ÁTTUNDI, NÍUNDI OG TÍUNDI SVEINNINN KOMINN Í KÓMEDÍULEIKHÚSIÐ

Já það er bara svaka rennerí í Kómedíuleikhúsið þessa dagana og langt fram yfir miðnætti meira að segja. Leikhúsið er bara að fyllast af jólasveinum. Dagurinn í dag hefur verið mjög kómískur og fjörugur því það þarf nú að huga að mörgu þegar sett er svið eitt stykki jólaleikrit með alíslenskum jólasveinum. Það þarf að búa til jólasveinahellinn og hann er nú heilt ævintýri út af fyrir sig einsog íbúar hellisins, ljós þurfa að skína og þar fylgist Kertasníkir vel með því þetta er nú hans sérgrein en í kvöld var hann loks ánægður enda ekki seinna vænna frumsýning eftir tæpa 14 klukkutíma. Eftir lokaæfingu í kvöld voru settar upphækkanir í húsinu svo allir sjái ævintýrið vel og tekur salurinn alls 60 manns í sæti. Já nú er Tjöruhúsið á Ísafirði sannarlega orðið Ævintýrahús Jólasveinanna. Sökum anna Kómedíuleikarans hafa vísu skrif verið lítil í dag og enn eigum við eftir marga jólasveina. Við höfum þetta því þrefalt að þessu sinni og kynnum nú til sögunnar hið frábæra jólasveinatríó: Bjúgnakræki, Gluggagægi og Kjötkrók.

BJÚGNAKRÆKIR

Halló bjúga, loksins náði'ég þér!

Ég skipa þér að koma heim með mér.

Dagana langa

bjúgu ég fanga.

Var búinn ' að fela

nú við þau kelaaaa..

Læt þau leika

um háls og á höndum,

rétt eins og kjötkveðjukall út í löndum.

Maginn á mér æpir hátt og snjallt:

,,með glöðu geði ég ég þetta allt"!

 GLUGGAGÆGIR

Hér ligg ég einn á glugga og er að glápa

inn til þín og augun í mér rápa

til og frá í augnatóftum mínum

er fylgist ég með ferðum þínum.

Í öllum bænum lát þér ekki bregða

þó þurfi' ég mér á þennan hátt að hegða,

en nafnið mitt er gamli Gluggagægir

að glápa gluggana - það nægir!

KJÖTKRÓKUR

Mér gefst nú sjaldan til þess tækifæri

að taka spor við gómsætt hangilæri,

sem einhver hefur hengt í hússins rjáfur,

þá nýti ég mér allar mínar gáfur

að hugsa' út leið og krækja mér í bita,

en reyni þó að láta engan vita

sem líður eins og mér, - með tóman maga

alla daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband