Bloggfærslur mánaðarins, september 2011
Tvær leiksýningar á Hólmavík í kvöld
13.9.2011 | 12:30
Haustleikferð Kómedíuleikhússins stendur yfir með blússandi krafti. Þegar hafa verið sýndar fjórar sýningar á jafnmörgum stöðum og nú er röðin komin að Hólmavík. Sýnt verður á Café Riis og hefst leikurinn kl.20. Leikferðin hófst í Leifsbúð í Búðardal eftir það lá leiðin í nýjasta leikhús þjóðarinnar Frystiklefann á Rifi þaðan var farið á hið rómaaða Kaffi 59 á Grundarfirði og í gærkveldi var sýnt í Félagsheimilinu á Drangsnesi. Tvær leiksýningar eru sýndar á hverju kvöldi í Haustleikferð Kómedíuleikhússins. Kvöldið hefst með leiknum Jón Sigurðsson strákur að vestan og eftir stutt hlé tekur sýningin Bjarni á Fönix við. Báðar sýningarnar hafa verið sýndar víða við góðar undirtektir. Haustleikferð Kómedíu er rétt að hefjast en alls verða 16 staðir heimsóttir í þessari kómísku för. Á miðvikudag verður sýnt á Reykhólum, á fimmtudag á Birkimel á Barðaströnd, föstudag í Sjóræningjahúsinu Patreksfirði, laugardag í Dunhaga Tálknafirði og á sunnudag á Bíldudal. Þaðan liggur svo leiðin á norðanverða Vestfjarða. Gaman er að geta þess í lokin að Kómedíuleikhúsinu hefur verið boðið til Kaupmannahafnar með Jón Sigurðsson og Bjarna. Sýnt verður í Jónshúsi í Köben fyrstu helgina í október.
Búðardalur í gær RIf í kvöld
10.9.2011 | 16:01
Haustleikferð Kómedíuleikhússins hófst í gærkveldi í Leifsbúð í Búðardal. Fjörið heldur áfram í kvöld í Frystiklefanum á Rifi og hefst sýningin kl.20. Á sunnudag liggur leiðin í Grundarfjörð þar sem sýnt verður á Kaffi 59. Tvær leiksýningar eru sýndar í Haustleikferð Kómedíuleikhússins og hafa báðir leikirnir sterka sögulega og alvestfirskatengingu. Fyrri sýningin heitir Jón Sigurðsson strákur að vestan og fjallar um æsku og mótunarár frelsishetjunnar frá Hrafnseyri í Arnarfirði. Seinni sýningin heitir Bjarni á Fönix og fjallar um Bjarna Þorlaugason skipherra á skútunni Fönix sem lenti í fjögurra klukkutíma baradaga við franska sjómenn (rétt er þó að geta þess að menn tóku sér pásu í miðju leik). Gaman er að geta þess að sterkar líkur eru til þess að söguhetjur leikjanna séu skyldir blóðböndum og séu hálfbræður hvorki meira né minna. Haustleikferð Kómedíuleikhússins stendur yfir í 16 daga og verður sýnt á jafnmörgum stöðum bæði á Vesturlandi og á Vestfjörðum.
Tímartið List á Vestfjörðum
7.9.2011 | 08:53
Hið nýstofnaða Félag vestfirskra listamanna, FVL, vinnur nú að útgáfu að listatímariti. Króinn hefur fengið nafnið List á Vestfjörðum og verður í blaðinu fjallað um hina fjölbreyttu og öflugu list á svæðinu sem hún sannarlega er. Allar listir verða í aðalhlutverki myndlist, leiklist, tónlist og allt þar á milli. Hin vestfirska listaflóra er sannarlega blómleg og kröftug. Stefnt er að því að tímaritið List á Vestfjörðum komi út í lok október og verði dreift inná hvert heimili á Vestfjörðum og víðar um landsbyggðina. Tilgangur blaðsins er fyrst og fremst að kynna vestfirska listamenn sem og listalífið vestra almennt. Sérstök áhersla verður lögð á listahátíðirnar en það má teljast nokkuð skondið að fjórar slíkar eru haldnar árlega hér vestra og allar eru þær meðal flottustu listahátíða landsins. Bréf hafa verið send til allra félagsmanna FVL með ósk um að skila inn efni í blaðið. Og er ástæða til að hvetja alla til að senda inn efni í blaðið þeimum meira þeimum fjölbreyttara verður blaðið okkar. Við tökum líka á móti öllum hugmyndum um efni í blaðið og hvetjum landmenn alla til að taka þátt í ævintýrinu og senda inn hugmyndir um listrænt efni að vestan.
Já það er alveg rétt það er gott að skapa á Vestfjörðum
1.9.2011 | 08:25
Gaman var að heyra í kvikmyndamógulnum í Sjónvarpinu í gær sem sagði að það væri bara svo gott að skapa og vinna á Vestfjörðum. Þetta eru nú svosem engin nýtt fyrir mér sjálfur flutti hér vestur á Ísafjörð um aldamótin með mitt Kómíska leikhús. Ekki voru nú allir á því að þetta væri sneddý að fara úr borginni og ætla að vinna sem leikari í einhverri holu fyrir vestan. En hér er ég enn og hef nóg að gera. Vissulega hafa komið tímar þar sem lítið er að gera en þá er bara eitt að gera og það er að skapa sér verkefnininn. Það er nú einhvernveginn líka hin sjálfstæða list að þú verður að skapa þér verkefnin sjálfur fáir sem bjalla í þig og bjóða þér monninga fyrir eitt stykki sköpunarverk, það kemur þó fyrir en frekar undantekning en regla. Það er ekkert plat að það er sérlega gott að vinna sem listamaður á Vestfjörðum. Hér eru allir boðnir og búnir að rétta þér hjálparhönd og sýna verkefnum þínum áhuga. Kyrrð og friður er hér líka góður. Landslagið er bara bjútí. Húsnæði til æfinga og sýninga eru útum allt af öllum stærðum og gerðum bara spurning hvað henti hverju verkefni fyrir sig best. Á Ísafirði er líka komið skemmtilegt apparat sem heitir Listakaupstaður sem er til hús í gömlu frystihúsi. Þar á efstu hæð hússins eru vinnustofur fyrir einyrkja í listinni og nýverið var komið upp gestavinnustofu sem aðkomu listamenn allsstaðar af landinu geta sótt um afnot af. Einnig geta litlir leik- og eða danshópar sótt um að æfingaaðstöðu í æfingasal Kómedíuleikhússins sem er einnig í Listakaupstað. Það er náttúrulega alveg geggjað er það ekki - að æfa sýninguna fyrir vestan og mæta svo bara með hana tilbúna í leikhúsið fyrir sunnan. Þeir sem hafa áhuga á að nýta sér aðstöðu í Listakaupstað getað sent mér línu og við göngum í dæmið. Ástæða þess að aðstæður til listsköpunar á Vestfjörðum eru svona góðar held ég að sé m.a. sú að hér stendur listin á gömlum grunni. Öflugir tónlistarskólar starfandi, áhugaleikfélög, myndlistin hefur verið öflug og fjölda sýninga haldnar ár hvert, kórastarf mjög öflugt, mikið af einyrkjum í listinni og þannig mætti lengi telja. Svo er það líka fólkið á Vestfjörðum sem er bara svo einlægt og skemmtilegt. Verið velkomin í sköpunarparadísina á Vestfjörðum.