Dagur í lífi lattelepjandi manns

Oft er ég spurður af því hvað ég sé að gera í vinnunni. Hvað gerir þú eiginlega allan daginn? Já ég er nefnilega listamaður sem gjarnan eru nefndir lattelepjandi menn og konur. Líklega er þetta réttnefni hvað mig varðar því ávallt þegar ég fer á kaffihús þá fæ ég mér latte og það tvöfaldan. Því miður hef ég alltof lítið farið á kaffihús undanfarið því blessunarlega hefur verið mikið að gera í vinnunni. Já, vinnunni. Þetta er vinna þó ekki séu kannski allir því sammála. En það er líka allt í lagi það er nú ekkert varið í þetta ef allir eru á sama máli. Hvað er ég svo að gera? Og kannski frekar er ég eitthvað að gera? 

Það er að vísu svolítið erfitt að lýsa vinnudegi míns lattelepjandi dags. Engin dagur er eins því verkefnin eru mörg og fjölbreytt. Stundum er hinsvegar ekkert verkefni í gangi og þá er enn meira að gera því þá þarftu að finna uppá einhverju að gera, einhverju sem getur skapað þér monninga í þinn þunna og grunna buxnavasa. Til að geta þó áttað sig aðeins á mínu daglega vinnudegi þá get ég bara tekið gærdaginn fyrir, já ég er ekkert ósvipaður og kötturinn hvað minnið varðar. Svona var lattelepjandi vinnudagur minn í gær.

Föstudagur 31. janúar 2014

Vaknaði kl.7. Hefðbundinn morgunverður en ég er einn af þeim sem þarf að borða mikið á morgnana og það helst strax. Svo get ég nánast sleppt því að borða drjúgan hluta dagsins, tek reyndar ávallt með mér tvo ferska tómata í nesti.

Síðburðinum fylgt í Grunnskóla Ísafjarðar korter fyrir átta. Þaðan skundað beint á vinnustofuna sem er bara í næsta húsi eða í kjallaranum í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Er með aðstöðu þar sem áður var matreiðsla í Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði svo nú skiljið þið kannski afhverju ég þarf að vera búinn að eta mig saddann þegar eg mæti til vinnu.

Að sjálfsögðu hef ég með mér sterkt kaffi á vinnustofuna, svona ekta espressó mallað í Túninu heima. Fyrsta verkefni dagsins er að vinna í handriti og skipuleggja æfingar á söngleik sem ég er að æfa. Þetta er söngleikur sem ég setti saman í samstarfi við minn góða lattefélaga Guðmund Hjaltason. Heitir Jón Indíafari og hin vestfirska æska túlkar öll hlutverk leiksins. Erum kominn á þann stað þar sem allt er að fara að gerast í æfingaferlinu. Verið að sleppa handriti og byrja að fóta sig á sviðinu. Svo ég sem leikstjóri þarf að undirbúa æfingar vel, ákveða stöður, hvað hver er að gera, hvernig á leikmyndin að vera, svo allir söngvarnir það þarf að æfa þá svo mikilvægt er að vera vel undirbúinn fyrir hverja æfingu. Er að vinna í þessu í klukkutíma.

Þá er klukkan orðin 9.15, já þarf alltaf smá tíma á vinnustofunni áður en ég hefst handa. Kveiki á útvarpinu, drekk kaffið og gíra sjálfan mig upp.

Nú er kveikt á tölvunni sem er mikið vinnutæki fyrir mig og það er nú bara ótrúlegt hve tölvan er orðinn mikilvæg í okkar nútímasamfélagi. Byrja á að svara tölvupósti bæði frá gærdeginum og það sem hefur borist í dag. Mér finnst mjög mikilvægt að svara tölvupósti og hef ávallt haft þá reglu að svara öllum tölvupóstum. Fyrir utan þessa frá Nígeríu hef alveg látið þá vera. Þetta eru allskonar erindi sem berast í tölvupósti. Pantanir á leiksýningum sem Kómedíuleikhúsið mitt er með og sýnir um land allt berast nánast allar í gegnum tölvupóst í dag. Oftast eru það pantanir frá skólum en einnig frá hátíðum og fyrir ýmiskonar mannamót. Einnig berast reglulega póstar á Act alone leiklistarhátíðina sem ég stofnaði og er listrænn stjórnandi í dag. Þó hátíðin sé ekki haldin fyrr en aðra helgina í ágúst ár hvert þá berast í viku hverri póstar á hátíðina. Oftast eru það fyrirspurnir frá erlendum listamönnum sem langar að koma fram á hatíðinni.

Korteri síðar eða svo þá er farið á veraldarvefinn. Skanna fréttavefi landsins en byrja þó ávallt á nær umhverfinu og þar er bb.is málið. Svo er farið á Andlitsbókina. Það má margt gott segja um þann vef og öruggulega margt slæmt líka. Auk þess að vera með eigin síðu þá er ég einnig með síður fyrir mín apparöt sem eru þó nokkur. Kómedíuleikhúsið, Þjóðlegu hljóðbækurnar, Act alone, Leikhús á Vestfjörðum. Svo er ég tengdur ýmsu öðru apparti m.a. Glæpafélagi Vestfjarða. Maður reynir að halda þessum síðum opnum enda er þetta sterkt upplýsinga og jafnvel auglýsingatæki ef vel er notað. Svo maður setur gjarnan stöðuuppfærslur á sínar síður um næstu sýningu, leikferð, frumsýningu osfrv. Meiri veraldarvinna liggur fyrir því ég er bæði með heimasíðu fyrir Kómedíuleikhúsið og Act alone. Það hefur sýnt sig að ef maður uppfærir ekki síðuna reglulega þá dettur öll umferð á vefinn niður. Eðlilega ef ekkert nýtt kemur inná heimasíðuna nú þá er engin þörf að kikka á hana. Ég er svo lánsamur að úrvals hönnuðir settu upp þessar síður sem er einfalt að uppfæra sjálfur.

Það fer alveg klukkutími í þetta. Næst þarf ég að skunda til góðs vinar míns og samstarfsfélaga Jóhannesar Jónssonar. Við höfum brallað margt í gegnum tíðina. Mest hefur það þó verið í tengslum við hljóðbókaútgáfu Kómedíuleikhússins. Hann var einmitt að fjölfalda fyrir mig hljóðbækur sem voru búnar. Það er nefnilega að skella á hinn árlegi Bókamarkaður Félag íslenskra bókaútgefenda og þar verða hljóðbækur okkar til sölu. Við Jói tökum einn kaffi, ekki latte að þessu sinni heldur staðið og gott kaffi. Soldið sterkt. Skunda aftur á vinnustofuna með 100 eintök af hljóðbókum. Nú tekur við að prenta á diskana og pakka þeim í viðeigandi hulstur. Það fer nokkur drjúgur tími í þetta því ég get bara prentað einn disk í einu.

Nú er klukkan að verða 12.42 og vinna hefst við næsta verkefni dagsins. Að udirbúa æfingu á leikritinu Lína Langsokkur sem ég er að leikstýra á Þingeyri. Það er æfing í kvöld og allur leikhópurinn mætir hátt í tuttugu manns. Svo það er eins gott að vera vel undirbúinn.

Varð að gera stuttan stans í Línu ævintýri til að taka þátt í öðru ævintýri. Bíldalíu. Vinur minn Ingimar Oddsson var að fá styrk fyrir verkefni sem hann nefnir Bíldalía og er einstakt verkefni á nema hvað Bíldudal. Margmiðlun, bókaútgáfa og meira að segja útgáfa eigin myntar. Strákurinn var að fá þennan fína styrk fyrir þetta verkefni. Og þar sem lokað er á milli norður og suðursvæðis Vestfjarða meira en helming ársins þá bað hann mig að taka á móti þessu sem ég gerði með mikilli ánægju.  

Aftur skundað á vinnustofuna klukkan er nú 13.56 og ég held áfram að undirbúa æfingu á Línu Langsokk.

Klukkutíma síðar eða 14.56 er það næsta verkefni. Nú er það tímarit sem ég er að fara gefa út með mínum góða bróður Þórarni Hannessyni. Tímaritið heitir Arnarfjörður sem er okkar fæðingarstaður en við ólumst upp á Bíldudal við Arnarfjörð. Einsog Jón úr Vör sagði þá ,,fer þorpið með manni alla leið". Þetta tímarit er hugsað sem ársrit og efnið verður sótt í hinn sögulega Arnarfjörð. Um menn og málefni, viðburði, hús, félög og já bara allt sem hefur gerst í þessum mikla sagnafirði. Ritaði eina grein um síldveiði í Arnarfirði og lagði drög að grein um ár Þorsteins Erlingssonar á Bíldudal. En hann var ritstjóri blaðsins Arnfirðingur sem Bíldudalskóngurinn Pétur Jens Thorsteinsson gaf út. 

Klukkan er að verða 16 og nú er gerð smá pása í vinnunni. Skunda í Bónus og hingað og þangað í þágu heimilisins.

Klukkan 18.40 falla öll vötn til Dýrafjarðar. Skunda í gegnum göngin, yfir Gemlufallsheiði og stöðva ekki fyrr en við Björgunarsveitarhúsið á Þiingeyri. Þar er einmitt að hefjast æfing á Línu Langsokk eftir 15 mínútur svo að vanda byrjar maður á því að hella uppá kaffi. Korteri síðar eru allir mættir, mjög stundvísir leikarar enda er það mikilvægt í leikhúsinu. Það er góður stemmari á æfingunni, mikið hlegið og við meira að segja prófum að sleppa handriti í einu atriðinu. Vippuðum okkur bara á gólfið og prófuðum stöður. Verð að nota tækifærið og hrósa leikurunum fyrir að vera dugleg að læra textann sinn. Það er ekki nema vika síðan við byrjuðum að æfa og leikarar fengu hlutverk og handrit í hendurnar.

Klukkan 22 er æfingu á Línu lokið.

Skunda til tengdaforeldra minna á Þingeyri en þar er einmitt minn betri helmingur. Skuttlaðist með mér yfir til að eiga góða stund með sínum frábæru foreldrum. Tengdaforeldrar mínir eru miklir listamenn. Tengdapabbi var einmitt að vinna í hesthaus fyrir hestinn hennar Línu. Hann á eftir að stela senunni er ég hræddur um því þessi hestur getur bæði depplað augunum og blakað eyrunum.

Klukkutíma síðar eða kl.23.30 erum við komin heim í Túnið. Þá var nú bara lagst í sófann og nema hvað sett á DR 1 þá úrvals stöð. Horfðum á tvöfaldan þátt með Mr. Marple hina dásamlegu persónu Agötu Christie.

Þannig var nú föstudagurinn 31. janúar 2014 í mínu lattelepjandi lífi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband