Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

,,Ekta vestfirsk leiksýning"

Kómedíuleikhúsið sýndi nýtt íslenskt leikverk Náströnd - Skáldið á Þröm fyrir skömmu. Leikurinn fjallar um ævi og örlög alþýðuskáldsins Magnús Hj. Magnússonar betur þekktur sem Skáldið á Þröm og enn aðrir þekkja hann sem Ólaf Kárason í Heimsljósi Laxness. Náströnd - Skáldið á Þröm var sýnt á slóðum skáldsins á Suðureyri við Súgandafjörð en þar bjó hann síðustu árin í kofanum Þröm. Sýningin fékk mjög góðar viðtökur og var uppselt á allar sýningar leiksins. Sigurður Pétursson, sagnfræðingur, er einn þeirra fjölmargra sem sáu sýninguna og segir hér að neðan frá þeirri upplifun:

Heimsókn til Skáldsins á Þröm. Hugleiðing eftir leiksýningu Kómedíuleikhússins

Ársæll Níelsson sem Magnús Hj. Magnússon
Magnús Hj. Magnússon var fæddur í Álftafirði, alinn upp á sveit í Önundarfirði, heilsuveill á yngri árum og vart fyrirvinna á fullorðinsárum. Fátæklingurinn átti lítið val í fastskorðuðu bændasamfélagi fyrri alda. Að þiggja sveitarstyrk frá fæðingahreppnum vegna veikinda ungur að árum, varð honum fótakefli það sem eftir var ævinnar. Sá sem ekki gat borgað til baka skuld sína, var upp á náð og miskunn hreppsnefndarinnar. Og hjá henni var slíkur munaður af skornum skammti. Þurfamaður átti engan rétt til að ráða sínu lífi, hvar hann settist að, hvort hann gifti sig og því síður að hann fengi lýðréttindi svo sem kosningarétt. Hann skyldi þjóna bændum með vinnu sinni og lífi. Allt sitt líf reyndi Magnús Hj. Magnússon, skáldið á Þröm, að brjótast undan þessu hlutskipti. Hann flutti stað úr stað, stundaði kennslu og skriftir, samdi erfiljóð og afmælisvísur og skrifaði upp handrit fyrir fólk. Og skrifaði dagbækur. En miskunn hreppsnefndarinnar kom aldrei.

Alþýðuskáldið Magnús hefur orðið þjóðinni hugleikinn allt frá því að nóbelskáldið Halldór hnaut um dagbækur hans á Landsbókasafninu og notaði til að draga upp skáldmæringinn og auðnuleysingjann í Heimsljósi. Síðar gaf Gunnar M. Magnúss út útdrætti úr dagbókum Magnúsar undir nafninu Skáldið á Þröm. Enn síðar komu ungir fræðimenn og gáfu út sýnisbók úr handritum Ljósvíkingsins til að sýna okkur inn í hugarheim alþýðumannsins. Og nú hefur Kómedíuleikhúsið á Vestfjörðum samið og sett upp einþáttung um líf skáldyrðingsins, sem reyndi að brjóta af sér hlekki fátæktar og fordóma með skrifum og skáldskap. Það var einkar vel til fundið að sýna verkið í Félagsheimilinu á Suðureyri, í þorpinu þar sem skáldið og fylgikona hans fengu að búa óáreitt síðustu æviár Magnúsar í þurrabúðinni Þröm. Víðsýni útvegsbænda í Súgandafirði fyrr á tíð skal höfð í minnum.

Leikstjórinn og leikhússtjórinn Elfar Logi Hannesson og leikarinn Ársæll Níelsson hafa skrifað og sett upp einleikinn Náströnd - Skáldið á Þröm. Leikurinn fór ekki fram í sal félagsheimilisins, heldur á sviðinu. Í þröngu rými, fangaklefa Magnúsar, skapaðist nálægð milli áhorfenda og leikarans, sem virkaði sterkt. Einföld sviðsmynd með bókum og blýantsstubbum skapaði rétt andrúmsloft. Texti verksins er allur fenginn úr dagbókum og skrifum skáldsins. Við fylgjum lífhlaupi hans í svipmyndum, þar sem hann afplánar dóm fyrir brot sem hann framdi. Við fáum að kynnast vonum hans og þrám, vonbrigðum og vesæld, en líka háum og stundum hjákátlegum hugmyndum hans um sjálfan sig. Hann sýnir okkur öfgarnar sem togast á í honum, frá sjálfsvorkunn til upphafningar, sem berast helst í afstöðu hans til kvenna og í veikburða skáldatilraunum. En sterkast verkar samt kaldur raunveruleikinn, fátæktarbaslið, hlutskipti öreigans. Ársæll túlkar skáldið auðnulausa á hóflegan hátt, en með þeirri glóð sem býr undir yfirborðinu; þránni eftir hinu æðra. Sterk nærvera hans og framvinda verksins gerði það að verkum að þær 55 mínútur sem sýningin tekur, leið sem örstutt stund. Frumsamin tónlist Jóhanns Friðgeirs Jóhannssonar virkaði fullkomlega með verkinu og ekki spillti Mugison í lokin.

Það var því skemmtileg leikhúsupplifun í Félagheimili Súgfirðinga, sem áhorfendur fengu að reyna, fyrir og um páskana hér fyrir vestan. Enda var fullt hús á öllum sýningum. Vonandi fær Kómedíuleikhúsið tækifæri til að flytja verkið oftar og víðar, svo fleiri fái tækifæri til að upplifa alþýðuskáldið á Þröm og ,,skáldyrðinginn" sem hugsaði hátt, en laut að lágu. Til hamingju með ekta vestfirska leiksýningu, Elfar Logi og Ársæll.

Sigurður Pétursson.


Sýningum hætt fyrir fullu húsi á Náströnd

Nýjasta leikverk Kómedíu Náströnd - Skáldið á Þröm hefur fengið fanta fínar viðtökur. Leikurinn var frumsýndur 23. mars fyrir stútfullu Félagsheimli Súgfirðinga. Skemmst er að geta þess að fullt hús var á öllum sex sýningum verksins en aukasýningu var bætt við á Pásakadag og var sú sýning einnig uppseld. Það er því nokkuð kómískt að sýningum á leikverkinu Náströnd - Skáldið á Þröm sé lokið. En örvæntið ekki leikurinn verður settur upp að nýju á árinu. Næstu sýningar verða á hinni frábæru Sæluhelgi á Suðureyri í júlí og einnig hefur Kómedíunni verið boðið að sýna leikinn á hinni einstöku leiklistarhátíð Act alone. En gaman er að geta þess að Act alone verður einmitt haldin á Suðureyri nú í ár en þetta er níunda árið í röð sem hátíðin er haldin. Loks má geta þess að stefnt er að því að sýna Náströnd - Skáldið á Þröm á næsta Kómíska leikári. Kómedíuleikhúsið þakkar gestum kærlega fyrir frábærar viðtökur og hlökkum til að sjá ykkur aftur í leikhúsinu.

Afinn í Bolungarvík

Einn ástsælasti leikari þjóðarinnar Sigurður Sigurjónsson sýnir gamanleikritið Afinn fyrir vestan. Sýnt verður í Félagsheimilinu í Bolungarvík föstudaginn 18. maí og hefst sýningin kl.20. Miðasala er þegar hafin á midi.is En rétt er að taka það sérstaklega fram að aðeins verður um þessa einu sýningu fyrir vestan að ræða. Því er um að gera að bóka sér miða á Afann strax í dag. Gamanleikurinn Afinn hefur fengið frábærar viðtökur gangrýnenda og áhorfenda og hefur verið sýndur fyrir fullu Borgarleikúsi á yfirstandandi og síðastliðnu leikári. Uppfærslan er samvinna þeirra Sigurðar og Bjarna Hauks Þórssonar. Áður hafa þeir unnið saman að Hellisbúanum og Pabbanum.

Hvernig eru afar í dag? Þeir eru á besta aldri, í góðri stöðu, búnir að ala upp börnin og geta loksins notið lífsins eftir brauðstritið. Margir hverjir eiga Harley Davidson í bílskúrnum og hlusta ennþá á Bítlana, en eiga það allir sameiginlegt að sofna yfir Kastljósinu á kvöldin. En verkefni afa í dag geta verið ýmis og flókin: tvískipt gleraugu, flóknar fjarstýringar, Viagra töflur og síðast en ekki síst barnabörnin.

„Barnabörnin eru eins og bílaleigubílar, maður pikkar þau upp tandurhrein, með fullan tank og leikur sér aðeins með þau, en skilar þeim svo bara aftur eftir einhverja stund grút¬ skítugum og tómum.“ – Afinn

Afinn er sprenghlægileg og hjartnæm leiksýning sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Skelltu þér inná midi.is og bókaðu miða á Afann í Félagsheimilinu í Bolungarvík föstudaginn 18. maí.


Vestfirsku dægurlögin - allt að seljast upp

Það er líf og fjör í miðasölunni fyrir söngvasjóvið Vestfirsku dægurlögin sem verður á fjölunum fyrir vestan um pásakana. Nú þegar er orðið uppselt á sýninguna á Skírdag, en laus sæti eru á sýninguna í kvöld miðvikudag kl.21. Miðasölusíminn er 892 4568 og miðaverðið er aðeins krónur 2.900.-. Síðasta sýningin á Vestfirsku dægurlögunum er síðan á föstudaginn langa 6. apríl kl.21. Sýningar eru í Félagsheimilinu í Bolungarvík og rútuferðir eru frá Ísafirði alla sýningardaga. Rútan fer frá Samkaupsplaninu kl.20.
Það er nýjasta leikhús Vestfjarða Vestfirska skemmtifélagið sem setur söngvasjóvið Vestfirsku dægurlögin á svið. Leikhúsinu stýra þeir félagar Elfar Logi Hannesson, leikstjóri, og Guðmundur Hjaltason, tónistarstjóri. Þrír söngvarar taka þátt í sýningunni það eru þau Hjördís Þráinsdóttir, Steingrímur Rúnar Guðmundsson og Sveinbjörn Simbi Hjálmarsson. Hljómsveitina skipa Guðmundur Hjaltason, Bjarni Kristinn Guðjónsson, Sunna Karen Einarsdóttir og Haraldur Ringsted.

Vestfirsku dægurlögin slá í gegn

Það er ótrúlegt hve mikið af dægurlögum koma frá Vestfjörðum. Nú hefur öllum helstu perlum Vestfirskra dægurlagamenningar verið safnað í eina sýningu Vestfirsku dægurlögin. Frumsýnt var um síðustu helgi við dúndrandi góðar viðtökur, gestir dönsuðu, dilluðu, sungu og skemmtun sér með stæl. Enda er það einmitt tilgangurinn að koma saman hlusta á einstak tónlist og eiga stuðkvöldstund án þess að pæla í einhverjum negatívum fréttum sem alltof mikið er af þessa dagana. Nú streyma gestir af öllu landinu Vestur enda eru páskar framundan og þá er pleisið Vestfirðir einsog allir vita. Vestfirsku dægurlögin verða á fjölunum alla páskana og er miðasala á allar sýningar hafin í síma: 892 4568. Næstu sýningar eru:
Miðvikudagur 4. apríl kl.21 laus sæti
Fimmtudagur, Skírdagur, 5. apríl örfá sæti laus
Föstudagur, þessi langi, 6. apríl sýning er á miðvikudag kl.21 laus sæti.

Hey kanína - bókaðu miða á Vestfirsku dægurlögin strax í dag.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband