Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

39 BÆIR OG 3 LÖND

Kómedíuleikhúsið hefur verið á heilmiklu ferðalagi um landið í haust með Gísla Súra og Dimmalimm í farteskinu. Kómedíuleikarinn sem er mikið fyrir allrahanda óþarfa og öðruvísi bókhald einsog að rita hjá sér allar bækur sem hann hefur lesið og líka kvikmyndir og gefa þeim stjörnur. Einnig hefur hann skráð samviskulega niður allar sýningar Kómedíuleikhússins þar sem fram kemur hvar og hvenær og hve margir gónendur hverju sinni. Í þessu sýningarbókhaldi kemur fram að Kómedíuleikhúsið hefur verið nokkuð víðförult á þeim tíu árum sem leikhúsið hefur starfað. Kómedía hefur sýnt á hvorki fleiri né færri en 39 bæjum á Íslandi allt frá Borðeyri til Reykjavíkur. Þá hefur Kómedíuleihúsið þrívegis farið útfyrir landsteinana með sýningar sínar til Albaníu, Lúxembúrgar og Þýskalands. Leikhúsið stefnir að því að fjölga bæjum og löndum ennfrekar á komandi tímum.

Kómedía hefur nokkrum sinnum sýnt í þessum bæ.

bolungarvík


FLOTT Á FLÚÐUM

Í morgun sýndi Kómedíuleihúsið Gísla Súrsson í Félagsheimilinu á Flúðum og var þetta sýning no. 160 á útlaganum Gísla. Þetta var í fyrsta sinn sem Kómedíuleikhúsið sýndi á þessum fallega stað og vert er að geta þess sem flott er. Í raun finnst skrásetjara alltof lítið gert að því að geta þess sem er flott og sem er gott það negatíva virðist alltaf hafa vinningin. Einhver spekingur sagði eitt sinn að ástæðan sé sú að neikvæðar fréttir selja miklu betra en þær jákvæðu og hefur hann án efa rétt fyrir sér. Kómedíu finnst hins vegar miklu skemmtilegra að segja frá jákvæðum hlutum og hér kemur ein slík tilkynning. Um er að ræða Félagsheimilið á Flúðum mikið er þetta nú flottur samkomustaður og nánanst allt til fyrirmyndar. Á ferðalagi sínu um landið síðustu ár hefur Kómedía sýnt hér og þar og allsstaðar og þar með oft í félagsheimilum. Það verður að viðurkennast að mörg félagsheimilin eru ekki uppá marga fiska og ástæðan er sú að þessi heimili hafa bara verið vanrækt. Það virðist einfaldalega vanta fjármagn til að halda þessum flottu húsum í standi. Samt eru menn uppteknir við að smíða menningarhús útum allt sem er reyndar mjög gott mál en hvað á þá að gera við félagsheimilin. Þau virðast bara hafa gleymst. Á vestfjörðum er t.d. fullt af félagsheimilum og mörg þeirra eru í frekar slöppu ásigkomulagi og er líka notkunin eftir því. Nefnum sem dæmi Félagsheimilið í Hnífsdal stórt og mikið hús með stóru leiksviði, svipað stórt og Iðnó sviðið, og alles. Þetta hús er aðallega notað undir fatamarkaði og flugeldasölu og svo nokkur þorrablót. Þetta er alveg synd en tíminn er bara þannig núna að félagsheimilin eru úti og virðast vera húsbóndalaus. Mikið væri nú gaman ef eitthvað yrði gert við þessi hús annað en að halda þar markaði sem eru reyndar fínir en það þarf nú kannski ekki heilt félagsheimili undir geisladiskasölu. En hættum nú rausi. Við vorum að tala um Félagsheimilið á Flúðum húsbóndinn þar hefur ekki gleymt sér því öll aðstaða þarna er til mikillar fyrirmyndar. Fyrir það fyrsta er húsið mjög snyrtilegt, það eru ljóskastarar til staðar einir 20 eða svo og fullkomið ljósborð. Mótökurnar voru líka góðar og er alltaf gaman að koma á stað þar sem tekið er á móti þér með bros á vör. Ekki spillti að boðið var uppá kaffi og kandís fyrir og eftir sýningu. Kómedíuleihúsið sendir bestu kveðjur á Flúðir með þökk fyrir afnotin á félagsheimilinu.

Til gamans er hér birt mynd úr myndasafni Kómedíu. Hér er Kómedíuleikarinn við æfingar á einleiknum Mugg í Félagsheimilinu Baldurshaga á Bíldudal og er rétt að geta þess að það heimili hefur góðan húsbónda.

muggur2


AUMINGJA LITLA LJÓÐIÐ

Kómedíuleikhúsinu hefur verið boðið á ljóðahátíðina Glóð með ljóðaleikinn Aumingja litla ljóðið eftir Hallgrím Oddsson. Hátíðin verður haldin dagna 18. - 20. október á Siglufirði en það er einmitt ungmennafélagið Glói á Siglufirði sem stendur fyrir ljóðahátíðinni í samstarfi við Herhúsfélagið og Þjóðlagasetur Séra Bjarna Þorsteinssonar. Aumingja litla ljóðið verður á dagskránni laugardagskvöldið 20. október og hefst sýningin kl.19.30. Meðal annarra gesta á ljóðahátíðinni eru Sigurður Skúlason, leikari og ljóðskáld, og Þórarinn Torfason, ljóðskáld. Sérstaka athygli vekur að aðgangur að hátíðinni er ókeypis og öllum opin. Ljóðaleikur Kómedíuleikhússins Aumingja litla ljóðið hefur verið sýndur nokkrum sinnum vestra m.a. á Krikjubóli í Önundarfirði sem mætti með réttu kalla Ljóðaból Vestfjarða því þar bjó eitt helsta skáld Vestfirðinga Guðmundur Ingi Kristjánsson. Leikurinn var einnig sýndur á leiklistarhátíðinni Act alone í sumar. En þetta er í fysta sinn sem leikurinn fer útfyrir kjálkann. Í leiknum er fjallað um stöðu ljóðsins allt frá upphafi til vorra daga og eru fjölmörg ljóð úr smiðju vestfirskra skálda í verkinu m.a. eftir Guðmund Inga, Stein Steinarr og Steingerði Guðmundsdóttur. Höfundur er Hallgrímur Oddsson og að vanda er það Kómedíuleikarinn Elfar Logi Hannesson sem leikur.

Hér kemur mynd sem var tekin á sýningu á Ljóðabóli Vestfjarða.

aumingja litla ljóðið


GÍSLI FÆR 10 Í EINKUNN FRÁ FELLASKÓLA

Kómedíuleikhúsið var á ferðinni um austfirðina um daginn og sýndi meðal annars Gísla Súrsson í Fellaskóla í Fellabæ. Undirtekir voru ljómandi góðar eða einsog segir á heimasíðu skólans: 

,,Það má með sanni segja að Gísli Súrsson hafi slegið í gegn í túlkun Elfars Loga Hannessonar. Skemmtileg blanda af nútíma- og forníslensku, kryddað með góðum skammti af kímni féll svo sannarlega í kramið hjá nemendum í 3.-10. bekk. Spennan var heldur ekki langt undan og á köflum mátti heyra saumnál detta í salnum. "

Kómedíuleikhúsið þakkar góð orð og vonast til að sjá ykkur aftur sem allra fyrst.

gisli suri i garði


GÍSLI HERJAR Á HÖFUÐBORGINA OG GERIR ALLT VITLAUST

Einleikurinn Gísli Súrsson er kominn til höfuðborgarinnar og verður þar í útlegð næstu tvær vikurnar. Fyrsta sýning verður í fyrramálið í Árbæjarskóla kl. 945 já já Gísli er árrisull að vanda enda vestfirskur víkingur. Næstu daga verða svo fleiri skólasýningar á Gísla en leikurinn hefur verið sýndur í skólum vítt og breytt um landið síðan í febrúar 2006 og eru nú sýningar alveg að nálgast 160 en sýningin á morgun er no. 158. Hlýtur það að teljast nokkuð gott í nútíma leikhússýningarbókhaldi þar sem samkeppnin við blessað sjónvarpið er alltaf jafnfjörugt. En einsog einhver góður maður eða var það kannski kona sem sagði Leikúsið er list augnabliksins. Eimitt það greinir það frá sjónvarpinu og kvikmyndunum. Aðeins verður ein almenn sýning á Gísla Súrssyni í þessari borgarferð. Hún verður föstudaginn 12. október kl.20 í Möguleikhúsinu við Hlemm. Gísli Súrsson verður ekki aftur í borginni fyrr en í lok febrúar á næsta ári það væri því ekki vitlaust fyrir skólana að panta eina sýningu snöggvast því Gísli hefur alltaf tíma. Um að gera að senda emeil snöggvast á Kómedíu og panta eitt stykki Gísla.

Mynd dagsins er af hinum stórglæsilega Haukadal í Dýrafirði þar sem Gísli súri og familý tóku land og stór hluti sögunnar gerist.

haukadalur


EKKI BARA ATVINNULEIKHÚS Á AKUREYRI

Af gefnu tilefni og til áréttingar skal geta þess að það eru þrjú atvinnuleikhús utan höfuðborgarsvæðisins. En í leikskrá Leikélags Akureyrar, sem er eitt af þessum þremur leikhúsum, fyrir leikritið Óvitar bls. 41 stendur m.a.: ,,Leikfélag Akureyrar er eina atvinnuleikhúsið utan höfuðborgarsvæðisins." Vissulega er Leikfélag Akureyrar elsta og stærsta atvinnuleikhúsið á landsbyggðinni en það eru tvö önnur atvinnuleikhús starfandi þó þau séu lítil. Þau eru Kómedíuleikhúsið á Ísafirði og Frú Norma á Egilsstöðum. Í þessum þremur leikhúsum starfar atvinnufólk bæði leikarar og listrænir stjórnendur og þess vegna eru þau skilgreind sem atvinnuleikhús. Hafa skal það sem rétt reynist. Nú fer Kómedíuleikhúsið ekkert í rosa fílu út af þessu enda er þetta sjálfsagt bara eitthvað sem hefur skolast til við gerð leikskrárinnar á Óvitum það hafi einfaldlega verið óvitaskapur. Rétt er að taka það fram að leikskráin sjálf er annars sérlega vönduð og vel gerð í alla staði. En einsog leikhúsfólk hefur tekið eftir þá hafa nú leikskránar verið að þynnast mikið með árunum. Að lokum sendir Kómedíuleikhúsið kærar kveðjur til hinna tveggja atvinnuleikhúsanna á landsbyggðinni, Leikfélags Akureyrar og Frú Normu á Egilsstöðum. Eflum atvinnuleiklist á landsbyggðinni.

KÓMEDÍA UNDIRBÝR 200 ÁRA AFMÆLI Á ÍSÓ

Kómedíuleikhúsið í samstarfi við Þröst Jóhannesson tónlistarmann vinnur nú að sérstakri afmælisdagskrá á Ísafirði. Tilefnið er 200 ára fæðingarafmæli listaskáldsins góða, Jónasar Hallgrímssonar en einsog alþjóð veit þá er afmælisdagur skáldsins 16. nóvember. Um er að ræða veglega dagskrá þar sem ljóðum úr smiðju skáldsins verður gert skil í tali og tónum en yfir 20 ljóð verða flutt. Dagskráin ber nafn eitt af ástsælustu ljóða Jónasar, Ég bið að heilsa, en meðal annarra ljóða í dagskránni má nefna Vísur Íslendinga, Móðurást, Ferðalok og Gunnarshólmi. Afmælisdagskráin Ég bið að heilsa verður frumsýnd miðvikudaginn 7. nóvember kl.20 á veitingastaðnum Við Pollinn á Ísafirði sem er staðsettur á Hótel Ísafirði. Önnur sýning verður svo viku síðar eða miðvikudaginn 14. nóvember kl.20. Miðasala er þegar hafinn. Miðapantanir eru í síma 456 3360 einnig er hægt að senda tölvupóst á Kómedíuleikhúsið á netfangið komedia@komedia.is

Jonas Hallgrimsson


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband