Færsluflokkur: Menning og listir

MENNINGIN ER STÓRIÐJA VESTFJARÐA

Í dag er tími til að hafa smá dvöl og pæla soldið. Hvað höfum við og hvert eigum við að stefna? Stórt spurt og mörg svör þurfum bara að taka dansinn saman. Fyrir mér sem Vestfirðingi og íbúa þar er svarið skýrt. Sóknarfæri okkar liggja einna helst í menningu, listum og ferðamennsku sérstaklega þegar allt þetta er tengt saman og þá kallast það Menningartengd ferðaþjónusta. Þetta er okkar stóriðja á Vestfjörðum. Það er ótrúlegt hve listastarfsemin er öflug á Vestfjörðum í hverju þorpi er verið að vinna að metnaðarfullum verkefnum og það sem meira er menn eru að framkvæma hlutina. Það er löngu sannað að menning og listir eru að meika fullt af pening fyrir viðkomandi svæði hverju sinni. Tökum sem dæmi allar listahátíðirnar sem eru haldnar árlega á Vestfjörðum. Rokkhátíðin Aldrei fór ég suður stendur þar fremst í flokki árlega flykkjast vestur þúsundir manna til að upplifa þessa mögnuðu hátíð og það er ekkert smá sem er innifalið í þeirri heimsókn allra þessara gesta. Nefnum bara það helsta gisting á hótelum og gistiheimilum fyllast, Samkaup og Bónus fyllast af fólki, verslunin Hamraborg er troðfull allan daginn, verslanir á svæðinu fyllast s.s. Orkusteinn, Bókhlaðan að ógleymdum bakaríunum og öllu hinu. Flugfélagið flýgur daga og nætur til að koma fólkinu vestur og aftur heim. Veit ekki hvað þetta er mikið ef allt er lagt saman en væri fróðlegt ef einhver gerði það. Hverjum list og menningarviðburði fylgir nebblega ýmislegt og þessu má ekki gleyma. En einsog ég sagði áður þá vantar okkur dansfélaga í þennan listræna dans. Einhvern sem segir ,,listir og menning það er okkar tækifæri veðjum á það og aðstoðum þau verkefni og eflum enn frekar". Menntamálaráðuneytið mætti líka gjarnan horfa meira vestur og bara almennt á listina á landsbyggðinni - ég meina við klárum þetta ekki bara með vatni og rúgbrauði, en til þessa hefur ráðuneytið stutt lítið við menningu á landsbyggðinni. Það er alltaf verið að bera saman önnur lönd við okkar sem hafa lent í sömu krísu og við. Eitt Norðurlandanna gerði einmitt ekki það að minnka styrki til lista og menningarstarfs heldur akkúrat öfugt og það finnst mér að við ættum að gera líka. Menningin og listin standa í miklum blóma á Vestfjörðum þessa dagana og nú vonum við að einhver sem hefur monníumráð hjá hinu opinbera kveiki á perunni líka og sé til í að taka með okkur listrænan tangó. Því einsog maðurinn sagði: Það er mikilvægt að punta uppá menningarlífið."


VIÐ HEIMTUM AUKAVINNU! Í REYKJAVÍK

Alþýðlega leik- og söngskemmtuninn Við heimtum aukavinnu! sem hefur verið sýnd yfir 10 sinnum fyrir troðfullu Edinborgarhúsi verður nú sýnd í Reykjavík. Sýnt verður í Gullhömrum í Grafarholti um Hvítasunnuhelgina. Miðasala er þegar hafinn og um að gera að vera snöggur að panta því aðeins verða þrjár sýningar í boði. Miðasölusími: 6188269.

Sýningar:

Föstudaginn 29. maí kl.21.00

Laugardaginn 30. maí kl.20.00 og 22.00.

Miðaverð aðeins 2.500. krónur.

Óhætt er að segja að bræðurnir Jónas og Jón Múli Árnasynir hafi verið menn mikilla hæfileika. Í verkum sínum hittu þeir á einhvern tón sem þjóðin fílaði. Samstarfið var mjög gjöfullt og nánast hver einasti söngsmellur þeirra er enn á vörum manna í dag. Það væri alltof langt mál að fara að telja hér upp alla slagara þeirra bræðraa og látum við okkur nægja að flytja úrval þeirra í söngskemmtun okkar. Hver man ekki eftir lögum einsog: Og þá stundi Mundi, Fröken Reykjavík, Augun þín blá, Úti er alltaf að snjóa og Einu sinni á ágústkvöldi sem Hnífsdælingurinn Steindór Hjörleifsson gerði svo góð skil á sínum tíma.

Litli leikklúbburinní samstarfi við Kómedíuleikhúsið heiðra hér minningu bræðranna Árnasona með þessari alþýðlegu leik- og söngskemmtun Við heimtum aukavinnu!. Það er ósk okkar að þið takið þátt í ævintýrinu með okkur því þegar öllu er á botninn hvolft þá er Lífið lotterí.

LISTAMANNAÞING VESTFJARÐA

Laugardaginn 16. maí næstkomandi verður haldið Vestfirskt listamannaþing á Ísafirði og er listafólk af öllum Vestfjarðakjálkanum og aðrir áhugamenn um vestfirska list boðnir hjartanlega velkomnir á þingið. Á þinginu verður rætt um stöðu og framtíð listastarfsemi á Vestfjörðum og munu valinkunnir listamenn úr hópi heimamanna segja frá hugðarefnum sínum í þessu samhengi, auk þess sem rætt verður um listahátíðir á svæðinu.

LISTAMANNAÞING VESTFJARÐA

- Staða og framtíð listalífs á Vestfjörðum -

Laugardaginn 16. maí kl. 14 í Edinborgarhúsinu

Fundarstjóri: Jón Jónsson, menningarfulltrúi Vestfjarða

Það eru Menningarráð Vestfjarða og Kómedíuleikhúsið sem standa að listamannaþinginu, en Kómedíuleikhúsið hefur áður staðið tvö ár í röð fyrir slíku þingi fyrir listafólk í Ísafjarðarbæ. Vestfirska listamannaþingið hefst kl. 14:00 og verður haldið í Bryggjusalnum í Edinborgarhúsinu.

Drög að dagskrá:
Minni listanna
– fulltrúi frá hverri listgrein fyrir sig flytur pistil um stöðu og framtíð sinnar greinar, einnig má búast við að farið verði um víðan völl í þessum erindum. Fyrirlesarar eru:

Kvikmyndalist, framtíð heimildarmyndargerðar á Vestfjörðum - Kristinn Schram á Hólmavík
Myndlist – Marsibil G. Kristjánsdóttir á Ísó
Leiklist – Hannes Friðriksson frá Leikfélaginu Baldri Bíldudal (sökum anna Baldurmanna við söngævintýri í dag þá mun Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir leikkona á Þingeyri flytja pistilinn)
Ritlist – Jón Páll Halldórsson frá Ísafirði
Tónlist – Þröstur Jóhannesson frá Ísafirði
Ljósmyndalist – Ágúst Atlason frá Ísafirði

Listahátíðir á Vestfjörðum – fulltrúi frá þeim hátíðum er haldnar eru árlega hér vestra, segir frá viðkomandi hátið, tilurð hennar, stutt um söguna og loks um framtíðina. Fyrirlesarar eru:

Act alone, leiklistarhátíð – Elfar Logi Hannesson, stofnandi og listr. stjórn ActAlone.
Aldrei fór ég suður, rokkhátíð – Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, rokkstjóri
Skjaldborg, kvikmyndahátíð – Huldar Breiðfjörð, einn af stofnendum
Við Djúpið, tónlistarhátið – Fulltrúi frá hátíðinni

Menningartengd ferðaþjónusta – hvað er það fyrir nokkuð? - Jón Jónsson menningarfulltrúi og fyrrverandi formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða les mönnum pistilinn um þau fræði

HLÉ – BOÐIÐ VERÐUR UPPÁ KAFFI OG KLEINUR

Sérstakur gestur þingsins Rúnar Guðbrandsson, leikstjóri, flytur erindi um tækifæri og möguleika vestfirskrar listar og listamanna, varpar fram gommu af hugmyndum, stórum sem smáum, framkvæmanlegum og ekki, einnig mun hann fara um víðan völl.

Félag vestfirskra listamanna (FVL) kynnt – Elfar Logi Hannesson kynnir hugmyndina að stofna félag vestfirskra listamanna – ef vel verður tekið í dæmið verður boðað til stofnfundar.

Orðið laust – opnar umræður og uppistand.

KÓMÍSK VIKA

Það er mikið um að vera hjá Kómedíuleikhúsinu í nýhafinni viku. Í kvöld verður uppistand í Stykkishólmi á menningarráðstefnu sem þar er haldin. Kómedíuleikarinn skundar síðan á Bíldudal þar sem hann mun setja upp sýningu með æskunni á staðnum, leik um þeirra eigið þorp. Sýningin ber nafnið Bíldudals Bacalao og fjallar um uppgangstímann á staðnum þegar Pétur Thorsteinsson flutti þangað og breytti staðnum úr sveit í þorp á örfáum árum. Enda var hann ekki kallaður Bíldudalskóngurinn fyrir ekki neitt. Leikurinn verður frumsýndur á afmælisdegi Péturs 4. júní en í ár eru 155 ár frá fæðingu föður Bíldudals. Á fimmtudag verður fyrsta sýning sumarsins á Gísla Súrssyni á ensku. Sýnt verður í Edinborgarhúsinu. Daginn eftir verður haldið inntökupróf fyrir Morrann á Ísafirði en Kómedía sér um listræna stjórn Morrans. Alls munu 15 ungir leikarar starfa við leikhúsið í sumar. Á laugardag verður haldið Listamannaþing Vestfjarða á Ísafirði. Kómedía og Menningarráð Vestfjarða standa fyrir þinginu og er þetta í fyrsta sinn sem þingið er haldið en síðustu tvö ár hefur Kómedían haldið Listamannaþing Ísafjarðarbæjar. Yfirskrif Listamannaþings Vestfjarða er stór og mikil eða Staða og framtíð listalífs á Vestfjörðum. Fjölmargir listamenn taka til máls og ræða og pæla í listinni. Einnig fáum við listamann úr borginni á þingið og mun hann flytja erindi um möguleika og tækifæri listalífs á Vestfjörðum. Rétt er að geta þess að aðgangur að Listamannaþingi Vestfjarða er ókeypis og vonumst við til að sjá sem flesta og ekki bara listamenn heldur og ekki síður þeirra sem greiða okkur launin, þ.e. áhorfendur og unnendur listarinnar. Nánar verður sagt frá þinginu þegar nær dregur en endilega takið daginn frá. Loks má geta þess að Kómedíuhjónin verða í Dalaporti í Arnardal á sunnudag. Það verða Þjóðlegu hljóðbækurnar til sölu og margt fleira. Gaman er að geta þess að þessi vika er svipuð og næstu vikur sumarsins. Semsagt Kómískir tímar framundan.

LIST Á LAUGARDEGI Á HÓLMAVÍK UM HELGINA

Listahjónin Elfar Logi Hannesson og Marsibil G. Kristjánsdóttir standa fyrir sérstökum listadegi á Hólmavík laugardaginn 9. maí. Ævintýrið nefnist einfaldalega List á laugardegi og á veisluborðinu verður leiklist og myndlist. Fjörið hefst með leiksýningunni Auðun og ísbjörninn í Bragganum á Hólmavík kl.15. Hér er á ferðinni vönduð leiksýning fyrir alla fjölskylduna sem hefur fengið frábæra dóma. Auðun og ísbjörninn fjallar um ungan dreng að vestan sem leggst í víking til fjarlægra landa. Á leiðinni verður á vegi hans taminn ísbjörn og þá tekur leikurinn á sig ævintýralegar myndir. Myndlistin tekur völdin að lokinni sýningu á Auðun og ísbjörninn. Þá mun Marsibil G. Kristjánsdóttir opna myndlistarsýningu í Þróunarsetrinu á Hólmavík. Sýningin opnar kl.16 og verður boðið uppá léttar veitingar. Marsibil hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín og hefur haldið sýningar víðs vegar um landið og einnig erlendis. Um sölusýningu er að ræða og mun sýningin standa í mánuð.

DRAGEDÚKKEN FÆR LOFSAMLEGA DÓMA

Á Þingeyrarvefnum www.thingeyri.is er birtur leikdómur um leikverkið Dragedúkken. Leikurinn var sýndur í byrjun apríl og um páskana við mjög góða aðsókn en svo gott sem fullt var á allar fimm sýningar leiksins. Höfundur og leikstjóri Dragedúkken er Kómedíuleikarinn og því fannst Kómedíunni alveg tilvalið að birta leikdóm um sýninguna hér á Kómedíublogginu. Leikdómari er Hallgrímur Sveinsson bókaútgefandi:

Ævintýri á vesturslóð: Dragedúkken slær í gegn á Þingeyri.
Sögulegt leikverk um Þingeyri í denn
Höfundur og leikstjóri: Elfar Logi Hannesson
Tónlist: Andreas Steinbach
Útsetningar: Krista Sildoja
Hljómsveit tónlistarskólans:
Krista Sildoja 1. fiðla
Agnes Sólmundsdóttir 1. fiðla
Raivo Sildoja 2. fiðla, gítar blokkflauta
Jóhanna Jörgensen Steinsdóttir blokkflauta
Arnar Logi Hákonarson gítar
Elínbjörg Snorradóttir harmonika
Bergsveinn Gíslason harmonika
Kristján Gunnarsson harmonika.
Stjórnandi Krista Sildoja
Leikmynd: Alda Veiga Sigurðardóttir, Kristján Fannar Ragnarsson, Sigmundur F. Þórðarson, Steinn Ólason og Sveinbjörn Halldórsson
Ljósameistari: Róbert Daníel Kristjánsson
Leikskrá: Rakel Brynjólfsdóttir
Íþróttafélagið Höfrungur stendur að sýningunni - Félagsheimilið Þingeyri apríl 2009.


Leiklist í Dýrafirði í tímans rás
Leiklist hefur í tímans rás átt mikinn hljómgrunn í hjörtum Dýrfirðinga. Fyrsta uppfærsla á leikriti í fullri lengd sem vitað er um á Þingeyri, var Ævintýri á gönguför. Sá atburður átti sér stað á árunum rétt fyrir aldamótin 1900 í Vertshúsinu. Þá réði þar ríkjum Jóhannes Ólafsson, síðar hreppstjóri og mikill forystumaður í sveitarfélaginu um áratuga skeið. Jóhannes rak greiðasölu í húsinu sem nefnd var því virðulega nafni Hótel Niagara. Heimildir eru fyrir því, að mörg leikrit hafi verið sýnd þar á tíma Jóhannesar.
Lengi vel bar Kvenfélagið Von uppi leikstarfsemina á staðnum og voru leiksýningar á vegum þess meðal annars í svokölluðu Þinghúsi, sem er áfast við gamla barnaskólann, en síðan í Félagsheimilinu eftir að það kom til sögunnar 1939. Einnig voru leiksýningar á vegum Íþróttafélagsins Höfrungs, sem er eitt elsta íþróttafélag landsins, og mikið var leikið á vegum templara í Templarahúsinu, eða Rauða húsinu sem stóð fyrir innan barnaskólann. Þá starfaði Leikfélag Þingeyrar af miklum krafti um skeið.

Sjónleikur í einum þætti
Og nú hefur Höfrungur gamli sett á fjalirnar sjónleik í einum þætti, Dragedukken, um klukkustundar langan og sýnt nokkrum sinnum fyrir fullu húsi. Eins og ekkert sé sjálfsagðara. Segir þar frá bræðrunum Daniel M. Steinbach og Andreas M. Steinbach, en þeir stýrðu verslununum á Þingeyri og Flateyri fyrir og eftir 1800, í umboði Henriks Henkel kaupmanns. Allir voru þessir heiðursmenn frá Noregi. Persónur og leikendur eru 12 talsins og hljómsveit skipa 8 manns.
Skemmst er frá því að segja að sýning þessi kemur á óvart. Þar er leikgleði og sérstakur sjarmi í fyrirrúmi, fáir veikir hlekkir og tempóið í verkinu mjög gott. Replikkur komast yfirleitt vel til skila og yfir sýningunni er þessi sérstaki blær sem oft er annars háttar en hjá atvinnumönnum.
Sögumenn tveir sem opna verkið, strákarnir Birgir Knútur Birgisson og Þórður Sigmundur Ragnarsson, eru nokkuð kostulegir og vita alveg hvað þeir eru að gera, bæði uppi á sviði og niðri í sal. Gestaleikarinn Benedikt Birkir Hauksson frá Ísafirði leikur Andreas Steinbach, eina höfuðpersónu verksins og ferst það vel úr hendi. Greinilega vanur maður. Elenu Kristine, konu hans, leikur Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir og má bara teljast fæddur leikari, eins og fleiri sem troða upp í Dragedukken. Einnig leikur Guðrún Sigurð nokkurn sem við sögu kemur.
Jón Sigurðsson leikur Daniel Steinbach, bróður Andreasar, myndar maður í sjón og reynd og þarf ekki annað en láta sjá sig, þá fer kvenfólkið að kikna í hnjáliðunum. Þessu kemur Jón vel til skila.
Lisbet Hansdóttir, ráðskona, er leikin af Gunnhildi Björk Elíasdóttur. Hún skenkir ótt og títt í glösin hjá liðinu og flögrar um á sinn ísmeygilega hátt. Persónusköpun Gunnhildar er með því betra sem gerist í verkinu.
Næst skal frægan telja Hólmgeir Pálmason, sem hefur tvö hlutverk með höndum, Henrik Henkel og Friðrik Svendsen. Í höndum Hólmgeirs brestur ekkert á, maður sem er öllu vanur og er sviðið eins og heimavöllur hans og persónurnar ljóslifandi.
Bjarney Málfríður Einarsdóttir hefur með höndum tvö hlutverk eins og sumir aðrir, stúlkuna Kristínu og biblíumanninn Ebenezer Henderson. Skilar hún þeim óaðfinnanlega, ekki síst Henderson, sem er þekkt persóna úr Íslandssögunni.
Berglind Hrönn Hlynsdóttir leikur frænku sína, Þórdísi Jónsdóttur, móður Jóns forseta Sigurðssonar, þá ung heimasæta á prestssetrinu Söndum, en í leiknum gestkomandi í kaupmannshúsum á Þingeyri. Er ekki annað að sjá en Berglind Hrönn ætti að geta átt framtíð fyrir sér sem leikkona, eins og reyndar fleiri leikendur í Dragedukken.
Unga stúlku, Margréti, leikur Jóhanna Jörgensen Steinsdóttir og má segja að þar falli eplið ekki langt frá eikinni, en hún er dóttir Guðrúnar Snæbjargar, sem fyrr er nefnd. Jóhanna leikur einnig á blokkflautu í hljómsveitinni hjá þeim Sildoja hjónum og verður ekki skotaskuld úr því. Bóndi og Jón eru svo leiknir af Ævari Höskuldssyni, sem er á ungum aldri eins og Jóhanna og á framtíðna fyrir sér.
Af þeim fríða hópi leikara, sem lætur ljós sitt skína á sviðinu, skal svo að lokum nefndur Sigþór Gunnarsson, sem kemur, sér og sigrar í hlutverki Peders N. Terslews, sem er nokkuð óræð persóna. Það var sagt um gamanleikarann ástsæla, Alfreð Andrésson, hjá Leikfélagi Reykjavíkur forðum, að hann þyrfti ekki annað en sýna sig á sviðinu, þá færu allir að hlægja. Svipað má segja um Sigþór. Hann klikkar aldrei, hvort sem er í því daglega eða á sviði. Slíkir leikarar eiga það að vísu til að ofleika, en það gerir ekkert til, þannig er húmorinn. Sigþór er faðir Guðrúnar Snæbjargar, móður Jóhönnu Jörgensen Steinsdóttur. Þrjár kynslóðir í sama verkinu! Ekki amalegt.
Leikmynd Dragedukken er býsna góð og ljósum hagrætt af smekkvísi.

Dugnaður Elfars Loga
Leikstjóri verksins og höfundur, Elfar Logi Hannesson, er greinilega ekki einhamur maður. Dugnaður hans á leiklistarsviðinu hér fyrir vestan verður að teljast mjög sérstakur. Uppbygging Kómedíuleikhúsins, sem unnið hefur sér fastan sess, er til dæmis algjörlega hans verk. Þannig mætti lengi telja. Og nú hefur Elfar Logi unnið nokkurn leikstjórnarlegan sigur með Dragedukken. Það er mikil vinna á bak við eina slíka sýningu áhugaleikara. Margir sem við sögu koma, en leikstjórinn er sá sem stillir saman strengina. Þar hefur vel tekist til sem áður segir.
Dragedukken er sagt sögulegt leikverk og er það að vissu leyti. Þar er nokkuð byggt á stórvirki Kjartans Ólafssonar, Firðir og fólk 900-1900. Svo er alltaf spurningin hvað á að taka með og hverju sleppa. Elfari Loga hefur tekist nokkuð vel að sigla þar milli skers og báru, þó deila megi um persónugerðir og slíka hluti endalaust.
Svo var það spurningin hvort ekki megi finna eitthvað sem betur mætti fara í þessari leiksýningu áhugamanna á Þingeyri. Vissulega. Annað væri óeðlilegt. Það verður þó ekki tínt til hér, nema það, að látbragðsleikur margra leikaranna, varahreyfingar í tíma og ótíma, mætti missa sín að nokkru leyti.

Hoffinsleikir
Því skal skotið inn hér til gamans, að Kjartan Ólafsson segir frá því í hinni stórmerku bók sinni, Firðir og fólk 900-1900, að Þórdís Jónsdóttir hafi á æskuárum verið viðstödd svokallaðan Hoffinsleik hjá Andreasi Steenbach á Þingeyri um 1790. Hoffinsleikur var einn hinna gömlu gleðileikja sem verslegir og geistlegir valdsmenn kepptust við að bannfæra á landi hér á árunum upp úr 1700, enda var sagt að 19 börn hefðu komið undir á síðustu Jörfagleðinni í Haukadal í Dalasýslu, en þar var einmitt venja að fara í Hoffinsleik. Þetta voru jólaleikir, en þá gladdi fólkið sig við söng og dans en síðan gengu karlmennirnir í kvennahópinn og völdu sér konu til fylgilags. Hoffinsleikurinn á Þingeyri, sem Þórdís segir frá, er sá síðasti á landi hér sem Kjartan getur rakið.
Tónlistin í verkinu, sem er eftir Andreas Steinbach, samin um 1800, er alveg sér á parti og setur mikinn svip á sýninguna undir öruggri handleiðslu þeirra Sildoja hjóna, Raivo og Kristu. Andreas hefur verið með allra fyrstu mönnum á Íslandi sem skrifuðu tónverk fyrir fiðlu. Þetta er alþýðutónlist af bestu gerð og er heilmikil saga á bak við hana, sem ekki er hægt að fara nánar út í hér.
Með konu sinni, Elene Kristine, eignaðist Andreas níu börn, sem öll fæddust á Þingeyri á árunum 1803-1816. Má telja víst að einhverjir af þeim sem við sögu koma í leiksýningunni Dragedukken séu afkomendur þeirra hjóna. Og það var einmitt einn af afkomendum þeirra, Guðmundur K. Steinbach, sem átti heiðurinn af því að koma tónlistinni á framfæri við Dýrfirðingana.
Þess skal getið, að í sýningarlok sungu allir viðstaddir grípandi lag eftir Andreas Steinbach, við ágætt ljóð Lína Hannesar Sigurðssonar, sem hann nefnir Síðasti valsinn. Var það góður endir á
skemmtilegu kvöldi.

AUÐUN OG ÍSBJÖRNINN Í HAUKADAL Á SUNNUDAG

Kómedíuleikhúsið sýnir leikritið vinsæla Auðun og ísbjörninn á Gíslastöðum, samkomuhúsinu, í Haukadal. Sýnt verður á sunnudag, 3. maí, og hefst sýningin kl.15. Miðasölusími er 891 7025 en einnig er hægt að panta miða á heimasíðu leikhússins www.komedia.is Sýningin hefur notið mikilla vinsælda og hlotið afbragðs góðar viðtökur áhorfenda. Leikritið Auðun og ísbjörninn er byggt á Íslendingaþættinum Auðunar þáttur vestfirzka sem er án efa besti og vinsælasti allra Íslendingaþátta. Hér segir frá bóndastrák frá Vestfjörðum sem leggst í víking og á vegi hans verður taminn ísbjörn. Auðun ákveður að gefa Sveini Danakonungi ísbjörninn og hefst þá ævintýralegt ferðalag piltsins og bjarnarins. Höfundur og leikstjóri er Soffía Vagnsdóttir og leikari er Elfar Logi Hannesson. Tónlistin í leiknum er eftir Hrólf Vagnsson en Bára Grímsdóttir og Steindór Andersen flytja söngvana. Höfundar leikmyndar eru Kristján Gunnarsson og Marsbil G. Kristjánsdóttir en hún hannar einnig ísbjörninn, leikmuni og leikgerfi. Búninga gerir Alda Veiga Sigurðardóttir listakona á Þingeyri.

ÞJÓÐSÖGUR FRÁ SÚÐAVÍK - NÝ HLJÓÐBÓK

Fimmta þjóðlega hljóðbókin er nú komin á markað. Enn eru þjóðsögurnar í aðalhlutverki og að þessu sinni eru það Þjóðsögur frá Súðavík. Hér segir af álfum, draugum og ýmsum furðuverum sem hafa verið á sveimi í Súðavíkinni í gegnum aldirnar. Sögufrægar persónur koma einnig við sögu en þar fara fremstir í flokki þeir Galdra- Leifi og Jón Indíafari og hefur hljóðbókin að geyma magnaða sagnaþætti um þá félaga. Þjóðsögur frá Súðavík kosta aðeins 1.999.-kr og fást í netverslun Kómedíuleikhússins www.komedia.is Sendum hvert á land sem er og takið eftir ekkert sendingargjald. Hljóðbókin ásamt hinum þjóðlegu hljóðbókum Kómedíu fást í verslunum Pennans og Eymdundsson um land allt sem og í verslunum hér og hvar um landið. Þjóðsögur frá Súðavík er enn ein perlan í þjóðlegu útgáfu Kómedíuleikhússins en hljóðbækurnar hafa notið fádæma vinsælda og eru tvær fyrstu uppseldar hjá útgefanda

LEIKHÚSPÁSKAR Á ÍSÓ

Kómedíuleikhúsið og Litli leikklúbburinn standa fyrir sérstökum Leikhúspáskum á Ísó. Boðið verður uppá sannkallaða leikhúsveislu fyrir alla aldurshópa alla páskana á Ísó. Alls verða fjögur leikverk á fjölunum sem öll hafa notið fádæma vinsælda og ættu því allir að geta átt góðir stundir í leikhúsinu á Ísó um páskana. Það verður ekki bara leikhús heldur líka skíði og rokk því hin árlega Skíðavika verður haldin á Ísó og Aldrei fór ég suður munu rokka bæinn rauðann sjötta árið í röð. Dagskrá Leikhúspáska Ísó er hér að neðan og nú er bara að velja sér sýningu og panta miða í veisluna.

LEIKHÚSPÁSKAR Á ÍSÓ

VIÐ HEIMTUM AUKAVINNU!

Sýnt í Edinborgarhúsinu Ísafirði

Miðaverð: 1.900.- kr.

Miðasölusími: 618 8269

Fim. 9. apríl kl.21.00. Aukasýning

Fim. 9. apríl kl.21.00. Aukasýning

Fös. 10. apríl kl.21.00. UPPSELT

Fös. 10. apríl kl.24.00. Aukasýning


AUÐUN OG ÍSBJÖRNINN

Sýnt í Tjöruhúsinu Ísafirði

Miðaverð: 1.500.- kr

Miðasölusími: 891 7025

Einnig er hægt að panta miða á netfanginu komedia@komedia.is

Fös. 10. apríl kl.14.00. Panta: komedia@komedia.is

Sun. 12. apríl kl.14.00. Panta: komedia@komedia.is


GÍSLI SÚRSSON

Sýnt í Tjöruhúsinu Ísafirði

Miðaverð: 1.500.- kr

Miðasölusími: 8917025

Einnig er hægt að panta miða á netfanginu komedia@komedia.is

Fös. 10. apríl kl.16.00. Panta: komedia@komedia.is

DIMMALIMM

Sýnt í Tjöruhúsinu Ísafirði

Miðaverð: 1.500. - kr

Miðasölusími: 891 7025

Einnig er hægt að panta miða á netfanginu komedia@komedia.is
Lau. 11. apríl kl.14.00. Panta: komedia@komedia.is

ÍSBJÖRNINN KEMUR Á ÍSÓ 1. APRÍL OG ÞAÐ ER EKKI GABB

Kómedíuleikhúsið frumsýnir nýtt íslenskt leikverk Auðun og ísbjörninn miðvikudaginn 1. apríl kl.20 í Tjöruhúsinu á Ísafirði. Leikurinn er byggður á Íslendingaþættinum Auðunar þáttur vestfirzka sem er án efa besti og vinsælasti allra Íslendingaþátta. Hér segir frá bóndastrák frá Vestfjörðum sem leggst í víking og á vegi hans verður taminn ísbjörn. Auðun ákveður að gefa Sveini Danakonungi ísbjörninn og hefst þá ævintýralegt ferðalag piltsins og bjarnarins. Höfundur og leikstjóri er Soffía Vagnsdóttir og leikari er Elfar Logi Hannesson. Tónlistin í leiknum er eftir Hrólf Vagnsson en Bára Grímsdóttir og Steindór Andersen flytja söngvana. Höfundar leikmyndar eru Kristján Gunnarssona og Marsbil G. Kristjánsdóttir en hún hannar einnig ísbjörninn, leikmuni og leikgerfi. Búninga gerir Alda Veiga Sigurðardóttir. Uppselt er á frumsýningu en önnur sýning verður laugardaginn 4. apríl kl.14. Einnig verður leikurinn sýndur tvívegis um páskana á Ísafirði í tengslum við Skíðaviku og Leikhúspáska á Ísó sem eru nú haldnir í fyrsta sinn. Eftir páska verður haldið í leikferð með Auðun og Ísbjörninn um Vestfirði og jafnvel víðar.
Kómedíuleikhúsið er fyrsta og eina atvinnuleikhúsið á Vestfjörðum. Leikhúsið hefur starfað fyrir vestan með miklum blóma síðan um síðustu aldamót og sett á svið fjölmörg leikverk. Síðan 2001 hefur Kómedía helgað sig einleiknum og hefur orðið nokkuð ágengt á því sviði og verið í fararbroddi þessarar sérstöku listgreinar hér á landi. Þekktasti leikur Kómedíu er án efa Gísli Súrsson sem hefur verið sýndur um 200 sinnum bæði hér heima og erlendis og unnið tvívegis til verðlauna á erlendum leiklistarhátíðum. Af öðrum einleikjum Kómedíu má nefna Muggur, Steinn Steinarr, Pétur og Einar, Dimmalmm og Jólasveinar Grýlusynir. Kómedíuleikhúsið sér einnig um listræna stjórn leiklistarhátíðarinnar Act alone á Ísafirði sem er helguð einleikjum. Hátíðin var fyrst haldin árið 2004 og hefur vaxið og dafnað með ári hverju. Act alone fékk Menningarverðlaun DV árið 2008. Act alone verður haldin sjötta árið í röð dagna 14. – 16. ágúst nú í ár. Það er óhætt að segja að Kómedíuleikhúsið hafi poppað uppá menningarlífið á Vestfjörðum á síðustu árum enda hefur leikhúsið jafnan sinnt vestfirskum sagnaarfi sérstaklega.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband