Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
ÖRFÁ SÆTI LAUS Á JÓLASVEINA GRÝLUSYNI Á SUNNUDAG
15.11.2007 | 15:45
FIMMTI KÓMÍSKI JÓLASVEINNINN KEMUR ÚR GILINU
14.11.2007 | 12:57
Já það er sannarlega mikið fjör í Kómedíuleikhúsinu þessa dagana og hver jólasveinninn af öðrum kynnir sig hér á blogginu. Það er mikill galsi á sveininum sem nú kemur því það er sjálfur Giljagaur sem hoppar á milli gila einsog sjálfur Gísli Súrsson gerði hér í denn. Það er best að hann kynni sig bara sjálfur. Giljagaur teik it avei:
GILJAGAUR
Giljagaur heiti ég
með krosslagða fætur
fætur sem ég hef á svaklegar mætur.
Um gilin ég hoppa
án þess að stoppa,
um fyrnindi og fjöllin,
- heilsa upp á tröllin.
Til bæja ég held
hvert einasta kveld
dagana fyrir jólin
þegar sólin, blessuð sólin,
er sest á bak við hólinn.
Giljagaur heiti ég
og er einsog gormur.
Gormur sem snýst einsog endilangur ormur.
Ferðast í stuði.
En stundum þó með puði
upp klungur og kletta
og stundum er að detta.
Til bæja ég held
hvert einasta kveld
dagana fyrir jólin
þegar sólin, blessuð sólin,
er sest á bak við hólinn.
FJÓRÐI SVEINNINN MÆTTUR Í KÓMEDÍULEIKHÚSIÐ
13.11.2007 | 19:15
Þeir streyma í Kómedíuleikhúsið Jólasveinarnir Grýlusynir. Hér kemur fjórði sveinninn sem er einmitt á ferð á matmálstímum ef ske kynni að skyr sé til í bænum. Reyndar er hann ekki alveg sáttur við skyrflóruna í dag fílar ekki þekka karamellu, jarðaberja eða súkkulaðimintu skyr. Hvað þá þetta púktur is og drykkjarskyr. Nei, takk, Skyrgámur vill hafa skyrið einsog í gamla daga, þykkt, súrt og bragðsterkt. Svoleiðis getur hann hámað í sig endalaust færi t.d. létt með að sporðrenna einum fristigámi af skyri. Útlitið er líka í stíl við matarvenjurnar því hann lítur út einsog tunna. Eða einsog hann segir sjálfur frá í vísunni sinni:
SKYRGÁMUR
Líttu' á mig, - ég lít út einsog tunna!
Já - eitt er það sem fáir aðrir kunna:
að tæma aleinn ámu risastóra
sem venjulega dugar fyrir fjóra.
Hún troðfull er af skyri beint frá bænum
ég tæmi'ana til botns í einum grænum.
Svo sit ég bara afvelta og get mig ekki hreyft,
ég veit það bara að þetta hefði Grýla aldrei leyft,
hvort sem skyrið hefði verið gefins eða keypt!
Skyrrrrrrr
Skyrrrrrrr
Skyrrrrrr
ÞRIÐJI KÓMÍSKI JÓLASVEINNINN HEILSAR
13.11.2007 | 13:42
Já nú er eins gott að passa uppá pottana. Því hér kemur Pottasleikir. Sem hefur lent í því óhappi eftir rifrildi við Gáttaþef að fá pott á höfuðið og á erfitt með að losa hann. En þegar það tekst þá er gott að gæða sér á gómsætinu í pottinum.
POTTASLEIKIR
Æ, æ, æ,
ég hausnum á mér ekki upp úr næ!
En viltu vita hvernig fram fer vinnan?
Ég vinn við það að sleikja pott að innan.
Mín langa breiða tunga gerir gagnið,
því betur sem að meira reynist magnið
af innansleikjunni sem eftir verður
þegar góður pottréttur er gerður!
ANNAR KÓMÍSKUR SVEINN
13.11.2007 | 12:17
Rétt að byrja að afsaka það að engin mynd birtist með sveinum í gær sem var stubburinn Stúfur sem alltaf er svo ljúfur. Ástæðan er einföld því þótt sveinninn sá sé smár þá er myndin stór og Kómedíuleikarinn með sína þumalputta kann ekki að minnka myndina. Við bíðum því aðeins með að birta myndir af Jólasveinum Grýlusonum enda ágætt að byggja upp smá spennu. En eitt get ég þó sagt ykkur að sveinarnir sem hún Marsibil hefur hannað og gert eru sérlega flottir og Kómískir. Sannkallaðir Jólasveinar. En þá að kómíska sveini dagsins sem er engin annar en Gáttaþefur og svona kveður hann:
GÁTTAÞEFUR
Nefið mitt er næmast allra nefja,
það á það líka stundum til að tefja
ferðir mínar vítt og breitt um bæinn,
því ég er alveg einstaklega laginn
að þefa uppi eldhúsilmin góða
þegar einhver frúin fer að sjóða.
Þá staldra ég við skráargat og sting svo nefi inn
og lygni aftur augunum er jólailminn finn.
FYRSTI KÓMÍSKI JÓLASVEINNINN HEILSAR
12.11.2007 | 11:58
Það styttist óðum í frumsýningu á splunkunýjum jólaleik Kómedíuleikhússins sem er um leið sá fyrsti af þeirri sortinni sem leikhúsið setur á svið. Leikurinn heitir Jólasveinar Grýlusynir og er einleikur nema hvað. Hér er fjallað um gömlu íslensku jólasveinanna á skemmtilegan máta og inní jólasveinaævintýrið fléttast svo allt annað ævintýri um unglingspilt sem er að leita að sköldóttri kú sem heitir, nema hvað, Búkolla. Kómedíuleikarinn leikur og er jafnframt höfundur ásamt Soffíu Vagnsdóttur sem einnig sér um leikstjórn. Í þessum bráðfjöruga jólaleik Jólasveina Grýlusona eru nýjar vísur um jólasveinanna. Næstu daga verður vísurnar birtar hér á blogginu ásamt mynd af viðkomandi sveini en það er listakonan Marsibil G. Kristjánsdóttir sem er hönnuður kómísku jólasveinanna. Vísurnar eru birtar í þeirri röð sem sveinarnir koma við sögu í leiknum og er röðin nokkuð kómísk. Sá sem kemur alltaf fyrstur til byggða samkvæmt jólasveinadagatalinu er hann Stekkjastaur en í Jólasveinar Grýlusynir er hann síðastur. Frumsýning er eftir aðeins sex daga og því verða einhverja daga sem tveir eða fleiri sveinar birtast hér. Og af því frumsýning er nefnd þá er gaman að segja frá því, aftur, að það er uppselt á frumsýningu á laugardag. En laus sæti á 2 sýningu sem er á sunnudag 18. nóvember kl.14. Til að panta miða kikkið á www.komedia.is Best að vera ekkert að draga þetta neitt heldur kynna til sögunnar fyrsta kómíska jólasveininn. Og við byrjum á toppnum því hér er kominN einn sá allra vinsælasti sveinn allra barna. STÚFUR og svona er vísan hans.
STÚFUR
Ég er jólasveinn og heiti Stúfur
og ég er alveg einstaklega ljúfur.
Ég læt nú ekki mikið á mér bera
en samt er ég þó ýmislegt að gera.
Þótt ég sé smár er margt mér lagt til lista,
ég kann til dæmis feiknavel að tvista.
Þá beygi ég mig örlítið í hnjánum
og teygi síðan vel úr öllum tánum.
Um leið og jólatjútt - og tvist ég heyri,
þá tvista ég og allt um kollinn keyri.
Já ég er nú meiri
kallinn!
Í Grýluhelli heppilegt það er
hversu lítið þar fer fyrir mér.
Ef einhver missir tölu undir borðið
þá beinist næstum alltaf til mín orðið:
,,Stúfur litli viltu hjálpa mér?"
Það er segin saga, - þá undir borð ég fer.
JÓNAS HALLGRÍMS ÚTI Á LÍFINU Í 24 STUNDUM Í DAG
10.11.2007 | 16:47
Vildi bara benda ykkur á blað 24 stunda í dag en þar eru myndir frá frumsýningu á ljóðaleiknum Ég bið að heilsa. Endilega kikkið á það eða röltið útí búð og náið ykkur í eintak. Til að bæta í myndasarpinn þá kemur hér ein mynd sem er ekki í blaðinu í dag.
Kómedíuleikarinn og Sigríður Ragnarsdóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar.
UPPSELT Á FRUMSÝNINGU
9.11.2007 | 12:50
Í gær páraði ég og fáraðist yfir því að við hér á klakanum, þó aðallega kaupmenn stórverslana, séum farin að vera full fljót á okkur í jóladæminu. Auglsýsa jólin í október er alltof snemmt að mínu mati. Meira að segja appelsínið og maltið er löngu komið í jólabúning en þó ekki kóka kólað sem er soldið skrítið þeir með sinn fræga kólasvein. Svo er mjólkin líka komin í jólabúning hefðu nú mátt bíða með það smá stund. En kannski er þetta bara allt í lagi og það sem koma skal kannski er ég bara orðin svona gamaldags. ,,Tímarnir breytast" einsog Bob Dylan sagði í samnefndu kvæði. Jólakvæði Kómedíu verða nú samt ekki birt fyrr en á mánudag enda eru þá aðeins nokkrir dagar í frumsýningu. Ég get samt ekki stillt mig um að segja frá því að miðasala á splunkunýjan jólaleik Kómedíu Jólasveinar Grýlusynir er hafin. Það er óhætt að segja að salan fari vel af stað þvi nú þegar er orðið uppselt á frumsýningu sem ber uppá laugardag 17. nóvember. Miðasala á Jólasveinar Grýlusynir er á heimasíðu Kómedíu www.komedia.is smellið á Kaupa miða. Einnig er hægt að bjalla í síma 891-7025. Leikurinn verður sýndur í Tjöruhúsinu á Ísafirði sem verður sannkallað ævintýrahús jólasveinanna. Sýningarplan í nóvember er sem hér segir:
17. nóv. lau. kl.14.00. Frumsýning - UPPSELT
18. nóv. sun. kl.14.00. Önnur sýning.
24. nóv. lau. kl.14.00. Þriðja sýning.
25. nóv. sun. kl.14.00. Fjórða sýning.
Nú er bara að velja sér skemmtilegan dag og skella sér á Jólasveina Grýlusyni sem er fyrir börn á öllum aldri alveg frá 2 - 102 ára og allt þar á milli. Jólasveinar Grýlusynir koma þér í jólaskap og stytta biðina. P.s. á mánudag verður birt mynd af fyrsta Kómíska jólasveininum.
EKKERT LJÓÐ DAGSINS Í DAG
8.11.2007 | 17:38
Jæja þá verður smá pása á Ljóði dagsins hér á Kómedíublogginu. Reynar stóð til að byrja að birta nokkur splunkuný jólakvæði í dag sem eru í jólaleik Kómedíu Jólasveinar Grýlusynir. Hinsvegar er nú soldið í kómísk jól því frumsýning er ekki fyrr en 17. nóvember. Síðan páraði nú einn besti vinur jólasveinanna meistari Ómar Ragnarsson Gáttaþefason pistil um hve snemma við erum orðin í jólaæðinu. Ég meina fyrir tveimur vikum auglýsti eitt kompaní,,Jólasveinar á staðnum" í október kommon. Hefði verið í lagi ef jólahúsið á Akureyri hefði verið að auglýsa hefði alveg keypt það enda frábært framtak þar á ferð og vel að verki staðið í alla staði. Kómedíuleikarinn vill því hlusta á læriföður sinn í jólasveinafræðum og bíða með að hringja inn Kómísk jól enn um sinn. En í næstu viku getið þið lesið ný kvæði um gömlu íslensku jólasveinanna og ef til vill mun því fylgja myndir af köppunum. Hönnuður Kómísku jólasveinanna er Marsibil G. Kristjánsdóttir og hefur hún verið í jólaskapi síðustu mánuði enda ekkert grín að búa til alvöru jólasveina. Gerðir sveinanna eru af ýmsum toga bæði brúður og grímur og allt þar á milli. En nú er ég farin að fjalla of mikið um joð orðið hér eitthvað sem ég ætlaði ekki að gera en það er bara svona þegar spenningur er komin. Æfing í kvöld í Tjöruhúsinu á Ísafirði og þar er leikmyndin óðum að taka á sig mynd. Komin upp þessi flotti hellir og fleira fjallskemmtilegt. Þar sem ég ætla ekki að birta strax mynd af kómsíkum jólasveini höfum við hér í staðinn mynd frá frumsýningu í gær á ljóðaleiknum Ég bið að heilsa.
Að lokinni frumsýningu. Kómedíuleikarinn, Jónas Tómasson, tónskáld, og Þröstur Jóhannesson, tónlistarmaður.
ÉG BIÐ AÐ HEILSA VAR VEL HEILSAÐ Á FRUMSÝNINGU
8.11.2007 | 12:09
Í gærkveldi frumsýndi Kómedíuleikhúsið nýjasta verk sitt, Ég bið að heilsa, sem er ljóðaleikur byggður á verkum Jónasar Hallgrímssonar. Það var sannkölluð leikhúsljóðastemning á frumsýningu fullur salur áhorfenda og á stundum mátti heyra saumnál detta enda á ferðinni magnaður texti listaskáldsins. Það má því segja að Ég bið að heilsa hafi verið vel heilsað og gerður mjög góður rómur að sýningunni. Einsog alþjóð veit þá er árið 2007 sannkallað Jónasar Hallgrímssonar ár og ekki að ástæðulausu því þann sextánda nóvember er 200 ára fæðingarafmæli skáldsins. Víða um land hefur þess verið minnst og nú eru Vestfirðirnir komnir á Jónasarkortið líka með þessari vönduðu uppfærslu á Ég bið að heilsa. Næsta sýning verður á miðvikudaginn kemur, 14. nóvember, á veitingastaðnum Við Pollinn. Boðið er uppá sannkallaða ljóðaveislu í mat og skemmtan því í boði er tvírétta máltíð og leiksýning á aðeins tvö þúsund og níu hundruð krónur. Borðhald hefst kl.19.00 og sýningin klukkustund síðar. Miðasölusími er 456 - 3360. Allir í leikhús.
Ljóðastemningin fönguð á frumsýningu í gær af ljósmyndaranum Halldóri Sveinbjörnssyni. Þarna má sjá Kómedíuleikaranna sjússa sig og Þröst Jóhannesson í góðum fíling.
Ljósmynd: Halldór Sveinbjörnsson, www.bb.is