Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

SAMDI HANN MÖRG LEIKRIT? JÁ, UM TVÖHUNDRUÐ STYKKI

Það er mikill ærlslaleikur í gangi á Sigló þessa dagana sem er alveg á við tvo, allavega Tvo þjóna. Generalprufa á Tveggja þjóni í kvöld og þá náttúrulega frums á morgun kl.20. Miðasala á sýningar helgarinnar hafin í síma 8631706. Örfáir miðar lausir á frums á föstudag 22. febrúar. Sala hafin á laugardagssýninguna en þar verður einnig boðið uppá mat og svo verður tjúttað að lokinni sýningu. Samkvæmt venju þá kemur leikskráin út á frumsýningar dag en þangað til er um að gera að byrja að hita upp fyrir Tveggja þjón og hér kemur grein eftir Kómedíuleikarann um höfund leiksins.

Höfundur ærslaleiksins Tveggja þjónn hét fullu nafni Carlo Osvaldo Goldoni og fæddist í Feneyjum 25. febrúar árið 1707.  Carlo Coldoni er án efa meðal fremstu leikskálda Evrópu og er mesti leikritahöfundur Ítalíu ásamt Luigi Pirandello. Goldoni var fjölhæfur rithöfundur hann samdi ljóð og óperur en þó fyrst og fremst leikrit. Afköst hans eru með ólíkindum en hann sendi frá sér hátt í tvö hundruð leikrit, óperur og önnur leikhúsverk. Goldoni ritaði ævisögu sína en fátt er víst á henni að græða þar sem hann fer víst allfrjálslega með staðreyndir og mætti kannski flokka ævisagnaritið frekar með leikverkum hans. Hér verður ekki tekið nema eitt atriði úr sögu hans. Í ritinu segir hann að afi sinn, Carlo Alessandro, hafi verið sá sem kynnti hann fyrir leikhúsinu. En þar stranda spekingar og fræðimenn því einn hægur er á að þessari fullyrðingu skáldsins Alessandro afi andaðist nefnilega fjórum árum áður en nafni hans Goldoni fæddist. Hugurinn er hins vegar fallegur og oft þarf að skálda í eyðurnar til að poppa sögurnar upp. Hinsvegar er það víst að Goldoni heillaðist snemma að leikhúsinu og á skólaárunum var hann þegar byrjaður að fást við skriftir og samdi þá mest ljóð. Goldoni var í laganámi og leit allt út fyrir að í því starfi mundi hann til framtíðar. Hugurinn var hins vegar í leikhúsinu og loks varð lífsstarf hans þar. Árið 1733 var fyrsta leikverk Goldonis frumsýnt. Leikurinn sem er harmleikur heitir Amalasunta og hlaut afhroð gagnrýnenda. Goldoni virtist rýnendum sammála því eftir frumsýningu brenndi hann handrit leiksins á báli. Skáldið gafst þó ekki upp og ári síðar, 1734, var annað verk frumsýnt tragíkómedían Belisario, og nú gekk allt betur. Kómíski tónninn var sleginn og nú var hafist handa við að semja gamanleiki. Goldoni var aðdándi skáldsins Moliére og hafði einnig unun af hinu sérstaka leikformi Commedia dell’Arte sem hafði þá notið fádæma vinsælda frá miðri sextándu öld. Þetta leikform sem gert er grein fyrir á öðrum stað hér í leikskránni byggir á ákveðnum persónum sem áttu sér jafnan fyrirmynd í samfélaginu. Ekkert eiginlegt handrit var notað heldur aðeins beinagrind af leikverki stutt lýsing á atburðarásinni en Goldoni ritaði hinsvegar fullsmíðað handrit og notaðist við persónur úr forminu og leikstílinn. Sama hafði átrúnaðargoð hans Moliére gert með góðum árangri. Fyrsta verk Goldonis í Kómedíuandanum sem sló í gegn er The Man of the World sem var frumfluttur árið 1738. Síðan kom hver gamanleikurinn á fætur öðrum. Loks árið 1745 kom einn alvinsælasti leikur Goldonis fram á sjónarsviðið. Il servitore di due padroni eða The Servant of Two Masters eða einfaldlega Tveggja þjónn. Þessi leikur ber skýr merki Kómedíuformsins og hefur verið sýndur við fádæma vinsældir allar götur síðan. Fyrsta uppfærsla á Tveggja þjónn hér á landi sem vitað er um er á Herranótt árið 1937. Tæpum þrjátíu árum síðar sýndi Leikfélag Reykjavíkur leikinn með Brynjólfi Jóhannessyni og Arnari Jónssyni í aðalhlutverkum.   Árið 1757 kom leikskáldið Carlo Gozzi fram með ákveðna gagnrýni á Goldoni og verk hans og náði hún fljótlega eyrum landsmanna. Fór svo loks að Goldoni ákvað að færa sig um set og flutti til Frakklands árið 1761. Hann settist að í París og stjórnaði m.a. leikhúsinu Theatre Italien. Goldoni snéri ekki aftur til hamalandsins og ritaði þar að auki öll sín verk á frönsku eftir þetta. Árið 1771 samdi hann leikinn Le Borru bienfaisant, í tilefni af brúðkaupi Louis XVI og Marie Antionette. Hinar umdeildu ævinminningar sínar sem voru nefndar hér í upphafi voru einnig gefnar út á frönsku árið 1787 og heitir verkið einfaldlega Mémoires. Goldoni naut talsverðar vinsældir í Frakklandi og þegar hann ákvað að leggjast í helgan stein veitti konungurinn honum eftirlaun frá ríkinu. Þegar franska byltinginn braust út var hann hinsvegar máður af eftirlaunalista konungs. Degi eftir andlát skáldsins var hinsvegar ákveðið að hann færi aftur á eftirlaun og hlaut þá ekkja skáldsins aurana. Carlo Goldoni andaðist 6. febrúar árið 1793. Nafn Goldonis lifir enn í leikhúsheiminum og á síðasta ári, 2007, á 300 ára fæðingarafmæli skáldsins var margt gert af því tilefni. Leikurinn Tveggja þjónn var víða leikinn og einnig var gefið út sérstakt frímerki í minningu skáldsins. Einnig má geta þess að fæðingarbæ skáldsins heldur minningu hans hátt á lofti. Í bænum er m.a. stór stytta af skáldinu og í æskuhúsi hans er rekið sérstakt listasafn þar sem hans er sérstaklega getið. Að lokum má geta þess að í Feneyjum er leikhús nefnt eftir Goldoni, Teatro Carlo Goldoni.

goldoni aefisagaForsíða hinnar skraut- og skáldlegu ævisögu Goldoni.


COMMEDIA DELL'ARTE HVAÐ ER NÚ ÞAÐ?

Það styttist í frumsýningu á leikritinu Tveggja þjónn hjá Leikfélagi Siglufjarðar í leikstjórn Kómedíuleikarans. Allt að smella, leikmynd komin upp og leikskráin á leiðinni. Meðal efnis í skránni er stutt grein eftir Kómedíuleikarann um ítalska leikhúsformið Commedia dell'arte en leikurinn er byggður á þeirri merku formi. Til að stytta biðina eftir Tveggja þjóni þá skulum við aðeins fræðast um Commedia dell'arte.

Commedia dell'Arte hvað er nú það?

Leikurinn Tveggja þjónn er saminn í leikstíl og leikformi er nefnist Commeida dell'Arte. Um er að ræða ítalskt leiklistarform sem hóf göngu sína um miðja sextándu öld og naut vinsælda í meira ein öld. Formið er hinsvegar ekki til í dag sem slíkt þó persónur og tækni formsins hafi lifað og megi sjá í mörgum verkum einsog Tveggja þjónn. Það sem er einna merkilegast við Kómedíuformið er að þar var aldrei notast við handrit. Aðeins var stutt lýsing á leiknum og atburðarásinni svo sáu leikararnir um restina. Sýningar voru undir berum himni og voru sýningar fluttar af sérstökum Kómedíuhópum með tíu leikurum eða svo sem ferðuðust um landið með sýningar sínar. Leikmynd var svo gott sem enginn og einnig voru leikmunir af skornum skamti. Síðast en ekki síst voru ákveðnar persónur í Kómedíuforminu og var venjan sú að sami leikarinn lék sömu persónuna alla sína ævi. Þar er sennilega komin ástæða fyrir því að flokkarnir gátu leikið hvert stykkið á fætur öðru án þess þó að hafa fullkomið handrit. Kómedíupersónurnar áttu sér stoð í samtímanum þannig kom kaupmaðurinn Pantalone frá Feneyjum og þjónninn Arlecchino frá Bergamo. Báðar þessar persónur koma við sögu í Tveggja þjónn en í þessari uppfærslu er þeim gefið íslensk nöfn. Pantalone verður Prjónólfur og Arlecchino verður Eldibrandur. Aðrar þekktar Kómedíupersónur sem koma við sögu í leiknum okkar eru þjóninn Brighella sem við nefnum Brynhildi en þessi þjónn er ólíkur Eldibrandi að því leiti að  hann er hærra settur og er oft eigandi veitingastaðar. Að síðustu er það læknirinn Il Dottore sem við nefnum Lon og Don. Þó Kómedíuformið sjálft sé týnt og tröllum gefið þá lifa persónur þess enn góðu lífi einsog við fáum að sjá hér í kvöld.

prjonolfur Pantalone eða Prjónólfur einsog hann nefnist á Sigló


ALVEG SATT

Já það er alveg rétt listin getur gert svo margt og möguleikarnir eru ótakmarkaðir. Þessi kínverski hópur er náttúrulega bara snilld, spurning hvort við fáum þau hingað uppá klakann. Minni á að hér á landi hefur leikhúsið Draumasmiðjan verið að setja upp sýningar fyrir heyrnarlausa sem og okkur sem heyrum. Ritari sá t.d. sýningu á Akureyri fyrir nokkrum árum þar sem bæði heyrandi leikari og heyrnalaus leikari léku i sama verkinu það var mjög intresant sýning.
mbl.is Listin brýtur niður múra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FATTARINN KEMST Í GANG

Alltaf svo gaman að uppgötva eitthvað sérstaklega í listinni. Allt í einu fatta að þessi sögnvari sé bara góður nefndi sem dæmi þegar ég uppgötvaði Bowie á sínum tíma. Var þá um 13 ára og hafa þau kynni varið alla tíð síðan. Í haust komst fattarinn loksins af stað þegar ég fór að stúdera ljóð Jónasar Hallgrímssonar hafði áður bara lesið nokkur kvæði en þegar betur var lesið komst ég bara að því hvílíkur fjársjóður verkin eru. Núna er fattarinn aftur kominn í gang. Að þessu sinni er það í skáldsagnadeildinni álpaðist til að lesa Kátir voru kallar eftir John Steinbeck. Og ég er alveg kolfallinn fyrir kappanum og er þegar búin að lesa annað meistaraverk eftir hann og núna langar mig að lesa næstu bók. Hlakka sérrílagi til að lesa Þrúgur reiðinnar. Svona er lífið skemmtilegt alltaf er maður að fatta eitthvað nýtt þó maður sé orðinn....gamall.

FIMM DAGAR Í TVEGGJA ÞJÓN Á SIGLÓ

Það er farið að hitna í kolunum hjá Kómedíuleikaranum á Sigló, sást t.d. til sólar áðan í þorpinu, og síðasta vikan, frumsýningarvikan runnin upp. Allt er þó að smella saman, leikmyndin alveg að vera tilbúin aðeins á eftir að setja tvær hurðar í aðra hliðina og svona smá dúllerí við leiktjöldin. Stefán ljósameistari Norðurlands hefur þegar kveikt á perunni og er byrjaður a lýsa upp ævintýrið. Hljóðmaðurinn finnst vonandi í dag. Leikhópurinn hefur staðið sig vel og hefur bætt sig með hverri æfingu. Allavega hlær leikstjórinn á hverri æfingu enda alltaf eitthvað nýtt að gerast. Tvö rennsli búinn og það þriðja í kvöld. Já, svei mér þá ég held að okkur takist þetta á lokasprettinum. Tveggja þjónn verður frumsýndur föstudaginn 22. febrúar í Bíóinu á Sigló. Já, það er sannarlega kraftur í Leikfélagi Siglufjarðar þessa dagana.

O SOLO HOMO

Kómedíuleikarinn er einsog margir aðrir Íslendingar mikill safnari. Það kemur sennilega fáum á óvart hverju hann safnar - jú einmitt það er leikhúsið. Leikrit, handrit, ævisögur leikara, leikskrár, hljómplötur ofl. En sérstaklega er hann þó iðinn við að viða að sér öllu er viðkemur einleikjalistinni - nema hvað. Sama sagan þar einleikir, leikskrár, plaköt, DVD ofl. Hér á landi er nú ekki mikið til að útgefnu efni í einleikjadeildinni en þó eitthvað. Fyrst ber að nefna safnritið Íslenskir einleikir sem Kómedía gaf út og inniheldur safn einleikja allt frá Gísla Súra til Sveinsstykkis. Aðeins örfáir erlendir leikir hafa komið út á íslensku Leitin að vísbendingu um vitsmunalíf í alheiminum kom út í leikskrá LR og einnig Kontrabassinn sem áður hafði verið gefin út af Frú Emilíu. Annað einleikið íslenskt útgáfuefni er ekki mikið jú Hellisbúinn var gefinn út á VHS, Steinn Steinarr á DVD og ekki mikið meira um það að segja. Kómedíuleikarinn á hins vegar orðið stórt safn erlendrabóka um einleikjalistina, leikrit og fræðirit, og hefur verzlað þetta inn hjá Amazon, nema hvað. Fyrir skömmu bættist í safnið bókin O Solo Homo, 1998, sem er safnrit einleikja eftir samkynhneigða leikara. Aldeilis intresant rit þar sem oft er um að ræða verk sem eru byggð á eigin ævi höfundana sem eru jafnframt leikarar. Umfjöllunarefnið er fjölbreytt það er ekki aðeins verið að fjalla um stöðu samkynhneigðra, heldur einnig pólitík, sjúkdóma og þá einkum alnæmi, fordóma og útskúfun. Meðal þeirra sem eiga verk í þessu  einleikna safni eru Holly Hughes, Susan Miller, Peggy Shaw, Michael Kearns og Tim Miller. Rétt er að benda áhugasömum á þann síðast nefnda, Tim Miller, en hans verk ber af að mínu mati og auk þess á hann að baki merkan feril í einleikjabransanum - kynnið ykkur þennan kappa. Sá Kómíski sendi honum línu til að þakka fyrir gott verk og notaði að sjálfsögðu tækifærið og sagði honum frá Act alone í leiðinni. Og nema hvað, kappinn vill ólmur koma á Act alone. Hátíðin er fullbókuð þetta árið en vonandi verður hægt að halda Act alone 2009 en einsog mörgum er kunnugt hefur Menntamálaráðuneytið lítið villja styrkja þessa einu árlegu leiklistarhátíð á Íslandi. En sjáum til. Mæli allavega með þessu einleikna safnriti O Solo Homo.

VÍ VÍ JIBBÝ

Til hamingju Arnaldur gaman að sjá að Frakkar hafi svona góðan bókmenntasmekk. Þú átt þetta allt skilið og svo miklu meira. Takk fyrir frábærar bækur og hlakka til að lesa þær sem eiga eftir að koma úr þínum frábæra penna. Og svo verður náttúrulega gaman að sjá næstu bíóræmuna með meistara Ingvari í hlutverki Arnaldar.
mbl.is Frakkar vilja Arnald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EF PACINO ER GEIM ÞÁ ÆTLA ÉG SKO AÐ HORFA Á BOND ÞÓ SPÆJARINN SÉ ORÐINN ÓINTRESANT

Verð að viðurkenna að áhuginn á Bond hefur dalað eftir því sem árin líða, hef ekki séð þrjár síðustu myndir. Hinsvegar reynir maður aldrei að missa af meistara Al verður örugglega þess virði að horfa á Bond ræmuna ef Pacino leikur vonda kallinn. Það gæti þá líka gerst að hann skáki flottasta Bondillmenninu til þessa sem er að mínu mati Christopher Walken. Og fyrst við erum farinn að bera saman illmenni þá er líka best að bera saman Bondana í leiðinni og þá fyrir utan þennan nýja þar sem ég hef ekki séð hann. Minn Bond er Roger, Roger Moore.
mbl.is Leikur Pacino næsta illmenni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TIL HAMINGJU GRINDAVÍK

Gleðifréttir berast nú frá Grindavík. Þar hafa heimaleikarar bæjarins, þeir Bergur Þór og Víðir Guðmundsson, stofnað atvinnuleikhús er nefnist GRAL eða Grindvíska atvinnuleikhúsið. Kómedíuleikhúsið fagnar þessu framtaki sérstaklega og bíður GRAL velkomið í hóp atvinnuleikhúsa á landsbyggðinni. Sem þýðir að nú eru atvinnuleikhúsin á landsbyggðinni orðin fjögur: Kómedíuleikhúsið á Ísafirði, Frú Norma á Egilsstöðum, GRAL í Grindavík og loks Leikfélag Akureyrar. Nú er að vona að stjórnvöld fylgi straumnum og þessari merkilegu stefnu í íslensku atvinnuleikhúsi á landsbyggðinni. Það kæmi Kómedíuleikaranum ekki á óvart að innan skamms spretti upp annað atvinnuleikhús á landsbyggðinni bara spurning hvar??? Semsagt stór dagur í sögu atvinnuleikhúsa á landsbyggðinni, til hamingju Grindvíkingar.

AFHVERJU EIGUM VIÐ EKKI BJÖRNSSON LEIKHÚS EÐA STEINSSON LEIKLISTARHÁTÍÐ

Alltaf gaman að bera okkur saman við heiminn. Hvað höfum við ekki það sem hinir hafa? Sérrílagi gaman að kikka á menninguna og listirnar. Enda hefur verið nokkur umræða um það síðustu daga hvað varðar fjárframlög til listar á vegum Menntamálaráðuneytis íslenska samanborið við nágrannalöndin. En ekkert um það hér. Það sem mig  langaði að nefna er það hve leikskáldum er hampað mikið í úttlöndum svo mikið að leikhús eru nefnd eftir þeim og heilar leiklistarhátíðir eru nefndar eftir þeim. Þannig eru til nokkur Beckett leikhús og líka festivöl, Ibsen festival er haldin í Noregi og síðast en ekki síst er það lord leikskáldanna sem er að vanda sigurvegarinn með nokkur festivöl og leikhús. Þó leikhúsin séu nefnd eftir ákveðnu skáldi þýðir það ekki að það sé eingöngu að sýna verk eftir viðkomandi skáld, nei nei síður en svo. Algengt er að það sé kannski bara ein uppfærsla á leikárinu úr þeim ranni og svo koma hin verkin frá öðrum skáldum. Hvað leiklistarhátíðirnar varðar þá eru þær hinsvegar oft undirlagðar undir verk viðkomandi höfundar en þó ekki algilt. Það væri nú gaman ef við hefðum eitthvað svona og þá sérstaklega leiklistarhátíð. Væri nú gaman að vera með Björnsson festival þar sem sýnd væru leikverk meistara Odds Björns, eða Jóhann Sigurjónsson festival sjá FjallaEyvind, sem ég hef nú aldrei séð á sviði, og Galdra-Loft, og í tilefni af Sólarferð, Guðmundar Seinssonar festival væri nú ekki amalegt að fá tækifæri til að sjá verk íslenskra skálda með svona þema festivölum. Hvað Steinsson varðar þá hef ég bara séð eitt stykki eftir hann Brúðarmyndin sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu, hef hinsvegar lesið flest verk hans enda voru þau gefin út í glæsilegri heildarútgáfu fyrir nokkrum árum. Hey, nú dettur mér í hug hvernig við gætum gert þetta. Höldum árlega leiklistarhátið en árlega skipt um leikskáld. Sting uppá að byrja á Jökuls Jakobssonar festivali - væri gaman að fá tækifæri til að sjá Hart í bak, sem ég hef aldrei séð, Pókók ofl ofl....Já, mikið væri nú gaman að gera þetta.....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband