Færsluflokkur: Menning og listir

KÓMEDÍA Í REYKJAVÍK

Kómedíuleikhúsið er nú komið til borgarinnar og mun næstu dagana flakka á milli skóla á höfuðborgarsvæðinu. Leikurinn hefst í fyrramálið með sýningu á Dimmalimm á Leikskólanum Bakka. Um helgina mun Kómedíuleikarinn síðan les úrval ljóða eftir Stein Steinarr á myndlistarsýningu Sigurðar Þóris. Listamaðurinn hefur lengi unnið að myndskreytingu ljóðabálksins Tímans og vatnsins eftir Stein. Upplesturinn á sunnudaginn hefst kl.16. Gísli Súrsson verður svo á ferð og flugi milli skóla í næstu viku en fyrsta sýning verður í Árbæjarskóla. Kómedíuleikhúsið hefur síðustu árin farið reglulega til borgarinnar til að heimsækja skóla með sýningar sínar og hefur ávallt verið vel tekið. Suður leikferðirnar verða að vísu tvær þetta haustið því í desember verður Kómedíuleikhusið með Jólasveina Grýlusyni á höfuðborgarsvæðinu.

JÁ FRÉTT - KÓMEDÍULEIKHÚSIÐ FÆR ÞAK YFIR KOLLINN Í VETUR

Áfram á jákvæðum nótum og fréttum úr menningarlífinu á Vestfjörðum. Í gær samþykkti Menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar að skjóta leikhússkjólshúsi yfir Kómedíuleikhúsið í vetur. Um er að ræða hið frábæra og sögulega Tjöruhús í Neðsta kaupstað á Ísafiði á safnasvæðinu. Kómedían fær húsið til afnota fyrir æfingar og sýningar á yfirstandandi leikári. Þetta eru frábærar fréttir og þakkar leikhúsið nefndinni mikið vel fyrir þetta. Kómedían er þó ekki ókunn þessu húsi því í fyrra sýndum við hina vinsælu jólasýningu Jólasveinar Grýlusynir í Tjörunni og er óhætt að segja að húsið hafi hentað sýningunni vel og verið sannkallað Ævintýrahús jólasveinanna. Þeir sveinar munu einmitt endurtaka leikinn í vetur og skemmta krökkum á öllum aldri í Tjörunni. Einnig stefnir leikhúsið að því að vera með fleiri sýningar á verkum sínum í húsinu. Í lok október hefjast Einleiknir leiklestrar Kómedíuleikhússins þar sem fluttir verða kunnir og ókunnir einleikir af leikurum á Ísafirði. Þessir leiklestrar verða í Tjöruhúsinu. Þetta er mikill gleðidagur í herbúðum Kómedíuleikhússins því nú loksins höfum við fengið þak yfir kollinn þó það sé reyndar aðeins í vetur en á sumri er rekinn vinsæll veitingastaður í húsinu og engin ástæða til að fara að breyta því kannski spurning hvort væri ekki hægt frekar að tvinna það eitthvað saman og bjóða uppá Matarleikhús og Kaffileikhús eða Fiskleikhús því fiskur er nú eðall þessa góða veitingastaðar. Kómedíuleikhúsið hefur nú líka fengið gott æfingahúsnæði og síðast en ekki síst verður hægt að geyma leikmyndir í húsinu. Þá verður nú Kómedíufrúin kát því til þessa hafa leikmyndirnar verið partur af húsgögnum heimilisins. Já, þetta er aldeilis gott mál.


JÁ FRÉTT - HÁRIÐ Á ÍSÓ

Hef ávallt leitast við að vera jákvæður og ákvað því að byrja með Já fréttir. Það er nebblega margt jákvætt í gangi þrátt fyrir allt. Hér á Ísó er margt jákvætt í gangi. Í haust var stofnað til Listavals í Grunnskólanum á Ísafirði. Elstu bekkjum skólans stoð til boða að velja Listaval sem valgrein og óhætt er að segja að undirtektir séu góðar því yfir 20 skráðu sig. Í Listavali Grunnskólans á Ísafirði er boðið uppá fjölbreytta listakennslu Dans, leiklist, söng og tónlist. Þrír kennarar sem allir eru menntaðir í list sinni halda um stjórnartaumana. Kómedíuleikarinn sér um leiklistina, Eva Friðþjófsdóttir sér um dansinn og Bjarni Ingibjörg Gunnlaugsdóttir kynnir söng og tónlist. Kennt er einu sinni í viku. Og það er mikill hugur í Listavalsdeildinni því það á að setja upp söngleik hvorki meira né minna. Fyrir valinu varð klassíkerinn Hárið og er þetta í fyrsta sinn sem söngleikurinn er settur á svið hér vestra. Það er nú soldið átak að setja upp eitt stykki músíkal og hefur því Listavalinu bæst við liðsauki úr Félagsmiðstöðinni. Hárið er aðalverkefni Listavals fyrir áramót enda mörg verkin sem bíða það þarf að æfa, búa til leikmynd, leikmuni, búninga og já jafvel þurfa leikarar að vera extra duglegir að safna hári. Æfingar á Hárinu hefjast núna í vikunni og er stefnt að frumsýningu föstudaginn 28. desember á Ísafirði. Já þetta verður gaman.


HLÓMPLÖTUR MEÐ ÞRJÚ Á PALLI ÓSKAST

Á einhver hljómplötur með Þrjú á palli sem er til í að lána eða bara selja. Er nebblega að vinna að þrælskemmtilegu verkefni sem verður sýnt hér á Ísó í næsta mánuði. Um er að ræða leik-og söngdagskrá úr verkum þeirra frábæru bræðra Jónas og Jón Múla Árnasyni. Tríó allra tríóa, með fullri virðingu fyrir Ríóbræðrum, Þrjú á palli frumflutti nebblega mörg laga þeirra bræðra í uppfærslum verkanna í gamla góða Iðnó. Það er svo rosagott að hlusta á þessa músík meðan maður setur saman handritið og líka svona til að koma sér í Árnasona fílinginn því væri voða gott ef einhver gæti lánað eða selt mér LP með tríóinu á pallinum. Handritið er að taka á sig mynd króinn er meira að segja kominn með nafn nefnist Úti er alltaf að snjóa og er sótt í einn klassíker þeirra bræðra. Leikurinn verður frumsýndur í nóvember en segi nánar frá þessu þegar nær dregur og plöturnar eru komnar í hús, vonandi.

SKÓLAR ATH - AUKASÝNINGARVIKA Á JÓLASVEINAR GRÝLUSYNIR

Vegna mikillar eftirspurnar hefur verið ákveðið að bæta við aukasýningarviku á jólaleikritinu Jólasveinar Grýlusynir í desember á höfuðborgarsvæðinu. Það verður því hægt að fá sýninguna í skóla á þessu tímabili 1.desember – 11. desember. Einnig viljum við minna á að leiksýningarnar Dimmalimm og Gísli Súrsson verða á höfuðborgarsvæðinu 8. október – 17. október enn eru nokkrir dagar lausir. Þannig að nú er bara að setja sig í leikhúsgírinn og panta skemmtilega leiksýningu í skólann þinn. Það er einfalt að panta sendið okkur tölvupóst á

komedia@komedia.is

 JÓLASVEINAR GRÝLUSYNIR
Höfundar: Elfar Logi Hannesson, Soffía Vagnsdóttir
Leikari: Elfar Logi Hannesson
Brúður, grímur og leikmynd: Marsibil G. Kristjánsdóttir
Tónlist: Hrólfur Vagnsson
Ljós: Jóhann Daníel Daníelsson
Leikstjórn: Soffía Vagnsdóttir
Sýningartími: 55 mín.
Aldurshópur: 2ja ára og eldri.
Panta sýningu:
komedia@komedia.is

Hér er á ferðinni sprellfjörugur leikur um gömlu íslensku jólasveinanna og ýmsum spurningum reynt að svara um þessa skrítnu kalla. Hvers vegna er Stúfur minnstur jólasveinanna? Af hverju er Stekkjastaur svona hár til hnésins? Var fjórtándi jólasveinninn til? Eru Askasleikir og Bjúgnakrækir tvíburar? Allt þetta og miklu meira fáum við að heyra um í sýningunni um Grýlusynina. Því inní ævintýrið fléttast allt annað ævintýri um nútíma unglingspilt sem hefur verið sendur til fjalla að leita að kúnni Búkollu. Jólasveinar Grýlusynir er bráðfjörugur jólaleikur með mikið af tónlist og almennu jólasveinasprelli að hætti gömlu íslensku jólasveinanna.  

DIMMALIMM
Byggt á sögu eftir Mugg.
Höfundar: Elfar Logi Hannesson, Sigurþór A. Heimisson
Leikari: Elfar Logi Hannesson
Leikmynd: Kristján Gunnarsson, Marsibil G. Kristjánsdóttir, Sigurþór A. Heimisson
Búningar: Alda Veiga Sigurðardóttir
Brúður: Alda Veiga Sigurðardóttir,Marsibil G. Kristjánsdóttir
Tónlist: Jónas Tómasson, ofl.
Leikstjórn: Sigurþór A. Heimisson
Sýningartími: 40 mínútur.
Aldurshópur: 2 ára og eldri.
Leikurinn hefur verið sýndur um 70 sinnum bæði hér heima og erlendis.
Panta sýningu:
komedia@komedia.is

Leikurinn er byggður á samnefndu ævintýri eftir Mugg og hefur notið gífurlegra vinsælda allt frá því ævintýrið kom fyrst út á bók árið 1942. Ævintýrið fjallar um prins sem verður fyrir því óláni að verða breytt í svan af norninni Bauju. Þegar Dimmalimm prinsessa kemur til sögunnar tekur sagan á sig ævintýralegar myndir enda getur allt gerst í ævintýrunum.
Hér er á ferðinni leiksýning fyrir börn á öllum aldri.

,,Í heildina er einleikurinn Dimmalimm fallegur, og ekki síst einlægur."
Eiríkur Örn Norðdahl, BB
 

GÍSLI SÚRSSON
Höfundar: Elfar Logi Hannesson, Jón Stefán Kristjánsson
Leikari: Elfar Logi Hannesson
Leikmynd: Jón Stefán Kristjánsson
Leikmunir: Marsibil G. Kristjánsdóttir
Búningar: Alda Veiga Sigurðardóttir
Smiðir: Friðrik Stefánsson, Páll Gunnar Loftsson
Leikstjórn: Jón Stefán Kristjánsson
Sýningartími: 55. mínútur
Aldurshópur: 6 ára og eldri
Leikurinn hefur verið sýndur um 180 sinnum
Panta sýningu:
komedia@komedia.is
Leikurinn er einnig til á ensku.
Verðlaun: Besta handrit; Leiklistarhátíðin Integra í Hannover þýskalandi.
Besta sýning, byggð á þjóðlegu efni; Leiklistarhátíðin Albamono í Korce í Albaníu.

Gísli Súrsson byggir á einni af þekktustu Íslendingasögunum. Leikurinn segir af örlögum Gísla Súrssonar og fjölskyldu hans sem taka land í Haukadal í Dýrafirði. Gengur þeim allt í haginn í fyrstu og verða brátt hinir mestu höfðingjar. En skjótt skipast veður í lofti og brátt er farið að fella mann og annan. Þetta endar loks með því að Gísli er útlægur ger.

,,HREINT LEIKHÚSÆVINTÝRI"
- Hrund Ólafsdóttir, Morgunblaðið


SÍÐASTI SÉNS AÐ SKRÁ SIG Á PÓSTLISTA KÓMEDÍU EF ÞÚ VILT FÁ KÓMÍSKANN VINNING

Fyrir skömmu var stofnað til póstlista Kómedíuleikhússins. Þar með gefst gestum heimasíðunnar kostur að fá reglulegar Kómískar fréttir. Í tilefni af hinum Kómíska póstlista var blásið til leiks en allir þeir sem skrá sig á póstlistann fyrir 1. október eiga möguleika á að vinna leikhúsmiða. Tíu heppnir póstlistaþegar fá tvo miða á jólasýningu Kómedíuleikhússins Jólasveinar Grýlusynir sem sýnt verður annað árið í röð á Ísafirði í desember. Þann 3. október verður dregið úr póstlistapottinum. En þetta er ekki allt því einnig munu þeir sem skrá sig á póstlistann fá reglulega sérstök tilboð frá Kómedíuleikhúsinu. Boðið verður uppá fjölbreytt tilboð s.s. á miðum á sýningar leikhússins sem og ýmiskonar afslátt á vörum Kómedíuleikhússins. Fyrsta tilboð póstlistafélaga Kómedíuleikhússins er mjög veglegt hvorki meira né minna en 50% afsláttur af nýjustu hljóðbók Kómedíuleikhússins Þjóðsögur úr Bolungarvík. Hljóðbókin kom út í vor og hefur verið mjög vel tekið einsog fyrri hljóðbókum leikhússins. Þjóðsögur úr Bolungarvík kostar 1.999.- kr en póstlistafélagar fá hljóðbókina á 50% afslætti eða 999.-kr. Það er því ekki eftir neinu að bíða smellið á Póstlista Kómedíu á  heimasíðunni www.komedia.is  og gerist áskrifandi að Kómedíufréttum og fáið um leið einstök tilboð.

SMÁ PÁSA SVO BÚLÚLALA

Það hefur verið rosa gangur á leikferð Kómedíuleikhússins um Norðurland. Í morgun voru þrjár sýningar á Dimmalimm í leikskólum á Akureyri. Nú fær sá Kómíski smá pásu, skellti sér í pottinn á Akureyri svo á að bruna á Sigló seinni part. Á laugardag mun Kómedíuleikhúsið síðan sýna ljóðaleikinn Búlúlala á Ljóðahátíðinni Glóð á Sigló. Annars sól og blíða hér á AK, líf og fjör og gott kaffi í Eymundsson.

GÍSLI SÚRI OG DIMMALIMM ERU FYRIR NORÐAN

Kómedíuleikhúsið er komið Norður í land með tvær af vinsælustu sýningum leikhússins. Leikurinn hófst í dag mánudag í Grunnskólanum á Hofsósi þar sem Gísli Súrsson var sýndur. Á öðrum degi leikferðar verður Gísli Súrsson sýndur tvívegis fyrst í Grunnskólaum á Blönduósi og síðan í Höfðaskóla á Skagaströnd. Síðan tekur hver sýningin við af annarrri. Dimmalimm er líka með í för og verður sýnd í þrígang á fimmtudag fyrir leikskóla á Akureyri. Leikferðinni líkur svo á laugardag á Siglufirði en einsog greint var frá hér á vefnum um daginn þá hefur Kómedíuleikhúsinu verið boðið að taka þátt í sérstakri ljóðahátíð þar í bæ. Hátíðin nefnist Glóð og er haldin annað árið í röð að þessu sinni er vestfirska ljóðskáldsins Steins Steinarrs sérstaklega minnst en í ár eru 100 ár frá fæðingu skáldsins. Kómedíuleikhúsið mun sýna ljóðaleikinn vinsæla með erfiða nafninu Búlúlala á laugardagskvöldinu á Sigló. Kómedían verður mikið á faraldsfæti á næstunni því eftir stuttan stans á Ísó í næstu viku verður brunað í bogina um aðra helgi með Gísla Súra og Dimmalimm og munu þau heimsækja grunn- og leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þegar er búið að bóka slatta af sýningum en rétt er að benda skólum borgarinnar á að enn eru nokkrir dagar lausir. Einfalt að panta sendið okkur bara tövlupóst á komedia@komedia.is

GÍSLI SÚRI VOÐA SÚR - LEIKHÚSTORGI AFLÝST

Það er soldið mikill vindur hér á Ísó þannig að því miður verður að aflýsa fyrirhuguðu Leikhústorgi Kómedíuleikhússins sem átti að vera á Silfurtorgi kl.16. Fornkappinn Gísli Súrsson er ýmsu vanur en þar sem um úti sýningu er að ræða þá mun leikmyndin fjúka útí veður og vind þó svo fornkappinn gæti nú staðið allar vindhviður af sér. Gísli Súrsson er hinsvegar á leiðinni í enn eina útlegðina ætlar að herja á Norðurland og heimsækja skóla þar í næstu viku. Með í för verður prinsessan Dimmalimm sem mun einnig líta við í nokkrum leikskólum á svæðinu. Gísli Súrsson hefur leikinn strax á mánduag þegar leikurinn verður sýndur í Grunnskólanum Hofsósi. Síðan tekur hver sýningin við af öðrum á Blönduósi, Skagaströnd og á Sauðárkróki. Dimmalimm verður á Akureyri í lok vikunnar og verða þrjár sýningar á ævintýrinu vinsæla. Loks er rétt að geta þess að þessari Norðanferð Kómedíu lýkur á Siglufirði á laugardag þar sem ljóðaleikurinn Búlúlala verður sýndur á Ljóðahátíðin Glóð.

UNDUR OG STÓRMERKI Á ÍSAFIRÐI

Allir að kaupa nýjasta tölublað TMM. Grein um Act alone 2008 í þessu eina menningarriti þjóðarinnar. Greinin hefur titilinn UNDUR OG STÓRMERKI Á ÍSAFIRÐI Leiklistarhátíðin Act alone, ritari er Arndís Þórarinsdóttir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband