Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

LJÓÐ DAGSINS - ÉG BIÐ AÐ HEILSA

Kómedíuleikhúsið frumsýnir í kvöld splunkunýjan ljóðaleik Ég bið að heilsa á veitingastaðnum Við Pollinn á Hótel Ísafirði. Leikurinn er settur á svið í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar, Listaskáldsins góða. Allur texti  sýningarinnar er eftir skáldið eða um 22 ljóð og eru þau flutt í leik og tali af Kómedíuleikaranum og Þröstur Jóhannesson flytur frumsamin lög við ljóð skáldsins góða. Síðustu daga hafa verið flutt hér á Kómedíublogginu ljóð úr leiknum og nú er komið að loka ljóð verksins sem er auðvitað og nema hvað slagarinn Ég bið að heilsa. Enn er hægt að panta miða á sýninguna í kvöld sem hefst með borðhaldi kl.19.00. Tvírétta máltíð úr meistaraeldhúsi Pollsins. Sýningin hefst klukkustund síðar eða kl.20.00. Miðaverð fyrir mat og leiksýningu er aðeins 2.900.-kr. Einnig er hægt að fara bara á sýninguna og kostar miðinn 1.500.krónur. Þá að ljóði dagsins Ég bið að heilsa:

ÉG BIÐ AÐ HEILSA

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.

Á sjónum allar bárur smáar rísa

og flykkjast heim að fögru landi ísa,

að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum

um hæð og sund í drottins ást og friði.

Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.

Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr, sem fer

með fjaðrabliki háa vegaleysu

í sumardal að kveða kvæðin þín!

Heilsaðu einkum, ef að fyrir ber

engil með húfu og rauðan skúf, í peysu.

Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.


LJÓÐ DAGSINS - ÉG Á ÞESSI FÖT

Þá er alveg að koma að frums. á ljóðaleiknum Ég bið að heilsa og er því við hæfi að birta hér fyrsta ljóð leiksins en það orti skáldið einmitt í æsku.

ÉG Á ÞESSI FÖT

Buxur, vesti, brók og skó,

bætta sokka, nýta,

húfutetur, hálsklút þó,

háleistana hvíta.


LJÓÐ DAGSINS - MÁL ER Í FJÓSIÐ

Ljóð dagsins eftir listaskáldið góða er stutt og laggott. Enda eru það nú ekki fjöldi orða sem skiptir máli í ljóðunum frekar en örðu, einsog t.d. í leiklistinni þar er nú oft sagt minna er betra sérílagi í kvikmyndaleiknum.

MÁL ER Í FJÓSIÐ

Mál er í fjósið! Finnst mér langt.

Fæ ekkert oní mig?

Æi, lífið er svo svangt.

- Enginn étur sjálfan sig.


10 MÍN EFTIR ENN ER HÆGT AÐ SVARA OG VINNA MIÐA Á ÉG BIÐ AÐ HEILSA

Nú er byrjað að telja niður í spurningaleik Kómedíu og BBvefsins. Aðeins 10 mínútur eftir af leiknum og nú er bara að svara og þú getur unnið tvo miða og út að borða á leiksýninguna Ég bið að heilsa á miðvikudag kl.20. Spurt er: Í hvaða dal fæddist Jónas Hallgrímsson? Svar skal senda á netfang Kómedíu komedia@komedia.is Nöfn vinningshafa verða birt á vef Kómedíu og á BB vefnum rétt eftir hádegi í dag.

Jonas Hallgrimsson


SPURNINGALEIKNUM LÝKUR Á MORGUN ERT ÞÚ BÚIN/NN AÐ SVARA

Nú fer hver að vera síðastur að taka þátt í spurningaleik Kómedíuleikhússins og BBvefsins varðandi frumsýningu á leiknum Ég bið að heilsa. Eina sem þarf að gera er að svara einni laufléttri spurningu um Jónas Hallgrímsson og þú getur unnið tvo miða á Ég bið að heilsa og út að borða á veitingastaðnum Við Pollinn á undan sýningu. Og þá er það spurningin: Í hvaða dal fæddist Jónas Hallgrímsson? Sendið svarið á netfang Kómedíu komedia@komedia.is fyrir kl.12 á morgun, mánudag. Þrír heppnir vinna tvo miða og út að borða og verða nöfn vinningshafa birt á heimasíðu leikhússins www.komedia.is og á BBvefnum www.bb.is Borðhald hefst kl.19.00 og sýningin klukkutíma síðar eða kl.20.00.

LJÓÐ DAGSINS - STÖKUR

Enn er Jónas Hallgríms í aðalhlutverki og hér kemur ein ljóðaklassík:

STÖKUR

Enginn grætur Íslending

einan sér og dáinn.

Þegar allt er komi í kring,

kyssir torfan náinn.

Mér er þetta mátulegt

mátti vel við haga,

hefði ég betur hana þekkt,

sem harma ég alla daga.

Lifðu sæl við glaum og glys,

gangi þér allt í haginn.

Í öngum mínum erlendis

yrki ég skemmstan daginn.

Sólin heim úr suðri snýr,

sumri lofar hlýju.

Ó, að ég væri orðinn nýr

og ynni þér að nýju!


TIL HAMINGJU KÓPAVOGUR

Alveg geggjað en hefði nú löngu átt að vera búið að koma upp leikhúsi í Kópavogi. Reyndar hefur mér alltaf fundist að það ætti að vera starfandi lítið atvinnuleikhús í þessum stóra bæ. Kannski er húsnæði sem þetta einmitt það sem til þarf til að koma soddan á fætur. Ætti vel að geta gengið í svona stórum bæ. Já hér er tilvalið tækifæri til að stofna lítið atvinnuleikhús í ört stækkandi bæ. Verður spennandi að sjá hvort einhver stokkvi á þetta. P.s. Kómedíuleikhúsið sendir Leikfélagi Kópavogs 50 afmælisóskir.


mbl.is Fyrsta eiginlega leikhúsið opnað í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LJÓÐ KVÖLDSINS - EINBÚINN

Ljóð dagsins náði ekki að komast hér inn í dag sökum anna Kómedíuleikarans í dag, æfing og opnun og fleira listrænt í gangi á Ísó að vanda. Ljóð kvöldsins verður það þá að þessu sinni. Áfram höldum við að hita upp fyrir frumsýningu á miðvikudag og bjóðum uppá ljóð listaskáldsins góða. Ljóðið heitir Einbúinn og gaman er að geta þess að í sýningunni, Ég bið að heilsa, er þetta ljóð flutt bæði af leikara og svo hefur tónlistargæinn samið þessa fínu melodíu við ljóðið. Til að fá að heyra og sjá þá er bara að kikka á frums. á miðvikudag kl.20 á Við Pollinn á Ísó. Jónas teik it avei:

EINBÚINN

Yfir dal, yfir sund,

yfir gil, yfir grund

hef ég gengið á vindléttum fótum.

Ég hef leitað mér að,

hvar ég ætti mér stað,

út um öldur og fjöll og í gjótum.

En ég fann ekki neinn,

ég er orðinn of seinn,

þar er alsett af lifandi og dauðum.

Ég er einbúi nú

og ég á mér nú bú

í eldinum logandi rauðum.


BILLA OPNAR SÝNINGU Á ÍSAFIRÐI Á MORGUN

Það er alltaf sama fjörið í listalífnu á Ísafirði og það er ekkert djók að staðurinn sé Menningarbæ með stóru m-i. Í kvöld heldur t.d. Stórsveit Vestfjarða tónleika, á þriðjudag er það Mugison og á miðvikudag verður ljóðaleikurinn Ég bið að heilsa frumsýndur. Á morgun, laugardag, opnar listakonan Marsibil G. Kristjánsdóttir myndlistarsýningu á Langa Manga á Ísafirði. Marsibil eða Billa einsog hún er kölluð hefur verið aktíf í listalífnu hér vestra síðustu ár og er þetta þriðja einkasýning hennar á þessu ári. Í dag lauk sýningu hennar á Café Karolínu í Listagilinu á Akureyri og í sumar sýndi hún í eyjunni Vigur í Ísafjarðardjúpi. Marsbil hefur vakið mikila athygli fyrir pennateikningar sínar sem eru unnar af mikilli natni og nákvæmni. Þetta eru verk þar sem smáatriðin skipta máli. Það ber hinsvegar nýtt við á sýningu Billu á Langa Manga á morgun því þar verða ekki pennateikningar heldur litmyndir. Nafn sýningarinnar er líka í takt við það eða ,,Í lit". Billa hefur starfað mikið með Kómedíuleikhúsinu sem leikmynda-, leikmuna og brúðuhönnuður. Hún gerði t.d. fígúrurnar í verðlaunaleiknum Gísli Súrsson og teiknaði geggjaðar skrímslamyndir fyrir einleikinn Skrímsli. Nú situr hún sveit við að hanna og gera brúður, leikmynd og fleira fyrir jólaeinleikinn Jólasveinar Grýlusynir. Sýningin Í lit verður opnuð á morgun, laugardag, kl.16 boðið verður uppá léttar veitingar og listakonan verður á svæðinu. Endilega kikkið á Langa Manga á morgun.

Billa Listakonan Billa við pennaverk sín sem verða ekki í aðalhlutverki á nýjustu sýningu hennar heldur myndir Í lit.


LJÓÐ DAGSINS - VÍSUR ÍSLENDINGA

Það er komin föstudagur og margir fara ábyggilega á rall um helgina enda viðburðarík vinnuvika að baki. Ljóð dagsins er gott veganesti í upphafi helgar. Vísur Íslendinga eftir Jónas Hallgríms:

VÍSUR ÍSLENDINGA

Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur,

er gleðin skín á vonarhýrri brá?

Eins og vori laufi skrýðist lundur,

lifnar og glæðist vonarkætin þá.

Og meðan þrúgna gullnu tárin glóa

og guðaveigar lífga sálaryl,

þá er það víst, að beztu blómin gróa

í brjóstum, sem að geta fundið til.

Látum því, vinir, vínið andann hressa,

og vonarstundu köllum þennan dag,

og gesti vora biðjum guð að blessa

og bezt að snúa öllum þeirra hag.

Látum ei sorg né söknuð vínið blanda,

þó senn í vinahópinn komi skörð,

en óskum heilla og heiðurs hverjum landa,

sem heilsar aftur vorri fósturjörð.

Já, heill og heiður, Halldór okkar góður!

Þú hjartans beztu óskum kvaddur sért,

því þú ert vinur vorrar gömlu móður

og vilt ei sjá, að henni neitt sé gert.

Gakktu með karlmannshug að ströngu starfi,

studdur við dug og lagasverðið bjart,

og miðla þrátt af þinnar móður arfi

þeim, sem að glata sínum bróðurpart.

Og heill og heiður, hinir landar góðu,

sem hólmann gamla farið nú að sjá,

þar sem að vorar vöggur áður stóðu

og vinarorðið fyrst á tungu lá.

Hamingjan veiti voru fósturláði,

sem verði mörgum deyfðarvana breytt,

allan þann styrk af ykkar beggja ráði,

sem alúð, fjör og kraftar geta veitt.

Það er svo tæpt að trúa heimsins glaumi,

því táradöggvar falla stundum skjótt,

og vinir berast burt á tímans straumi,

og blómin fölna a einni hélunótt.-

Því er oss bezt að forðast raup og reiði

og rjúfa hvergi tryggð né vinarkoss,

en ef við sjáum, sólskinsblett í heiði

að setjast allir þar og gleðja oss.

Látum því vinir, vínið, andann hressa

og vonarstundu, köllum þennan dag,

og gesti vora biðjum guð að blessa

og bezt að snúa öllum þeirra hag.

Því meðan þrúgna gullnu tárin glóa

og guðaveigar lífga sálaryl,

þá er það víst, að beztu blómin gróa

í brjóstum, sem að geta fundið til.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband