrit fyrir alla fjölskylduna.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband