Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

KÓMEDÍULEIKARINN Í GRUNNSKÓLA

Síðustu vikurnar hefur Kómedíuleikarinn verið með leiklistarkennslu við Grunnskólann á Suðureyri. Tilefnið var m.a. að undirbúa árshátíð skólans sem er á morgun, fimmtudag. Það er óhætt að segja að krakkarnir á Suðreyri hafi staðið sig vel og munu bjóða uppá fjölbreytta sýningu. Yngri deildin flytur frumsamin verk en eldri leitar í smiðju kunnra barnleikbókmennta. Þannig munu rjómin af kunnustu persónum barnaleikhússins stíga á stokk. Við erum að tala um persónur á borð við Karíus og Baktus, Jesper, Kasper og Jónatan, Soffíu frænku að ógleymdri Línu Langsokk. En það er Lilli Klifurmús sem kynnir dagskránna. 9 - 10 bekkur sýnir hinsvegar brot úr hinu frábæra barnaleikriti Trúðaskólinn. General á morgun og síðan frums seinni partinn. Einnig verður ein sýning um kvöldið en að henni lokinni fá leikarnir að kasta af sér gerfunum og taka sporið á diskói. Sannarlega kraftur í krökkunum á Suðureyri enda er þar starfrækt öflugt áhugaleikfélag og hafa margir af nemendum skólans tekið þátt í uppfærslum félagsins í gegnum árin. Mörg þeirra eru því komin með mikla reynslu í leikhúsinu og er ekki slæmt að hafa svoleiðis nokk þegar kemur að því að setja á svið eitt stykki árshátíð. Já þau eiga mikið hrós skilið krakkarnir á Súganda, mikið dugleg og mikið gaman að vinna með þeim.

BRÁÐUM FÆRT Á BÍLDUDAL

Stórtíðindi á mánudegi, Vegagerðin er byrjuð að moka Hrafnseyrar- og Dynjandaheiði og munu þær jafnvel vera færar í lok vikunnar. Þetta eru stórmerkilegar fréttir því í dag þegar þessar heiðar eru ófærar er maður um 9 klukkutíma á keyra á Bíldudal frá Ísafirði. En þegar búið verður að moka heiðarnar er maður ekki nema 2 tíma að skuttlast á Bíldó. Þetta er nú soldið skondið ég meina allan veturinn er þessi leið lokuð en samt er bæði Ísafjörður og Bíldudalur á Vestfjörðum en maður kemst bara ekki á milli staða nema fara löngu leiðina. Vissulega eru þessar heiðar nokkuð skæðar einsog margir þekkja og ekkert djók að vera að aka þær yfir veturinn. En það er til lausn. Gera göng frá Dýrafirði og bara í gegnum heiðarnar. Þegar búið verður að gera Óshlíðargöngin ætti að fara strax í að gera þessi göng og þá og aðeins þá verða Vestfirðir loks eitt svæði. Kómedía hefur t.d. ekki komist á suðursvæðið í vetur en nú verður breyting á þegar búið verður að opna og tengja Vestfirðina saman á nýjan leik, þetta er einsog með farfuglanna leið og þeir mæta þá opnast þessi leið. Sparikallinn, hugarfóstur Kómedíuleikarans, er lengi búinn að bíða eftir að komast í Sparisjóðina á Bíldó, Tálknó og Patró og nú stefnir bara í að kappinn sá komist yfir heiðarnar.


TVEGGJA ÞJÓNN Á ÓLAFSFIRÐI Í KVÖLD

Leikfélag Siglufjarðar sýnir gamanleikinn vinsæla Tveggja þjón í Tjarnborg á Ólafsfirði í kvöld. Sýningin hefst kl.20.30 en húsið opnar hálftíma fyrr. Miðaverð aðeins 2.000. spesíur en eldriborgarar og börn 12 ára á  yngir fá miðann á 1.500. Tveggja þjónn er sprenghlægilegur ærslaleikur eftir Carlo Goldoni í leikstjórn Kómedíuleikarans. Allir í leikhús á Ólafsfiðri í kvöld.

goldoni3Carlo Goldoni eitt fremsta leikskáld Ítala.


FLEIRI STEINSFRÉTTIR Á AFMÆLISÁRI

Fyrir skömmu ritaði sá Kómíski hér smá blogg um tvo Steina af rithöfundastétt. Steinarnir eru Steinar Sigurjónsson sem á 70 ára fæðingarafmæli og þrjátíu árum síðar fæddist Steinn Steinarr. Fjölmargt er gert á árinu til að minnast þessa merku en ólíku penna og hér skal bætt nokkru við sem ekki var getið. Vaka Helgafell hefur gefið út heildarútgáfu ljóða Steins Steinarrs og þó að maður eigi fyrstu útgáfuna frá '64 ef ég man rétt þá þarf maður líka að kaupa þessa því í henni eru nokkur ljóð sem ekki eru í frumútgáfunni. Gott framtak hjá VökuHelgafells mönnum og konum og bætist í stórgjafaflóruna fyrir fermingar og stórafmæli þar sem fyrir eru vandaðar útgáfur á borð við ljóðasafns Tómasar Guðmundssonar sem mörg fermingarbörn hafa fengið í gegnum árin. Önnur stórfrétt um Stein Steinarr er að á Ströndum eru menn að pæla í að setja upp Steinssafn eða Steinssetur veit ekki hvort það er finnst reyndar þetta setur vera orðið nokkuð þreytt - safn miklu flottara. Fyrirhugað er að safnið verði í fæðingarhreppi Steins í Nauteyrarhreppi nánar tiltekið í gamla félagsheimilinu. Mikið væri nú flott ef þetta gengi eftir. Að lokum er síðan rétt að geta þess að einleikur Kómedíuleihússins Steinn Steinarr er enn fáanlegur á DVD og fæst hann í verslun Kómedíu www.komedia.is kostar aðeins 1.500 kall. Steinarnir rúlla áfram inní árið og munu ábyggilega gera það lengur enda alvöru pennar á ferð.

steinnsteinarKómedíuleikarinn sem Steinn Steinarr í samnefndum einleik


BILLUSTOFA OPIN UM HELGINA

Kómedíufrúin, Billa, verður með vinnustofu sína opna á morgun frá kl.14. - 17. Stofu sína nefnir hún Billustofu og þar má sjá fjölbreytt úrvarl verka hennar, krítarmyndir, dúkristur, pennateikningar, handverk og olíumálverk. Billustofa var fyrst opin nú um páskana og er óhætt að segja að hún hafi slegið í gegn því gestir streymdu í túnið heima og gerður var góður rómur af stofunni. Billustofa er til húsa í Túngötu 17 og að vanda verður heitt á könnunni. Sjáumst í túninu á ísó.

billumyndPennateikningar Billu hafa vakið mikla athygli og verið sýndar víða um land allt frá RVK til AK til Ísó


FLOTTUR LISTASJÓÐUR

Frábært framtak að stofna til þessa minningarsjóðs í nafni eins merkasta dægurlagasöngvara okkar. Kómedíuleikarinn er einn af fjölmörgu aðdáendum Vilhljálms Vilhljálmssonar og sagði nú frá aðdáun sinni hér á blogginu um daginn þegar hann sat í fanginu á söngvaranum í merkilegri bílferð frá Bíldudalsflugvelli þá aðeins fimm ára patti. Er þetta ennþá einn merkasti tími æskuáranna. Það er sannarlega vel til fundið að stofna til þessa minningarsjóðs í dag á afmælisdegi Villa. Þessi sjóður mun án efa styrkja marga efnilega söngvara í framtíðinni. Við vitum nú flest að það er erfitt að lifa af listinni og því er listasjóður sem þessi mikið gleðiefni. Meira svona og HANA NÚ.


mbl.is Minningarsjóður stofnaður um Vilhjálm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TVEIR STEINAR Í AÐALHLUTVERKI

Tveir Steinar/rí rithöfundastétt Íslands eru í stóruhlutverki í ár. Fyrst ber að nefna vestfirska ljóðskáldið Stein Steinarr frá Laugalandi í Djúpi en í ár er ein öld frá fæðingu skáldsins. Ýmislegt verður gert af því tilefni Kómedíuleikhúsið vinnur t.d. að nýjum tvíleik er nefnist Steinöld og verður frumsýndur í sumar og sýndur víða um Vestfirði og jafnvel víðar. Um er að ræða leik fyrir leikara og tónlistarmann, vart þarf að spyrja hver leikur en það er Þröstur Jóhannesson sem sér um músíkina og mun hann flytja frumsamin lög við ljóð skáldsins en Kómedíuleikarinn mun síðan flytja ljóðin í leik og tali. Snjáfjallasetur stendur fyrir Steinshátíð 21. júní og verður Steinöld m.a. á dagskránni. Tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson verður með konsert á Listahátíð þar sem flutt verða lög hans við ljóð Steins. Margt fleira verður örugglega gert á árinu til að minnast Steins Steinarrs. Annað skáld sem er í kastljósinu í ár er Steinar Sigurjónsson en í ár er 70 ára fæðingarafmæli hans. Nýkomið úr prentsmiðju er heildarsafn Steinars og er hér á ferðinni mjög vönduð útgáfa. Útvarpsleikhúsið ætlar svo að heiðra minningu skáldsins því næstu 3 fimmtudagskvöld helgar leikhúsið skáldinu. Verður m.a. flutt leikrit hans Strandferð og leiklistarnemar föndra við verk skáldsins. Það ber að fagna þessu framtaki Útvarpsleikhússins og um leið hrósa því fyrir gott gengi að undaförnu því Útvarpsleikhúsið hefur verið á miklu flugi á þessu ári. Kómedíuleikhúsið fagnar því að listafólk heiðri minningu annarra listamanna einog var t.d. gert í fyrra á 200 ára fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar. Það er ekki síst mikilvægt í því ljósi að geta kynnt magnaða innlenda list og þá ekki síst fyrir æskunni. Meira svona.


MATARTENGD FERÐAÞJÓNUSTA

Í framhaldi af greininni hér að neðan um Menningartengda ferðaþjónustu og í tilefni af því að 19. apríl verður haldið málþing á Ísafirði um Matartengda ferðaþjónustu þá er þetta eitthvað sem Kómedíu líkar. Meira að segja hefur Kómedíuleikhúsið aðeins komið að svona verkefnum fyrir nokkrum árum fór leikhúsið t.d. í samstarf við fyrrum verta á Hótel Ísafirði. Samstarfið fólst í því að bjóða uppá mat og leiksýningu. Boðið var uppá súrmat og Gísla Súrsson. Heppnaðist þetta vel og vakti mikla athygli. Málþingið um Matartengda ferðaþjónustu verður haldin í Edinborgarhúsinu á Ísafirði laugardaginn 19. apríl kl. 10.30. Með Matartengdri ferðaþjónustu er verið að tala um að nota það hráefni sem er á hverju svæði fyrir sig og bjóða uppá sannkallaða heimamatarveislu úr héraði. Hér á Ísó mætti t.d. nýta saltfiskinn mikið og hefur það verið gert nokkrum sinnum með því að halda sérstakar saltfiskveislur sem hafa notið mikilla vinsælda. Hér er því komin enn ein stóriðjan fyrir landsbyggðina og því um að gera að fjölmenna á málþingið og fræðast betur um Matartengda ferðaþjónustu. Bara gott mál.

MENNINGARTENGD FERÐAÞJÓNUSTA ER FRAMTÍÐ LANDSBYGGÐARINNAR

Kómedíuleikhúsið hefur allatíð verið mjög skotið í því fyrirbæri sem nefnist Menningartengd ferðaþjónusta eða allt frá því farið var að tala um þetta form fyrir hvað kannski 10- 12 árum eða svo. Þegar fyrirbærið var kynnt fyrst voru veittir styrkir í þannig verkefni en svo bara nokkrum árum síðar var skrúfað fyrir allt. Í Samgönguráðuneytinu var þá starfræktur einhver sjóður sem styrkti verkefni í Menningartengdri ferðaþjónustu. En svo einn daginn var verkefnið bara búið og sjóðurinn lagður niður allavega voru það þau svör sem Kómedía fékk þegar leitað var eftir styrk í þeim sjóð eða lið eða hvað þetta kallaðist. En nú nokkrum árum síðar er Menningartengda ferðaþjónustan komin aftur inn í styrktarapparitð einsog sjá má t.d. á Mótvægis aðgerðum stjórnarinnar en þar eru einmitt mikið af verkefnum sem flokkast undir Menningartengda ferðaþjónsutu. Ef við tökum bara Vestfirðina fyrir þá fengu til Mótvægisframlag verkefni á borð við Skrímslasetur á Bíldudal, Sjóræningjasetur á Patreksfirði, Gíslasöguverkefnið á Þingeyri og Muggssýning í fæðingarbæ listamannsins Bíldudal. Kómedía tengist síðastnefnda verkefninu Muggssýningunni og mun sýna leikinn Dimmalimm meðan á sýningunni stendur. En það má kannski segja að Kómedíuleikhúsið hafi einmitt en kannski ómeðvitað verið að vinna undir formerkjum Menningartengdrar ferðaþjónustu. Flest verkefni leikhússins eru sótt í vestfirskan sagnaarf og hafa sýningar oft verið sýndar á söguslóðum t.d. hefur Gísli verið sýndur margsinnis í Haukadal í Dýrafirði þar sem fornkappinn tók land og einnig í Geirþjófsfirði þar sem Gísli endaði ævi sína. Það er því ánægjulegt að Menningartengda ferðaþjónustan er komin aftur inn ef svo má að orði komast og að viðkomandi aðilar hafa fattað að hér eru alvöru verkefni á ferðinni. Menningartengd ferðaþjónusta getur skapað fjölmörg störf og er að mati Kómedíu ein skemmtilegasta stóriðja landsbyggðarinnar.

DEN RÖDE BROCHURE

Fyrir nokkrum vikum kom innum bréfalúguna í túninu heima á Ísó hinn árlegi bæklingur dönsku barnaleikhússamtakana Teatercentrum. Bæklingurinn heitir Den röde brochure og inniheldur yfirlit yfir barna- og unglingaleikússýningar sem skólum í Danmörku stendur til boða að fá til sín fyrir komandi skólaár hverju sinni. Bæklingurinn er semsagt gefin út að vori fyrir komandi skólaár sem hefst að hausti. Hér er því ekkert verið að gera hlutina á síðustu stundu einsog okkur hendir stundum að gera hér á landi. Fáum hugmynd og framkvæmum hana á morgun. Barnaleikhús í Danmörku er mjög öflugt einsog sjá má í Rauða bæklingnum þar sem eru upplýsingar yfir nokkur hundruð leiksýningar. Gert er grein fyrir hverjum leik og sagt stuttlega frá söguþræði. Síðan koma praktískar upplýsingar um aðstandendur sýningarinnar, lengd verksins, hve mikið gólfpláss þarf til að sýna leikinn og síðast en ekki síst hvað sýningin kostar. Þessi bæklingur er svo sendur í alla skóla í Danmörku. Það er fleira sem Teatercentrum gerir því einnig standa þeir fyrir veglegri barnaleikhús hátíð að vori þar sem sýndar eru flestar af þeim sýningum sem verða í boði á næsta skólaári. Um er að ræða nokkur hundruð sýningar sem sýndar eru á örfáum dögum og er aðgangur að hátíðinni ókeypis enda er hún hugsuð fyrir tilvonandi kaupendur leiksýninganna. Væri kannski réttara að kalla þetta leikhúsmessu líkt og bókamessu sem gegnir einmitt sama hlutverki að kynna vöruna fyrir kaupendum.

Kómedíuleikhúsinu finnst þetta alveg stórsniðugt apparat hjá Dönunum. Nú er bara spurninginn hvort við sem erum að bjóða sýningar í skóla hér á landi tökum okkur saman og gerum slíkt hið sama. Gefum út eitt stykki bæklinginn yfir allar sýningar sem skólunum stendur til boða fyrir komandi leikár/skólaár 2008 - 2009 og sendum til viðskiptavina okkar um land allt. Toppurinn væri síðan að standa einnig fyrir leikhúsmessu þar sem viðkomandi sýningar verða sýndar. Til gamans má geta þess að dönsku leikhúsmessurnar eru ekki alltaf haldnar í sama bænum á næsta ári, 2009 verður hátíðin t.d. haldin í Ballerup. Sama gætum við gert verið með hátíðina í Hafnafirði eitt árið, næst á Egilsstöðum og svofrv.

Mikið væri nú gaman ef kollegar Kómedíu sem eru með ferðasýningar hefðu samband varðandi þessa stórskemmtilegu hugmynd og byrjum að kasta hugmyndum á milli sem verður svo vonandi til þess að við kílum á þetta. Eitt er víst allir munu hagnast á þessu bæði við í leikhúsinu og skólarnir og svo er líka svo gaman að sýna fram á alla breyddina í leikhúsinu og þar að auki að halda leiklistarhátíð. Getið kommentað hér á blogginu eða sent tölvupóst komedia@komedia.is

DIMMALIMM 1Dimmalimm verður á ferðinni skólaárið 2008 - 2009.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband