AUMINGJA LJÓÐIÐ Á SIGLÓ

Ljóðahátíðin Glóð hófst 18. október á Siglufirði og heldur ljóðafjörið áfram um helgina. Kómedíuleikhúsið sýnir á laugardag 20 október ljóðaleikinn Aumingja litla ljóðið eftir Hallgrím Oddsson. Sýningin fer fram í Aðalgötu 18 á Sigló og hefst leikurinn klukan 19.30 og takið eftir FRÍTT INN. Að vanda er um einleik að ræða og vart þarf að nefna það en gerum það samt að Kómedíuleikarinn leikur. Að lokinni sýningu verður haldin sérstök Jónasardagskrá í Herhúsinu í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli listaskáldsins góða. Kómedíuleikarinn er meðal lesara ásamt Sigurði Skúlasyni og Páli Helgasyni en hann mun flytja Gunnarshólma einsog honum einum er lagið. Fyrir þá sem ekki komast á sýninguna á Aumingja ljóðinu þá látum vér hér fylgja lokaljóð leiksins en þau eru fjölmörg og eiga það eitt sameiginlegt að höfundar eru allir vestfirskir. Ljóðið heitir Skáldagrímur og er eftir Guðmund Inga Kristjánsson en þess má geta að aldarafmæli hans er einmitt núna í ár og hafa Önfirðingar verið duglegir við að minnast skáldsins á árinu. Meðal annars hafa þau gefið út ljóðasafn hans Sóldagar í sérlega vandaðri útgáfu og ástæða til að hvetja ljóðaunnendur til að festa kaup á þessu eigulega verki eftir eitt fremsta ljóðskáld Vestfirðinga á síðustu öld. En hér kemur Skáldagrímur:

Skáldagrímsdalur, hvilft við lága heiði,

hvaðan er runnið nafnið sem þú berð?

Gleymst hefur skáld frá löngu liðnu skeiði.

Ljóð þess og minjar eru hvergi á ferð.

Ortir þú stökur eða heila rímur?

Af hverju týndist þetta kvæðasafn?

Varstu ekki ljós í vestri, Skáldagrímur?

Vann ekki hróður tímans þetta nafn?

Horfinn ert þú, og hverfa munu fleiri.

Hrósyrða margra bíður gleymskan ein.

Bjarndæling eftir öld í sýn ég heyri,

örtölvuþjón og gerfihnattasvein.

Lítur hann inn á ljóðadeild í safni,

les þar í hljóði fölnað titilblað,

glöggvar sig ei á gömlu, týndu nafni.

,,Guðmundur Ingi," spyr hann, ,,hver var það?"

aumingja litla ljóðið Frá frumsýningu leiksins Aumingja litla ljóðið í ,,ljóðalundi" Guðmundar Inga á Kirkjubóli í Önundarfirði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband